Adolf Hitler var vinsæll vondikall í amerískum teiknimyndasögum á tímum seinni heimsstyrjaldar, jafnvel áður en Bandaríkin drógust sjálf inn í styrjöldina. Gyðingar voru þá áberandi í röðum teiknimyndahöfunda, og þeir höfðu skiljanlega litla samúð með Hitler. Foringinn fékk ítrekað að kenna á Súperman og fleiri köppum á síðum myndasagnablaðanna.

 

Í júlí 1941 kom út myndasögublaðið Daredevil Battles Hitler, fyrsta tölublaðið um ofurhetjuna Daredevil. Daredevil þessi — hann er alls óskyldur samnefndri Marvel-ofurhetju sem kom fram á sjöunda áratugnum — var alinn upp af áströlskum frumbyggjum og þess vegna sérstaklega fimur með búmmerang.

 

Daredevil kemur víða við í blaðinu — hann laumast inn í Arnarhreiðrið og kýlir Foringjann sjálfan kaldan, ræðir framgang stríðsins við Churchill, hjálpar Kínverjum að standast árás öxulveldanna í Singapúr og aðstoðar Breta í Mið-Afríku í harðri baráttu þeirra við hræðilegar „frumskógarhjarðir Hitlers“.

 

En í blaðinu er einnig níu síðna myndasaga, The Man of Hate (Maður hatursins), sem fjallar um leið til Adolfs Hitlers til valda og byrjun heimsstyrjaldarinnar.