Fáir ljósmyndarar á fyrstu árum ljósmyndatækninnar gátu fest landslag og mannlíf í Íran á filmu af álíka leikni og Antoin Sevruguin. Á löngum ferli — frá dögum Qajar-keisaraættarinnar í lok nítjándu aldar og fram á þá tuttugustu  — tók hann myndir af fátækum bændum og verkamönnum jafnt sem keisaranum sjálfum, og það af sömu nærgætni og natni.

 

Antoin þessi Sevruguin var sjálfur ekki Írani. Hann fæddist í lok fjórða áratugar 19. aldar til armenskra og georgískra foreldra, í sendiráði Rússa í Teheran, þar sem faðir hans starfaði. Þegar faðrinn lést flutti Sevruguin með móður sinni til heimaborgar hennar, Tíblisi í Georgíu, og fór að læra listmálun. Hann hafði þó áfram taugar til Írans, fæðingarlandsins. Þegar hann sá svo ljósmyndir þaðan eftir rússneskan ljósmyndara hreifst hann svo að hann gaf málaranámið upp á bátinn, tók upp myndavélina og lagði af stað í eigin ljósmyndaferð um Íran.

 

Þetta var um miðbik áttunda áratugs nítjándu aldar. Hann snéri ekki aftur til Tíblisi. Eftir að hafa ferðast um Íran þvert og endilangt settist hann á endanum að í höfuðborginni Teheran og setti þar upp ljósmyndastúdíó.

 

Fjárhirðir.

 

Mikið af fyrstu ljósmyndum frá Miðausturlöndum voru verk Vesturlandabúa eða myndir hugsaðar fyrir Vesturlandabúa, sem endurspegla ‘óríentalísk’ viðhorf þess tíma. Sevruguin var þessu ekki undanskilinn. Meðal verka hans eru fjölmargar stúdíómyndir af konum í skrautlegum og djörfum búningum sem heita áttu einhverskonar þjóðbúningar, og fáránlegar sviðsettar myndir sem sýndu víst lúxuslífið í kvennabúri keisarans.

 

Þetta var líka arðbær bransi, ljósmyndastúdíó Sevruguins var vinsæll viðkomustaður erlendra ferðamanna, sem höfðu myndir hans með sér heim sem minnisgrip um ferðir sínar til hinnar framandi Persíu.

 

En áhugaverðustu myndir Sevruguins eru ósviðsettar götumyndir af daglegu lífi Írana á þessum umbrotatímum — sölumönnum og fjárhirðum og barnungum verkamönnum, bæði í höfuðborginni og í minni bæjum og þorpum um landið.

 

Konungur Qajara frá 1848 til 1896, Naser al-Din Shah, var sjálfur áhugasamur áhugaljósmyndari. Hann sá hæfileika Sevruguins og gerði hann að sínum hofljósmyndara. Það fól ekki einungis í sér formlegar portrettmyndir, heldur leyfði keisarinn Sevruguin einnig að taka persónulegri skyndimyndir af einkalífi sínu — þó það komi líklega flestum hégómlegt fyrir sjónar, eins og myndin af rakaraliðinu sem sinnir keisaranum hér að neðan.

 

En því miður kunni arftaki Qajaranna ekki að meta verk Sevruguin á sama hátt.

 

Fjórir rakarar lita skeggið á Naser al-Din keisara.

 

Eftir að Reza Pahlavi steypti síðasta konung Qajara af stóli árið 1925 hófst hann handa við metnaðarfulla nútímavæðingu landsins. Hluti af því prógrammi var að ímynd Írans út á við yrði eins nútímaleg og hægt væri. Ljósmyndir Antoin Sevruguins af kryddmörkuðum, úlfaldalestum og frumstæðum smáþorpum pössuðu ekki við hugmynd Reza Pahlavis um Íran nútímans.

 

Sérstaklega ekki þar sem myndir Sevruguin nutu áframhaldandi hylli útlendinga. Skömmu eftir að hann komst til valda lét hann gera þúsundir filma Sevruguins upptækar og eyðileggja þær.

 

Sevruguin lést nokkrum árum síðar, 1933. Af öllum þeim myndum sem hann tók um ævina hafa einungis nokkur hundruð varðveist. Þær eru geymdar á Smithsonian-stofnuninni í Washington DC í Bandaríkjunum.

 

Glæpamaður grafinn lifandi.

 

Menn í Isfahan.

 

Ungir vatnsberar.

 

Íssalinn í Teheran.

 

Braskarar á götuhorni.

 

Hrísgrjónarækt.

 

Iðandi mannlíf.

 

Fiskimenn leggja að landi.

 

Bændafjölskylda á heimili sínu.

 

Hermenn.

 

Snjókoma í Teheran.

 

Burðarmenn.

 

Hestvagnar á götu í Teheran.

 

Menn með ljón.

 

Klerkur með fjölskyldu sinni og starfsfólki.

 

Kúrdískir höfðingjar.

 

Fjölskyldur í búferlaflutningum.

 

Matvara á markaði í Teheran.

 

Stúlkur vefa teppi.

 

Glímukappar á æfingu.

 

Fuglar og maður á asna.

 

Lyfsali á götuhorni.

 

Sendinefnd Túrkmena stillir sér upp á torgi í Teheran.

 

Vefnaður til sölu.

 

Þátttakendur í ashura-skrúðgöngu.

 

Við pósthúsið í Teheran.

 

Í Gyðingahverfinu í Teheran.