Vídjó

Hér heyrum við rússneska kabarett-lagið „Vegurinn langi“ (rúss. Дорогой длинною) í flutningi Alexanders Vertinsky. Lagið var samið í Rússlandi árið 1924 af Boris Fomin, við texta ljóðskáldsins Konstantíns Podrevskí. Lag þetta kann að hljóma mörgum kunnuglega, enda var því miskunnarlaust stolið af bandaríska lagahöfundinum Eugene Raskin og gert að einum af stærstu poppsmellum sjöunda áratugsins.

 

Eugene Raskin, maðurinn sem eignaði sér „Veginn langa“ eftir Boris Fromin.

Raskin var mikill áhugamaður um þjóðtónlist og þekkti „Veginn langa“ úr bernsku sinni. Árið 1962 gáfu hann og kona hans út breiðskífu með laginu, sem nú hét „Those Were The Days“ og var með nýjum enskum texta. Raskin var skráður bæði sem laga- og textahöfundur, og eignaðist þannig höfundaréttinn.

 

Á næstu árum ferðuðust Raskin-hjónin víða um heim á tónleikaferðalögum. Eitt kvöldið fluttu þau „Those Were The Days“ á skemmtistaðnum Blue Angel í Lundúnum, en bítillinn Paul McCartney var þar tíður gestur. Hann var viðstaddur þetta kvöld og heillaðist samstundis af laginu.

 

Hin velska Mary Hopkin syngur Those Were The Days.

Bítlarnir höfðu þá nýlega stofnað sitt eigið plötufyrirtæki, Apple Records, og McCartney sá hér tækifæri í hendi sér. Hann keypti snarlega flutningsréttindi af Raskin og gerði upptöku af laginu með velsku þjóðlagasöngkonunni Mary Hopkin.

 

Úrkoman varð einn stærsti alþjóðlegi poppsmellur ársins 1968.  Raskin hagnaðist gríðarlega af stefgjöldunum, keypti sér snekkju, hús á Majorka og Porsche bifreið. Ekki er vitað til þess að upprunalegu rússnesku höfundar lagsins eða afkomendur þeirra hafi fengið neitt fyrir sinn snúð.

 

Hér sést Mary Hopkin syngja „stolna“ lag Raskins og McCartneys, „Those Were The Days“:

 

Vídjó