Ætli lögun nefsins segi til um skapgerð fólks og innræti þess? Vesturfarablaðið Heimskringla velti því fyrir sér árið 1887 þegar heyrðist af því að útgáfa tímarits á sviði neffræðinnar hefði hafist í Kanada.

Nef-fræði. Bráðum á að fara að gefa út blað hjer í landi, sem á að kenna mönnum að lesa eðlishátt og skaplyndi manns á nefinu. Höfundur þessarar neffræði segir hægt að sjá manninn alveg út með því einungis að stúdera á honum nefið.

 

Eptir neffræðinni er maðurinn þess meiri og betri sem nefið er lengra. Bæði Júlíus Cesar og Napoleon Bonaparte höfðu stórt og langt nef, þar af leiðandi er það órækur vottur um mikilleik í hvaða grein sem er.

 

Beint nef sýnir að eigandi þess hefur rjettlátan, alvarlegan og fagran hugsunarhátt, að hann er aðgætinn en þó drifandi starfsmaður.

 

Rómverska hetju nefið sýnir, að maðurinn er gjarn á að reyna óviss fyrirtæki; meiri spekulant í honum.

 

Þykkt nef og víðar nasir sýna að maðurinn er holdlega sinnaður, að dýrsnáttúran í honum er mikil.

 

Bogið, holdmikið nef sýnir drottnunargirni og grimmd; þannig nef höfðu þær Katrín de Medice og Elísabet Englandsdrottníng.

 

Bogið, en þunnt nef aptur á móti sýnir að maðurinn hefur miklar og skarpar gáfur, en er drambsamur og háðskur. Það er hið eiginlega skáldanef.

 

Sje nefið hafið að framan og lágt upp við ennið sýnir það veika, reikandi hugsun, í sumum tilfellum grófan hugsunarhátt, en yfir höfuð lýsir það glaðlyndi, ljettsinni og glettum.

(Heimskringla, 26. maí 1887.)

 

Heimskringla.

Heimskringla.