Árið 1894 dúkkaði fátækur drengur upp við dyr Þjóðminjasafns Bosníu í Sarajevo með gamla skruddu þakta vínslettum og vildi selja safninu.

 

Safnvörðurinn var fljótur að uppgötva að skrudda drengsins var ómetanlegur fornmunur. Þetta var lítil og þunn kálfskinnsbók, aðeins 34 síður en hver síða var annari glæsilegri með fíngerðum og litríkum lýsingum skreyttum með kopar og gulli.

 

Handritið sagði sögu þess þegar Móses leiddi Gyðingana úr ánauð í Egyptalandi. Sú frásögn er nefnd haggadah og Gyðingar fara með hana á hverju ári yfir seder-hátíðarkvöldverðinum við upphaf páskahátíðar. Er þá notast við sérstök haggadah-handrit og eins og vínsletturnar á handritinu í Sarajevo bentu til hafði þetta handrit verið í stöðugri notkun áður en fátækt þvingaði fjölskyldu drengsins til þess að selja það.

Handrit þetta var líklega skrifað um miðja 14. öld í Barselóna og hefur tilheyrt ríkri fjölskyldu sefardískra Gyðinga á Spáni. Það er elsta sefardíska haggadah-handrit sem varðveist hefur, eitt af mikilfenglegustu trúarritum Gyðinga og algjörlega ómetanlegt. Þegar safn í Madríd vildi fá það að láni árið 1992 þurfti fyrst að tryggja það fyrir eina 700 milljón Bandaríkjadali.

 

Reynt hefur verið að púsla saman sögu handritsins í gegnum aldirnar. Þegar Kaþólikkar ráku Gyðingana frá Spáni árið 1492 fór handritið á hættulegt flakk. Víða í Evrópu á þessum tíma voru hverskonar Gyðingarit og bækur afar illa liðin ef þau voru ekki bönnuð, líkt og var t.d. í Portúgal. Vitað er að handritið hafði viðkomu í gettóinu í Feneyjum um 1600 áður en það dúkkaði loks upp í Sarajevo við lok 19. aldar.

Tvær af plágunum sjö. Vatn nílar verður að blóði og froskar.

Sarajevo er ef til vill hæfandi samastaður fyrir handritið — borgin sem hefur verið kölluð Jerúsalem Evrópu vegna þess fjölmenningarlega samfélags sem þar hefur búið gegnum aldirnar. Öruggur samastaður var það þó ekki.

 

Nasistar og bandamenn þeirra lögðu undir sig Júgóslavíu í apríl 1941. Umsvifalaust hófust miskunnarlausar ofsóknir á Gyðingum og Serbum í íbúafjölda Sarajevo af hendi nasista og króatískra fasista.

Guð birtist Móses sem brennandi runni, og Móses og Aron hitta faraó.

 

Nasistar söfnuðu list- og fornmunum hvar sem þeir komu, muni sem síðan áttu að fylla glæsileg söfn Þriðja ríkisins. Meðal annars fylltu Nasistar heilu vöruhúsin með gyðinglegum munum — þar á meðal Tórarollur og önnur trúarleg rit. Áfangastaður munanna var þegar ákveðinn. Í Prag höfðu nasistar látið hlífa litlu Gyðingahverfi borgarinnar við eyðileggingu. Eftir stríðið átti þar að rísa Gyðingasafn og einskonar skemmtigarður þar sem Aríar gætu stoltir virt fyrir sér kynlega menningu þjóðarinnar sem þeir útrýmdu.

 

Haggadah-handritið var lang dýrmætasta eign þjóðminjasafnsins í Sarajevo — nokkuð sem ekki hafði farið framhjá Nasistum. Í byrjun árs 1942 birtist þýskur herforingi á safninu og fór fram á að fá handritið afhent. En hann greip í tómt — það var horfið.

Sköpun heimsins.

Dervis Korkut

Fyrr sama daginn hafði yfirmaður íslamskra minja á safninu, fræðimaður að nafni Dervis Korkut, tekið handritið úr peningaskápnum þar sem það var jafnan geymt og laumast út með það falið undir jakkanum. Síðan fór hann með handritið út á land, í lítið fjallaþorp þar sem vinur hans þjónaði sem ímam í þorpsmoskunni. Þar faldi hann haggadah-handritið innan um Kóranbækur og önnur íslömsk rit, og þar beið það til stríðsloka.

 

Bókinni var aftur stofnað í hættu í Bosníustríðinu á tíunda áratuginum. Í umsátrinu um Sarajevo voru mörg bókasöfn borgarinnar brennd til grunna og Serbar vörpuðu sprengjum á Þjóðminjasafnið. Aftur kom til skjalanna hugrakkur starfsmaður safnsins sem bjargaði handritinu undan sprengjuregninu og kom því fyrir í bankahólfi.

 

Og enn stendur handritinu ógn af pólitík — hinni þrískiptu ríkisstjórn Bosníu kemur ekki saman um hver eigi að borga fyrir rekstur menningarstofnana ríkisins, og því gerir enginn það. Starfsmenn safna og bókasafna Sarajevoborgar starfa nú margir launalaust þar sem stofnanirnar eru stórskuldugar og eiga varla fyrir hita og rafmagni. Þjóðminjasafninu verður líklegast lokað í náinni framtíð.

 

Fleiri myndir úr Sarajevo-handritinu má skoða hér að neðan og á þessari síðu.

 

Móses á Sinaífjalli.