Í norðurhluta Búkarest, höfuðborgar Rúmeníu, er gyðingagrafreitur einn, kallaður Filantropia. Þar hafa Ashkenazi-gyðingar borgarinnar grafið lík síðan árið 1865 (sephardískir og aðrir Gyðingar eiga eigin grafreit annarstaðar í borginni) — þarna liggja meðal annars jarðneskar leifar þess fjölda ungra hermanna sem féllu í fyrri heimsstyrjöld, og fyrstu Gyðingarnir sem dóu í ofsóknum og fjöldamorðum fasista í byrjun seinni heimsstyrjaldar.

 

Þar liggur líka grafinn Adolf nokkur Hittler.

 

 

Þessi myndarlegi grafsteinn hefur löngum vakið furðu þeirra sem leggja leið sína um grafreitinn. Á honum stendur: „Hér liggja jarðneskar leifar ADOLFS HITTLER, látinn 26. október 1892, sextugur að aldri. Biðjið fyrir honum.“

 

Hver var þessi Adolf Hittler, Gyðingur í Rúmeníu? Þegar hann lést var austurrískur alnafni hans mínus einn bókstafn þriggja ára gamall. Gæti verið að þeir hafi verið skyldir — átti Adolf Hitler (eitt T) leynilegar rætur að rekja til rúmenskra Gyðinga? Einhverjir hafa reynt að setja fram slíkar kenningar andspænis þessum dularfulla grafstein, en fátt er til að renna stoðum undir það nema einbeitt óskhyggja.

 

Samkvæmt rúmenskum fjölmiðli rakst grafreitarvörður á legsteininn hálfþakinn illgresi árið 1940, sama ár og fasistastjórn Antonescu gerði Rúmeníu aðila að samningi Öxulveldanna. Vörðurinn óttaðist að líkindin á nafni hins látna og Gyðingahatarans Þýskalandskanslara yrði til þess að einhver ynni skemmdir á gröfinni, svo að hann þurrkaði nafnið á steinunum út. Steininum var svo komið aftur í upprunalegt horf árið 1987 að frumkvæði rabbína eins í borginni.

 

Staðhæfir sami fjölmiðill að aldrei hafi nein fjölskylda að nafni Hittler verið búsett í Búkarest. Adolf þessi Hittler hafi hinsvegar verið þýskumælandi Gyðingur sem flutti á fullorðinsaldri til Búkarest frá Búkóvínu, héraði sem þá heyrði undir Austurríki-Ungverjaland. Hann var hattari og kallaði sig eftir því — en mistök búrókrata í Búkarest orðið til þess að hið þýska Hüttler varð Hittler.

 

Aðrir hafa dregið þessa frásögn um hattarann Adolf í efa, og meðal annars bent á grein um grafsteininn sem birtist í rúmensku dagblaði um 1937, þegar steininn á að hafa verið þakinn illgresi. Þar segir enn fremur að Adolf Hittler hafi verið burðarmaður á hóteli í borginni. Hvort Hittler hafi verið hótelstarfsmaður eða hattari er, því miður, líklega ómögulegt að segja úr þessu.