Atli Sigþórsson er sagnfræðingur, rappari og rithöfundur sem býr í Reykjavík. Hann er fæddur árið 1983, er alinn upp norðan heiða og gekk í Menntaskólann á Akureyri. Atli, sem er með gráður í bæði sagnfræði og í ritlist frá Háskóla Íslands, er líklega betur þekktur undir listamannsnafninu Kött Grá Pje, sem mun vera vísun í jarðfræðinginn og dulvísindamanninn Dr. Helga Pjeturss.

Undir því nafni hefur hann gefið út bæði tónlist og bókmenntaverk. Þar á meðal má nefna Stálskip (2014), sem var gefin út í takmörkuðu upplagi af Tunglinu, Hin svarta útsending (2014) og örsagnasafnið Perurnar í íbúðinni minni (2016) sem sló rækilega í gegn. Atli átti eitt vinsælasta lag sumarsins 2013, „Aheybaró,“ og átti eitt eftirminnilegasta erindi í íslensku rappi í laginu „Brennum allt,“ með hljómsveitinni Úlfi Úlfi árið 2015. 

Vídjó

Atli ætlar að taka Proust-próf Lemúrsins, eða öllu heldur Egils Helgasonar, en saga þess var einmitt rakin hér

Sæll, Atli. Hvernig hefurðu það í dag? 

Sæll. Einhverra hluta vegna virkar kommutakkinn ekki, það er að segja yfir stöfum. Eg veit ekki af hverju. Þess utan kvarta eg ekki. Öllu heldur, eg hef það fint i dag. Er enn i nattfötum. [Kommurnar duttu inn skömmu síðar].

Gæti verið verra. 

Mun verra.

Þá byrjum við þetta. 

Hver er þín hugmynd um hamingju? 

Að vera sáttur við aðstæður mínar, eða rétt rúmlega það. Það dugir.

Hvað óttast þú mest? 

Ég óttast það í einlægni að deyja fullur eftirsjár. Ég veit ekki eftir hverju, bara einhverri eftirsjá.

Hvað er þér verst við í eigin fari? 

Hroka.

Hvað er þér verst við í fari annarra? 

Nefnilega sko, hroka.

Hvaða lifandi manneskju dáir þú mest? 

Ömmu Dísu.

Hvað, ef eitthvað, áttu til að gera í óhófi? 

Drekka vín og, á sumrin, að reykja.

Hvert er hugarástand þitt núna? 

Ég er mjög afslappaður, óvanalega. Er í fríi frá vinnu og hugsa ekki lengra en að næstu máltíð.

Hver er ofmetnasta dyggðin? 

Dugnaður.

Við hvaða tækifæri lýgurðu? 

Þegar ég hitti nýtt fólk. Mér leiðist spjall um ekkert yfirleitt, sérstaklega við fólk sem ég þekki ekki. Ég lýg líka stundum þegar ég hef drukkið of mikið.

Hvað þolir þú minnst við útlit þitt? 

Mér þykir nefið á mér vera að verða æ kringlóttara, sem er skrítið. Það plagar mig samt ekki svo mjög. Fyrir ekki svo mörgum árum hafði ég áhyggjur af því að ég hefði of granna framhandleggi og það var mun verra. En það er liðið.

Hvaða eiginleika kanntu mest að meta í fari karla? 

Samhygð og einlægni.

Hvaða eiginleika kanntu mest að meta í fari kvenna? 

Þá sömu og í fari karla. Aðallega þá, já.

Hvaða orð, eða frasa, notar þú of mikið? 

Þó það nú væri. Ég er ekki einu sinni lengur viss um hvað hann þýðir.

Hver er stærsta ástin í lífi þínu? 

Konan mín, kötturinn og skáldskapur.

Ástin í lífinu? Konan mín, kötturinn og skáldskapur. Mynd úr einkasafni.

Hvar og hvenær varst þú hamingjusamastur? 

Hér úti í garði einhvern sólardaginn síðasta sumar. 

Hvaða hæfileika værirðu helst til í að búa yfir? 

Ég vildi gjarnan kunna að verða mér úti um aðeins meiri peninga án þess að vera drullusokkur. Það hlýtur að vera leið.

Ef þú gætir breytt einhverju einu við sjálfan þig, hvað væri það? 

Ég vildi gjarnan geta hugsað lengra fram í tímann en ég geri, geta séð fyrir mér hvað ég kem til með að vilja eða hvert ég stefni. Stundum er óþægilegt að reka bara um.

Ef þú myndir endurholdgast sem önnur manneskja, dýr eða hlutur, hvað væri það? 

Kolkrabbi. Ekki smokkfiskur, kolkrabbi.

Í hvaða borg/landi, myndirðu helst vilja búa? 

Á Spáni. Ég er ekki viss með borg. Kannski einhvers staðar í Kastillíu – La Mancha eða Madríd.

Hver er mikilvægasti hlutur sem þú hefur átt? 

Farsíminn sem ég átti síðast. Ég skrifaði tvær bækur á hann og ósköpin öll af lagatextum og ónotuðum uppköstum og drögum.

Hver er mesti harmur sem þú gætir hugsað þér? 

Að deyja einn og ástlaus. Sjálfsagt væri hann annar ef ég ætti barn. 

Hvað finnst þér skemmtilegast að gera? 

Að sitja með konunni minni einhvers staðar á Spáni og drekka sumarvín og reykja og borða ólífur og hlæja.

Hver er sterkasti þátturinn í þínu fari? 

Sköpunarþörfin.

Hvaða rithöfundar eru þér mest að skapi? 

Mikhail Bulgakov, Ursula K. Le Guin, Dr. Helgi Pjeturss, Iain M. Banks og Guðrún Eva Mínervudóttir. Þeir eru ótal.

Guðrún Eva Mínervudóttir á bókmenntahátíðinni í Mantova árið 2008. Mynd: Elena Torre/wikimedia commons.

Hvaða skáldskaparpersóna er þér mest að skapi? 

Woland í Meistaranum og Margarítu.

Hvaða einstaklingur í mannkynssögunni er þér mest að skapi? 

Rosa Luxemburg.

Hvaða einstaklingur í mannkynssögunni er þér síst að skapi? 

Bellarmine kardnáli, sem stýrði réttarhöldunum yfir Giordano Bruno.

Hvaða tónlistarfólk er þér mest að skapi? 

Sam Cooke og Slick Rick.

Sam Cooke (1931-1964). Mynd: RCA Victor/wikimedia commons.

Hvernig viltu deyja? 

Glaður, óforvarendis. Hjartað hætti sisvona og ég dett niður í moldina.

Hvert er uppáhaldsblómið þitt? 

Ég er ekki mikið fyrir blóm, en er hrifinn af þykkblöðungum. Yrði ég að nefna blóm segði ég blómið á granateplatrjám.

Hvert er uppáhaldsfjallið þitt? 

Súlur yfir Akureyri, sem mér finnst þó bara bærilegar. Ég held ekki mikið upp á fjöll.

Áttu þér eftirlætis einkunnarorð/mottó?

Frasann sem hefur verið eignaður Emmu Goldman: „Ef ég má ekki dansa þá er þetta ekki mín bylting.“ Það eru talsverð áhöld um hvort hún hafi einhvern tímann sagt þetta, en henni þótti þetta víst samt.

Frasann sem hefur verið eignaður Emmu Goldman: „Ef ég má ekki dansa þá er þetta ekki mín bylting.“ Það eru talsverð áhöld um hvort hún hafi einhvern tímann sagt þetta, en henni þótti þetta víst samt. Mynd: International Institute of Social History.

Það eru viðeigandi lokaorð, þetta er komið. Kærar þakkir. Sam Cooke fer á fóninn, núna strax.

Yndislegt. Takk sömuleiðis, Bjössi minn.