Airbus A310-flugvél á vegum rússneska ríkisflugfélagsins Aeroflot var á leið frá Moskvu til Hong Kong þann 22. mars 1994. En hún komst aldrei á leiðarenda. Á miðri leið hrapaði hún niður í síberíska skóglendið og allir um borð, 63 farþegar og 12 manna áhöfn, fórust.

 

Þetta voru miklir umbrotatímar í Rússlandi og sömuleiðis fyrir flugfélagið Aeroflot. Á tímum Sovétríkjanna hafði það verið langstærsta flugfélag í heimi. Eftir að Sovétríkin féllu klofnaði það í margar smærri einingar og úr rústum þess spruttu ótal smærri flugfélög: Uzbekistan Airlines, FlyLal ríkisflugfélag Litháens, Air Ukraine og svo mætti lengi telja.

 

Á Sovéttímanum var Aeroflot líka hættulegasta flugfélag heims. Frá 1950 til 1994 dóu sjö þúsund manns í slysum um borð í Aeroflot-vélum. Rússar vildu ólmir breyta þessu til að laða að sér flugfarþega frá Vesturlöndum. Þegar slysið varð hafði flugfélagið nýlega fjárfest í flota af evrópskum Airbus-flugvélum, sem tóku við af hinum fornfálegu sovésku Tupolevum og Ilyushinum.

 

Aeroflot-flugvél af gerðinni Airbus A310.

 

Þetta dularfulla slys var því Aeroflot mikið reiðarslag. Sérstaklega þar sem enginn gat ímyndað sér hvað mögulega hefði getað komið fyrir. Flugvélin var glæný. Engin merki um bilanir fundust og engin neyðarboð bárust. Flugmennirnir þrír sem voru um borð voru meðal hæfustu og virtustu flugmanna Aeroflot, sérþjálfaðir á nýju flugvélarnar hjá Airbus.

 

Sannleikurinn kom í ljós er hinn svokallaði svarti kassi, sem tekur upp öll hljóð í flugstjórnarklefanum, fannst í flaki flugvélarinnar. Rannsóknarmennirnir trúðu ekki sínum eigin eyrum þegar þeir hlustuðu á upptökuna.

 

Enginn hinna þriggja flugmanna um borð hafði verið við stórn flugvélarinnar þegar hún hrapaði. Í flugstjórasætinu sat þeirra í stað Eldar Kudrinskí, 15 ára gamall sonur Jaroslavs Kudrinskí flugstjóra.

 

Fyrir 11. september 2001 var ekki óalgengt að flugmenn biðu gestum inn í flugstjórnarklefann. Sérstaklega börnum. Þennan dag voru sonur og dóttir Kudrinskí flugstjóra um borð í vélinni með honum, í leið í frí til Hong Kong. Auðvitað vildi hann sýna þeim stjórntækin í nýju, fínu flugvélinni.

 

En Jaroslav Kudrinskí lét ekki þar við sitja heldur leyfði hann börnunum sínum líka að setjast í flugstjórasætið, taka um stýrið og fikta í stjórntækjunum.

 

Flugstjórinn hélt að þetta væri óhætt þar sem flugvélin var stillt á sjálfstýringu. Þetta var bara leikur. En Eldar litli tók leikinn helst til alvarlega og reyndi eftir fremsta megni að hreyfa stýrið sem stóð fast vegna sjálfstýringarinnar. En það sem enginn hinna þaulþjálfuðu flugmanna virtist vita er að ef stýrinu á Airbus A310 er ýtt fast til vinstri fer sjálfstýringin af.

 

Flugvél og líf hinna 75 farþega var þá í höndum 15 ára drengs. Eldar missti auðvitað fljótt stjórn á vélinni og hún byrjaði að hrapa. Flugmennirnir gerðu sitt besta að reyna að rétta hana af, en án árangurs.

 

 

Upptakan úr svarta kassanum af síðustu mínútum áhafnarinnar. Myndbandið sýnir líka þá óhugnanlegu stefnu sem vélin tók eftir að Eldar aftengdi sjálfstýringuna:

Vídjó

 

 

Legsteinn systkininna Eldars og Jönu Kudrinskí.