Þann 18. maí 1980 hófst mannskæðasta eldgos í sögu Bandaríkjanna í eldfjallinu Mount St. Helens í Washington fylki. Gosið kostaði 57 mannslíf. Meðal þeirra sem fórust var einbúinn Harry Truman, nafni þrítugasta og þriðja forseta Bandaríkjanna, en þrjóska hans við að yfirgefa heimili sitt vakti athygli um öll Bandaríkin.

 

Mount St. Helens og umhverfi þess var eitt sinn meðal vinsælustu ferðamannastaða í norðvesturhluta Bandaríkjanna. Árlega flykktust þangað ungmenni, bæði drengir og stúlkur, í sumarbúðir við Spirit Lake sem lá við rætur fjallsins. Engum kom til hugar þær skelfilegu hamfarir sem þar áttu eftir að verða.

 

Fjallið er hluti af eldfjallaröð, svokallaðra Fossafjalla (e. Cascade mountains), sem nær frá Norður-Kaliforníu til Bresku-Kólumbíu í Kanada. Hæst þeirra er Mount Rainier (4.392 m), staðsett 87 km suður af Seattle borg í Washington, en önnur eldfjöll sem vert er að nefna eru Mount Adams og Mount Hood (síðarnefnda fjallið er ekki síst frægt fyrir skíðaskálann við rætur þess en hann var notaður í kvikmynd Stanleys Kubrick, The Shining (1980)).

 

Crater Lake í Oregon.

Crater Lake í Oregon.

 

Önnur fræg eldstöð í þessu sama kerfi er Crater lake en hún er askja sem með tímanum hefur fyllst af vatni. Er vatnið nú orðið það dýpsta í Bandaríkjunum (592 m), meira en tvöfalt dýpra en Öskjuvatn, dýpsta vatn Íslands.

 

Af þessum eldfjöllum hefur Mount St. Helens gosið tíðast síðustu 10 þúsund árin. Á 19. öld gaus fjallið t.d. nánast samfleytt í 57 ár með nokkrum stuttum hléum. Síðasta stóra gosið fyrir hamfaragosið 1980 varð árið 1843 og eftir 1857 virtist fjallið alfarið hætt að gjósa. Héldu þá margir að fjallið væri kulnað.

 

Þegar bera fór á jarðhræringum í Mount St. Helens þann 20. mars 1980 litu jarðfræðingar málið alvarlegum augum. Sérstaklega ungur eldfjallafræðingur að nafni David A. Johnston sem varaði við að eldgos í fjallinu gætu ollið ægilegum hamförum. Var það að hans ráðleggingu, og annara eldfjallafræðinga, sem að stjórnvöld lokuðu svæðinu í kringum fjallið fyrir almenningi.

 

Vegna þrýstings frá íbúum svæðisins og skógarhöggsmönnum var bannsvæðið aftur á móti takmarkað en af þeim 57 sem fórust voru aðeins fjórir sem voru innan bannsvæðisins. Þeirra á meðal var áðurnefndur David Johnston en hann var þá á vakt um það bil 9 km frá fjallinu. Önnur fórnarlömb voru í meira en 20 km frá fjallinu þegar það gaus.

 

Af þeim sem fórust, vakti saga hins 83 ára gamla einbúa, Harry Truman, mestu athyglina. Nokkrum dögum fyrir gosið hafði Truman fengið sérstaka undanþágu frá stjórnvöldum til að dvelja áfram innan bannsvæðisins en hann bjó í stórum timburskála við norðurenda Spirit Lake ásamt 16 köttum sínum. Ein af ástæðum þess af hverju Truman vildi ekki yfirgefa heimili sitt, að eigin sögn, var sú að þar var kona hans grafin.

 

 

800px-sthelens1

Mount St. Helens, myndin var tekin daginn áður en gosið hófst.

 

800px-msh82_st_helens_plume_from_harrys_ridge_05-19-82

Mount St. Helens eins og það lítur út í dag.

 

Skiptar skoðanir voru um ákvörðun gamla mannins. Sumir litu á hann sem einskonar þjóðhetju á meðan aðrir fordæmdu þrjósku hans eða gerðu að honum grín. Svo mikla athygli vakti þessi þrjóska hans að samin voru nokkur lög Truman gamla.

 

Vídjó

Hér má sjá magnaða heimildarmynd um gosið í Mount St. Helens. Harry Truman birtist þegar um sex mínútur eru liðnar af myndinni.

 

Vídjó

Lag um Harry Truman.