Silfurbergsnáman á Helgustöðum í Reyðarfirði. Mynd úr kortasafni Jóns Halldórssonar. Óljóst er hvenær myndin er tekin, en líklega var það snemma á tuttugustu öld. Vísindavefurinn:

 

„Íslandít“ er bergtegund, járnríkt andesít. Nafnið bjó til breski jarðfræðingurinn Ian Carmichael, sem síðar varð prófessor í Berkeley í Kaliforníu, þegar hann vann að doktorsritgerð sinni um tertíeru Þingmúla-eldstöðina í Skriðdal kringum 1960.

 

Í bergsyrpum megineldstöðva meginlandanna er algengast að styrkur járns lækki með vaxandi styrk kísils (SiO2 í berginu, en í Þingmúla-eldstöðinni var þessu sem sagt öðru vísi farið, þannig að Carmichael sá ástæðu til að gefa þessari bergtegund sérstakt nafn.

 

„Iceland spar“ heitir silfurberg á íslensku, og er tært afbrigði af kalkspati, CaCO3.

 

Silfurberg var, og er enn að einhverju leyti, notað í ýmis ljósfræðileg tæki, meðal annars til að skauta ljós með tvíbroti.

 

Á 18. og 19. öld þótti silfurbergið frá Helgustöðum í Reyðarfirði bera af öðru slíku, og því kenndu Bretar það við Ísland. Á Náttúrufræðisafninu í London er kristallur frá Helgustöðum sem er hálfur metri að lengd, algerlega tær, gallalaus og ósprunginn, þannig að hægt að horfa gegnum hann og sjá hvernig hann skautar ljósið og klýfur það í tvo geisla