Vestrakóngurinn John Wayne átti sér þann draum heitastan að leika aðalhlutverkið í kvikmynd um ævihlaup hins mikla mongólska landvinningamanns Gengis Khan. En allt gekk á afturfótunum við framleiðslu myndarinnar, hún varð arfaslæm og átti eftir að draga stóran hluta aðstandenda hennar til dauða.

 

Stórmyndir um hugdjarfar hetjur og ógurlegar orrustur hafa ætíð fallið í kramið hjá kvikmyndaáhorfendum. The Conqueror úr smiðju bandaríska auðkýfingsins Howard Hughes var ein slík mynd og kom út árið 1956.

 

„Þau sigruðu hvert annað, og síðan heiminn“ stóð á auglýsingaplakötum um myndina, sem fjallar um fyrstu árin í hernaðarferli Genghis Khans og samskipti hans við tartaraprinsessuna Bortai, sem hann rænir og gerir að eiginkonu sinni.

 

Leikstjóri The Conqueror var leikarinn Dick Powell. Hann hafði hingað til hafði aðallega fengist við kvikmyndaleik við ágætis orðstír, en snúið sér að leikstjórn — víst vegna þess að hann var orðinn leiður á að þurfa alltaf að raka sig. Sagan segir Powell hafi fundist handrit The Conqueror svo ömurlegt þegar hann last það fyrst að hann hafi ætlað að henda því beint í ruslakörfuna.

 

Gengis og Mongólarnir niðurlægja vonda kallinn.

 

En af einhverjum ástæðum frestaði hann því, og leikari nokkur rak augun í handritið á skrifborðinu hans. Leikari þessi las handritið af áfergju og heimtaði svo að það yrði kvikmyndað — með honum sjálfum í hlutverki hins unga Genghis Khans. Leikarinn var sjálfur John Wayne, þá á hátindi frægðar sinnar, og gat Dick Powell með engu móti neitað honum um þetta. Jafnvel þótt Wayne — 49 ára gamall, skjannahvítur á hörund og bandarískari en flest sem bandarískt er — væri kannski sá sem kæmi allra fyrst upp í hugann þegar vantaði mann til að leika ungan Mongóla.

 

Fyrst verið var að þessu á annað borð var ekkert til sparað í framleiðslu myndarinnar. Þokkadísin Susan Hayward, einnig á hátindi feril síns, var fengin til þess að leika á móti John Wayne: hina fögru Bortai, dóttur vonda tartarahöfðingjans. Hayward fór aldrei leynt með það að hún væri einungis með peninganna vegna og lagði eins lítið á sig fyrir hlutverkið og hægt var.

 

Vídjó

 

Hárið á hinum leikurunum var litað svart og settur á þá dökkur andlitsfarði til þess að reyna að láta þá líkjast Asíubúum (þó nokkurn veginn án árangurs). Hayward nennti ekki slíku og var áfram rauðhærð og föl á hörund, og afskaplega ósannfærandi. Sjálfri fannst henni þetta hið besta mál, enda gerði hún stólpagrín að myndinni eftir að tökum lauk.

 

Vídjó

 

Hlutverkið sem hann þráði svo heitt á líka að hafa hentað John Wayne nokkuð illa, þótt ótrúlegt megi virðast. Hann klæddist einhverju sem átti að heita mongólskur fatnaður og setti upp myndarlegt Fu Manchu-yfirvaraskegg, en breytti annars ekkert út frá hefðbundum leikstíl sínum. Wayne er auðvitað fyrst og fremst þekktur fyrir leik í vestrum — það var því eins og það væri skyndilega mættur amerískur kúreki á sléttur Mið-Asíu.

 

 

Vídjó

Ekki bætti úr skák að handritið var arfaslæmt, enda átti upphaflega að henda því í ruslið. Samtölin eru uppskrúfuð, stirð og vandræðaleg, og enginn í leikarahópnum reynir að gæða þau neinu lífi. Né hafa leikararnir komið sér saman um hvernig eigi að koma textanum til skila: John Wayne dregur seiminn eins og tíðkast í vestrum en sumir leikaranna reyna að tala með einhverskonar aulalegum kínverskum hreim.

 

Vídjó

 

Handritshöfundurinn, hinn enski Oscar Millard, hafði áður notið velgengni og meðal annars verið tilnefndur til Óskarsverðlauna. En hann varð að aðhlátursefni eftir The Conqueror svo að hann neyddist til að snúa sér að skrifum fyrir sjónvarp.

 

Það kemur því varla á óvart að The Conqueror gjörsamlega, þrátt fyrir hinn stjörnum prýdda leikhóp. Myndin var hljóðlega látin hverfa eftir einungis nokkrar sýningar. En saga myndarinnar endar því miður ekki þar; hún átti á endanum eftir að valda dauða að minnsta kosti fimmtíu manns.

 

Tjaldbúðir Gengis og manna hans.

 

Þannig er mál með vexti að þrátt fyrir að Howard Hughes og félagar hefðu eytt miklum fjármunum í kvikmyndina var ekki gengið svo langt að fara inn í Góbíeyðimörkina að taka hana upp. Þess í stað var myndin tekin upp í St. George í Utah þar sem nóg er um óbyggt landflæmi. St. George er nálægt landamærum Utah og Nevada og örskammt þar frá er tilraunasvæði sem Bandaríkjastjórn notaði til þess að sprengja kjarnorkusprengjur í tilraunaskyni. Á milli áranna 1951 til 1992 voru þar sprengdar að minnsta kosti 928 kjarnorkusprengjur. Þetta olli mikilli geislavirkni, sem barst með norðanvindinum beint á kvikmyndatökusvæðið.

 

Af 220 manns sem unnu við gerð myndarinnar höfðu 91 greinst með krabbamein árið 1981, og þar af 46 dáið. Leikstjórinn Dick Powell dó úr krabbameini árið 1963, Susan Hayward árið 1975 og John Wayne árið 1979. Mexíkóski leikarinn Pedro Armendáriz, sem lék fóstbróður Genghis Khans, framdi sjálfsmorð árið 1963 eftir að hann greindist með ólæknandi krabbamein.