Íslenskir myndasagnaunnendur muna eflaust eftir bókinni Svalur og Valur í Moskvu, sem kom út í íslenskri þýðingu árið 1991, kortéri áður en Sovétríkin liðuðust í sundur. Eitt eftirminnilegasta augnablikið í bókinni, að minnsta kosti í huga gamals aðdáanda, var þegar Svalur og Valur mæta til fundar (sem reynist svo vera morðtilraun) í risastórri hringlaga sundlaug í rússneskri frosthörkunni. Bókin var þó nær sannleikanum en strák, sem hafði aldrei séð neitt stærra en Laugardalslaugina, gat grunað því á árunum 1960 til 1994 gátu Moskvubúar baðað sig í stærstu útisundlaug heims. En sundlaugin var bókstaflega byggð á grunni ennþá stærri drauma.

 

Forsíða frönsku útgáfu Svals og Vals í Moskvu (Spirou à Moscou) sem kom út 1990. Iðunn gaf út íslenska þýðingu Bjarna Fr. Karlssonar í lok nóvember 1991.

 

Eftir lát Leníns ákváðu yfirvöld í Kreml að byggja þyrfti nýja þinghöll, þar sem fulltrúar allra sovésku lýðveldanna gætu komið saman, og væri um leið varanlegur minnisvarði um yfirvofandi stórsigur kommúnismans. Höllinni var valinn staður við norðurbakka  ánnar Moskvu, steinsnar frá Kreml, þar sem fyrir var Dómkirkja Krists frelsara, stærsta rétttrúnaðarkirkjubygging heims. Á þessum árum voru kirkjur álitnar miklar fyrirstöður framfara og var dómkirkjan eyðilögð með sprengjum árið 1931, en heilt ár tók að fjarlægja brakið.

 

Niðurrif Dómkirkju Krists frelsara 5. desember 1931.

 

Steinrisi Stalíns.

 

Um það leiti hófst alþjóðleg samkeppni um hönnun Höll Sovétsins, sem stóð yfir í tvö ár. Af um 160 tillögum, m.a. frá Le Corbusier og Walter Gropius, valdi Stalín neóklassískan risa rússneska arkitektsins Boris Iofan, sem var svo aðlagaður að sérþörfum Stalíns. Tillagan var svo kynnt almenningi árið 1934 og samanstóð meðal annars af aðalsal, sem gat tekið 21.000 manns í sæti og nærri hundrað metra styttu af Lenín ofan á turninn, sem hefði gert höllina að stærstu byggingu heims eða 415 metra háa. Grunnurinn var tilbúinn 1939 en árið 1941 gerðu Þjóðverjar innrás í Sovétríkin svo ekkert fjármagn né mannafli var til áframhalds verksins. Stálið úr stoðum hallarinnar var svo fjarlægt og notað við víggirðingu Moskvu.

 

Grunnur hallarinnar á stríðsárunum.

 

Næstu ár liðu svo án þess að nokkuð gerðist þó svo að myndir af óbyggðri höllinni héldu áfram að birtast á frímerkjum og áróðursplakötum, og aðrar byggingar í kring væru hannaðar út frá hinni væntanlegu höll. Grunnurinn fylltist svo smátt og smátt af vatni, sem seytlaði úr ánni Moskvu. Níkíta Krústsjof sló bygginguna endanlega út af borðinu eftir fráfall Stalíns 1953 og sagan segir að hugmyndin um að breyta vatnsfylltum grunninum í sundlaug hafi komið frá honum. Í það minnsta var hafist handa við að breyta grunninum árið 1958 og árið 1960 opnaði hin hringlaga Moskva basseyn fyrir almenningi, 129,5 metrar í þvermál. Sundlaugin þjónaði Moskvubúum svo allt fram á 10. áratuginn, þegar rússneska réttrúnaðarkirkjan fékk leyfi til að endurbyggja Dómkirkju Krists frelsara. Sundlauginni lokaði árið 1994 og árið 2000 var nákvæm eftirmynd upprunalegu dómkirkjunnar vígð og sagan því gengin í heilan hring á tæpum 70 árum.

 

Moskvu-laugin (Moskva basseyn) á sjöunda áratugnum.

 

 

 

 

Risinn sem aldrei reis.