Hvað ef Alaska væri nýlenda Íslendinga og teldi 100 milljónir íslenskumælandi manna? Að því keppti Jón Ólafsson ritstjóri, einn mesti hugsjóna- og ævintýramaður Íslandssögunnar. „Það hlæja ugglaust mörg fífl að þessu,“ skrifar hann um áætlanir sínar, en það geri ekki til því alltaf hafi verið hlegið að góðum hugmyndum.

 

Jón Ólafsson ritstjóri og skáld var litríkur ævintýramaður sem gustaði um, eins og sagt var. Hann var fæddur 1850 og lést 1916. Hann hóf blaðamannaferil sinn 18 ára gamall og varð einn sögufrægasti blaðamaður Íslandssögunnar.

 

Hann komst sífellt í vandræði vegna skrifa sinna og þurfti tvisvar að flýja land vegna þessa. Fyrst fór hann tvítugur til Noregs og dvaldi þar í eitt ár á flótta undan yfirvöldum. Hann hafði ort ljóð Íslendingabrag sem hafði farið í brjóstið á ráðamönnum á Íslandi.

 

Jón kom svo heim aftur og ritstýrði blaðinu Göngu-Hrólfi. Stuttu eftir að hann hóf störf þar skrifaði hann grein í blaðið þar sem hann þótti veitast að Hilmari Finsen nýskipuðum landshöfðingja, sem var æðsti embættismaður Íslands. Daginn sem Hilmar tók formlega við embættinu hafði dauður hrafn verið hengdur upp á fánastöng landshöfðingjahússins, ásamt svörtu flaggi sem á stóð: „Niður með landshöfðingjann“.

 

Jón Ólafsson skrifaði grein í blað sitt og kallaði Hilmar meðal annars „óvinsælan og illa þokkaðan mann”.

 

Hófust þá umfangsmikil málaferli sem enduðu með því að Jón hlaut eins árs fangelsisdóm og háar fjársektir fyrir meiðyrði. Jón náði að flýja land áður en dómnum var fullnægt og dvaldi í Ameríku um sinn.

 

Þá fékk hann hugmynd sem átti eftir að eiga hug hans allan næstu misserin. Bandaríkjamenn höfðu keypt Alaska af Rússum árið 1867. Þó kaupin ættu síðar eftir að sanna sig sem sannkölluð reyfarakaup sættu bandarískir ráðamenn gagnrýni fyrstu áratugina fyrir að kaupa þetta hrjóstruga land sem mörgum sýndist óbyggilegt.

 

Jón Ólafsson sá sér þar leik á borði. Vesturferðir Íslendinga voru á þessum tíma að komast á fullan skrið og Bandaríkjamenn þurftu að finna einhver not fyrir Alaska. Hví ekki að að nota skikann sem Íslendinganýlendu?

 

Nýja-Ísland gæti risið í Alaska og með tímanum orðið blómlegt samfélag. Jón kynnti þessar hugmyndir fyrir stjórnvöldum í Bandaríkjunum og hitti sjálfan Ulysses S. Grant forseta. Sagan segir að Grant forseti hafi verið mikill drykkjumaður en verið kominn í bindindi þegar Jón Ólafsson bar að garði. Þá hafi svo mikill vinskapur tekist með þeim félögum að forsetinn bandaríski og Íslendingurinn litríki hefðu dottið verulega í það.

 

Ulysses S. Grant Bandaríkjaforseti 1869-1877.

Ulysses S. Grant Bandaríkjaforseti 1869-1877.

 

Skrifaði Jón ritið Alaska þar sem hann gerði Íslendingum grein fyrir þessum hugmyndum sínum. Hann var ekki nema 25 ára gamall þegar hann útbjó ritið í Washington DC. Bandaríkjastjórn borgaði fyrir útgáfuna og hafði lánað Jóni lítið skip frá sjóhernum til að ferðast til Alaska og kanna málin.

 

Jón Ólafsson skrifar mjög fjörlegan texta um þetta framtíðarland Íslendinga og fullyrðir að þar geti íslensk þjóð fjölgað sér gífurlega og talið 100 milljónir manna innan fárra alda. „Það hlæja ugglaust mörg fífl að þessu,“ segir hann, en það geri ekki til því alltaf hafi verið hlegið að góðum hugmyndum. Það sýni mannkynssagan.

 

Ekkert varð þó úr Alaskaplönunum og Jón sneri aftur til Íslands árið 1875. Hann lét mikið að sér kveða eins og áður.

 

Síðan fór hann aftur til Vesturheims og gerðist ritstjóri Lögbergs og síðan Heimskringlu. Jón fór síðar á þing hér heima og gerði ýmislegt um ævina og þótti til dæmis gott skáld.

 

Skemmtileg bók um Jón.

Skemmtileg bók um Jón.

 

Bókin Ævintýramaður eftir Gils Guðmundsson geymir ævisögu Jóns í stórskemmtilegum köflum sem unnir voru upp úr útvarpsþáttum sem Gils flutti um þennan stórbrotna mann á Rás 1 árið 1986. Lemúrinn mælir með þeirri bók. Á einum stað segir Gils um ákafamanninn Jón og plönin um nýlendu í Alaska: Jón er ýmist hress og kátur og sér margar leiðir færar, eða dapur og svartsýnn. „Fái ég slæmar fréttir að heiman,“ segir Jón í bréfi, „fer ég til Alaska og gerist þar einsetumaður.“

 

Þessi grein var flutt í þætti Lemúrsins á Rás 1, lesið meira og hlustið á fleiri áhugaverðar frásagnir hér.

 

Við skulum lesa nokkra kafla úr riti Jóns Ólafssonar um Alaska. Hér er hægt að lesa bókina í heild sinni á vef Gutenberg Project.

 

ALASKA

 EFTIR

JÓN ÓLAFSSON,

FORMANN ALASKA-FARARINNAR 1874, M.M.

WASHINGTON, D.C.

1875.

 

Ef Íslendingar geta flutt til þess lands, þar sem þeir og niðjar þeirra um ókomnar aldir geta haldið tungu og þjóðerni, og orðið einir íbúar landsins, sett sjálfir rétt með sér og ráðið lögum og lofum, þ.e. myndað frjálst íslenzkt þjóðveldi, frjálst og fullmyndugt og engum háð, að eins frjálst sambandsríki í voldugu og merku ríkja-sambandi, eins og þeir geta, ef þeir vilja, í Alaska, svo að þeir missi einskis annars í, við að fyrirláta fóstrjörð sína, en að leggja þar af sér hlekki fornrar ánauðar,—ef þeir gera þetta, segi ég, ef út fluttir Íslendingar geta endrreist þjóðveldi Íslands í nýrri og betri mynd í framandi og nýju landi, er með tímanum gæti, ef til vill, orðið sakir landrýmis og landgæða aðalaðsetr íslenzks þjóðernis í heiminum—eins og óneitanlega má verða í Alaska—hvaða ástœðu munduð þér þá fœra móti útflutningi fólks frá Íslandi til slíks lands, þér miklu þjóðernis og frelsis-vinir?

 

Hvers er þá í mist við útflutninginn, ef vér höldum öllu því, er oss er kært og dýrmætt og mikilsvert í andlegu tilliti, og flytjum það með oss þangað, er það má betr þroskast, dafna og blómgast? Hvers er þá í mist, segi ég?—Jú, nokkurs er í mist, segið þér; það er eitthvað óljóst, einhver töfrandi draummynd, eitthvert lokkandi yndi og andans unaðr, er heillar vorar gagn-íslenzku sálir, og sem þær mega hvergi finna nema á Íslandi—og í Kaupmannahöfn! Jú, þar kom það!

 

Þér sjáið ekki gegn um glámskygnis-gleraugu yðar ímynduðu föðrlands-ástar, hvað það er? Ég skal segja ykkr það, dúfurnar mínar! Það er: ekki flatti golþorskrinn; því hann getið þér flutt með yðr, ef yðr er all-annt!—en það er … danski krossin á rauða grunninum! Það er danskan og konungs-valdið! Það eru hlekkirnir, sem rakkinn er orðinn svo vanr að bera, að hann kann eigi við sig án þeirra. Þessi eru þau súrdeig, sem hafa gagnsýrt yðar íslenzku sálir og gjört þær að illa dönskum súrmjólkr-sálum, svo að alt, sem þér vitið og skynjið, er danskt. Þér kunnið ekki annað en dönsku, og hana lélega.

 

Þér kunnið ekki einu sinni að elska fóstrjörð yðar nema upp á dönsku! Föðrlandsást yðar og frelsis-ást er ekki annað, en pólitísk kredda, er þér lærðuð utan að af Dönum 1848; af frelsi þekkið þér ekki annað, en danskt frelsi. Stjórnarskrá Dana er yðar æzta hugsjón, já afgoð yðar, það vesala pappírsblað! Og þá má nærri geta, hvílíkir garpar frelsisins þér séuð, þar sem þér hafið læert að elska frelsið af þeirri þjóð, er aldrei þekti frelsi og aldrei vissi hvað það var, því Danir hafa ávalt verið þrælar í anda. Það játa inir vitrustu og beztu menn sjálfrá þeirra. En óþarfi er um það að þreyta! Þeir, sem heima verða eftir, og það yrði þó ávalt mestr hlutinn, að líkindum, þeir halda flagginu danska! Það eru að eins þeir, er út flytja, sem segja við það skilið; en hinum, er eigi fá slitið það frá hjartarótum sínum, er vænst að fara hvergi; enginn óskar eftir þeim!

 

Ef Íslendingar næmu nú land í Alaska—segjum 10 þúsundir á 15 árum, og fjöldi þeirra tvöfaldaðist þar t.d. á hverjum 25 árum, sem vel mætti verða og ugglaust yrði í svo hagfeldu landi, þá væru þeir eftir 3 til 4 aldir orðnir 100 miljónir, og mundu þá þekja alt meginlandið frá Hudson-flóa til Kyrra-Hafs. Þeir gætu geymt tungu sína, aukið hana og auðgað af hennar eigin óþrjótandi rótum, og, hver veit, ef til vill sem erfingjar ins mikla lands fyrir sunnan sig, smátt og smátt útbreitt hana með sér yfir þessa álfu, og endrfœtt ina afskræmdu ensku tungu.

 

Já, þetta sýnist ráðleysu rugl og viltir draumórar; og ég segi heldr eigi að svo verði; en ég segi svo megi verða. Það er alsendis mögulegt! Meira segi ég eigi. Íslenzka og enska eru af sömu rótum runnar; og þó enskan sé mannsterkari nú, þá höfum vér hvergi lesið það drottins lögmál, að hún skuli svo verða að eilífu. Og, ef svo mættí um tungur segja, þá hefir sú fagra íslenzka mær meira siðferðislegt afl, en in enska portkona, er lagt hefir lag sitt við allar skrælingja- og skrípa-tungur þessa heims. En svo að enginn bregði mér um ópraktiskar skálda-grillur í svo mikilsverðu máli, skal ég þess geta, að hugmyndin um þennan mögulegleika á sigri íslenzkunnar er ekki mín, heldr heyrir til amerískum vísindamanni, er stundað hefir bæði engil-saxnesku og norrœnu, þótt eigi sé málfrœði aðal-iðn hans.

 

Mér virðist það samboðið ódauðlegri veru og konungi skepnunnar, sem manneskjan er, að skygnast svo langt fram í framtíðina, sem eðli vort og skynsemi leyfir.—Það er kunnugt, að Kyrra-Hafs verzlunin við Japan og Sínland er einhver in ábatamesta í heimi. Það er og víst, að sá andi sem lifði í Íslendingum, þegar Noregs-konungr sagði um ofrhugana, er sigldu svo djarflega í ófœru veðri: að þar sigldu annað hvort vitlausir menn eða Íslendingar,—sá sami hugrekkis og garps andi lifir enn.

 

Og þá er slík sjómensku-þjóð sem Íslendingar festu fót í landi, þar sem timbr kostar ekki annað, en að smíða úr því, þá mundu þeir skjótt gerast siglinga-menn og farmenn eins og frændr þeirra í Noregi. Noregr á nú þriðja stœrstan skipastól í heimi. Og Íslendingar, svo vel lagaðir til sjómensku, í landi þar sem alt, er til skipasmíða heyrir, liggr við fœtr mans, í landi, sem liggr betr, en nokkurt annað við inni arðsömustu verzlun í heimi, í landi, sem einmitt mundi eiga ágætasta markað fyrir alla vöru sína í Japan og Sínlandi—þeir mundu, segi ég, þar sem svo á stendr, skjótt verða ein in frægasta siglingaþjóð heimsins, og að líkindum með tímanum ná undir sig allri Kyrra-Hafs verzluninni; þetta væri nœg atvinna hundruðum þúsunda, nei, miljónum manna;—og íslenzkt þjóðerni á það, ef til vill, ólifað enn, að bera œgishjálm yfir meginþjóðir þessa heims. Það er djarfr og fallegr draumr, þetta! En það er komið undir vestrförum Íslands sjálfum, hvort þessi draumr á að rœtast eðr eigi!

 

Það hlæja ugglaust mörg fífl að þessu; en heilagir spádómar, vísindi, trú, kristindómr, já, alt, sem fagrt og satt var í veröldinni, hefir sætt þeim forlögum, og lifir þó enn! Ég held það hafi aldrei neinn stór sannleikr í heimi þessum verið hleginn í hel!