Tónskáldið Jón Leifs var sannfærður konungssinni og vildi að Íslendingar leituðu sér að kóngi erlendis.

 

Ekki eru margir konungssinnar á Íslandi og það er ekki skrýtið. Kóngum og drottningum fer almennt fækkandi í heiminum og engin sjáanleg ástæða til þess að Íslendingar kysu frekar að hafa kóng heldur en forseta á Bessastöðum. Og hvorki stjórnlagaráðið né aðrir þeir sem unnið hafa að nýrri stjórnarskrá fyrir Ísland hafa stungið upp á þeim möguleika.

 

En þetta hefur ekki alltaf verið svona. Munum að þegar Norðmenn hlutu sjálfstæði frá Svíum árið 1905 buðu þeir Karli danaprins krúnuna. Hann varð Hákon sjöundi. Skiptar skoðanir höfðu verið um þetta en á endanum fór svo að mikill meirihluti Norðmanna kaus að gera landið að konungdæmi. Hákon varð vinsæll í Noregi og þótti standa sig vel þegar landið lenti undir grimmilegu hernámi Þjóðverja í síðari heimsstyrjöldinni.

 

Og líklega voru allmargir hér á þeirri skoðun að Ísland ætti að eiga sinn konung þegar landið fengi loks langþráð sjálfstæði frá Dönum. Og helst þá einhvern með fína ættartölu, erlendan mann af evrópskum konungsættum, eins og venjan var þá í slíkum málum.

 

Sæti kóngur á Bessastöðum?

Sæti kóngur á Bessastöðum?

 

Einn þeirra var tónskáldið Jón Leifs. Myndina af honum hér fyrir ofan tók meistari Willem van de Poll sumarið 1934. Jón Leifs hafði búið lengi í Þýskalandi á millistríðsárunum og ferðast víða. Árið 1937 ritaði hann greinina Ísland frá erlendu sjónarhorni í tímaritið Iðunni þar sem hann ræddi um ýmislegt sem betur mætti fara hér á klakanum. Framtíð þjóðarinnar eftir sambandsslit væri í hættu vegna vanhæfni íslenskra stjórnmálamanna sem séu lítt færir um að halda um valdataumana í landinu. Hann segir að útlendingar sem hingað hafi komið hafi haldið því fram…

 

…að við Íslendingar eigum eiginlega – án tillits til flokka – enga sanna stjórnmálamenn. Hér hafi menn að vísu lært nokkuð í kosningatækni og pólitískum bardagabrögðum, en í stjórnmálunum sjálfum séu Íslendingar hreinustu viðvaningar, gutlarar og vankunnáttumenn.

 

Jóni Leifs finnst að Íslendingar eigi því að stofna hér sjálfstætt konungsríki.

 

Eg skal játa það, að eg er persónulega kominn á þá skoðun, að eina velferðarleiðin fyrir Ísland sé að halda áfram að vera konungsríki. Langbezt væri náttúrlega að hafa eigin konung, sem væri búsettur í landinu, gerðist íslenzkur og lifði með þjóð sinni í blíðu og stríðu.

 

Við Íslendingar höfum alment mjög rangar hugmyndir um konunga og líf þeirra.

 

Fyrst segja menn hér, að það muni verða of dýrt fyrir okkur að hafa eigin konung og konungsfjölskyldu. Við því er að svara, að stjórnarfyrirkomulag okkar nú er ef til vill enn dýrara, og mætti vafalaust gera það einfaldara, fækka þingmönnum o.s.frv.

 

Við yrðum að byggja konungsbústað; það yrði svo að segja eini stofnkostnaðurinn. Borðfé konungs yrði t.d. sem svaraði einni krónu á hvern íbúa í landinu, eða lítið meira en nú er. Hins vegar eru til konungbornir menn, sem eiga tíu sinnum meiri auð en allur þjóðarauður Íslendinga nemur og mundu geta stofnað hér konunglegan banka, sem hleypti vexti í alt atvinnu- og framkvæmdalíf.

 

En auðvitað mætti ekki hugsa um það fyrst, heldur um hitt, hvaða konungsætt væri bezt að mannkostum og bezt til þess fallin að tryggja sjálfstæði vort, hefði ættarsambönd um alla álfuna, en væri þó hlutlaus í samkeppni stórþjóðanna. Konungsfjölskylda mundi skapa hér bæði innri og ytri menningu, með eigin fyrirdæmi, þó ekki væri með öðru, og við Íslendingar mundum þá verða menn með mönnum, jafnvel meira en það, í samanburði við ýmsar þjóðir. Sumir Íslendingar virðast gagnsýrðir af þeirri villu, að konungar og konungsfjölskyldur sé iðjulaust fólk, sem lifi í munaði og jafnvel hálfgerðu siðmenningarleysi, en sannleikurinn er þessu alveg gagnstæður.

 

Jón er alveg sannfærður konungssinni og segir að lélegur konungur yrði skaðlausari en hverfulir forsetar.

 

Þetta hljómar allt saman undarlega nú löngu síðar og það er sérstakt að velta fyrir sér að konungsfjölskylda á borð við þær sem við þekkjum frá Norðurlöndunum og Bretlandi sætu hér á landi.

 

Á náttborði Lemúrsins er forvitnileg bók sem fjallar um þessi mál. Kóng við viljum hafa! Áform um stofnun konungdæmis á Íslandi eftir Örn Helgason sálfræðing kom út árið 1992. Á kápu bókarinnar stendur að í henni sé sagt frá einu mesta feimnismáli íslenskrar sögu á tuttugustu öld. Og framan á henni er mynd af ungum herklæddum manni sem stendur við hlið Adolfs Hitlers.

 

Friedrich Christian prins af Schaumburg-​​Lippe. Jón Leifs bauð honum konungdóminn.

Friedrich Christian prins af Schaumburg-​​Lippe. Jón Leifs bauð honum konungdóminn.

 

Þessi stutta bók fjallar um tvö furðuleg og reyfarakennd mál sem bæði tengjast áformum íslenskra manna til að stofna konungsríki hér á landi. Og eins og höfundur kemst að orði þá skilja þessi áform ekki merkjanleg spor og skiptu ekki miklu máli en eru engu að síður forvitnilegir drættir í sögu viðburðarríkra ára. Í báðum málum er atburðarásin mjög þokukennd.

 

Hér er sagt frá því þegar Jón Leifs, Guðmundur Kamban og Kristján Albertsson buðu þýskum nasistaprinsi að verða kóngur á Íslandi.