Konur frá Norðurlöndunum áttu sérlega auðvelt með að ná frægð og frama í Þriðja ríkinu, og Lemúrinn hefur áður fjallað um þýskalandsferil sænsku söngkonunnar Söru Leander.

 

Kirsten Heiberg fær sér smók.

Önnur stórstjarna nasista-áranna var hin óvenjulega og fagra Kirsten Heiberg, en hún var um tíma ein frægasta leikkona Þýskalands, hin „norska Marlene Dietrich“.

 

Heiberg lærði leiklist og tungumál í Frakklandi og Bretlandi, og eftir að hafa komið fram á sviði í Vínarborg árið 1937 náði hún samningi hjá Universum Film AG, stærsta kvikmyndaveri Þýskalands, sem þá var undir stjórn áróðursmálaráðuneytis Jósefs Göbbels.

 

Í kjölfarið flutti hin þrítuga Heiberg til Berlínar og gekk í nasistaflokkinn. Út valdatíma nasista lék hún í fimmtán kvikmyndum og fór þá yfirleitt með hlutverk tálkvendis.

 

Stærsti smellur hennar var hin geysivinsæla Liebespremiere (ísl. Frumsýning ástarinnar) frá árinu 1943. Kvikmyndin fjallar um unga konu sem fær aðalhlutverkið í söngleik, en verður síðan ástfangin af tónskáldinu sem hún starfar með.

 

Hér syngur hin 35 ára gamla Heiberg lagið „Ich bin heute frei, meine Herren“ (ísl. „Í dag er ég frjáls, herrar mínir“) í eftirminnilegu atriði úr þeirri mynd.

 

Vídjó

 

Að stríðinu loknu voru Norðmenn ekki í sáttarhug, og þeim sem unnið höfðu með nasistum á tímum hernámsins var gert að sæta harðri refsingu. Vidkun Quisling, leppstjóri nasista í Noregi, var fundinn sekur um landráð og tekinn af lífi haustið 1945.

 

Heiberg var hins vegar búsett í Þýskalandi og hafði gerst þýskur ríkisborgari.  Hún slapp þannig undan norskri réttvísi. Hún flutti heim til Noregs árið 1952 og fékk störf á sviði í Þrándheimi, en náði ferli sínum aldrei almennilega aftur á strik vegna tengslanna við nasismann. Hún lést í Osló árið 1976.

 

Nánar má lesa um ævi Kirstenar Heibergs hér (á norsku).

 

Kirsten Heiberg á hápunkti ferils síns, 1943.