Þeir sem hlusta á menningarþáttinn Víðsjá á Rás 1 ættu að kannast við lagið A Birds Lament, en það hefur verið notað sem inngangsstef þáttarins í nokkur ár. Þetta djassskotna verk var samið af tónskáldinu Moondog. Óhætt er að segja að hann hafi að mörgu leyti verið kynlegur kvistur.

 

A Birds Lament, verkið var tileinkað saxasafónleikaranum Charlie Parker

 

Louis Thomas Hardin fæddist þann 26 maí, 1916, í bænum Maryville í Kansas-fylki. Hardin, sem var prestssonur, fékk gott tónlistarlegt uppeldi. Hann spilaði á allskyns hljóðfæri frá unga aldri og föndraði stundum sín eigin.

 

Þegar Hardin var 17 ára missti hann sjónina eftir skelfilegt vinnuslys þegar sprenging varð í sveitinni.

 

Og eftir það skrifaði hann öll tónverk sín með blindraletri.

 

Eftir að hafa lokið tónlistarnámi í Tennessee árið 1943 flutti Hardin til New York-borgar. Það var um það leyti sem hann tók upp nafnið Moondog, eftir hundi sem hafði verið í miklu dálæti hjá honum í æsku.

 

Á þeim árum sem Moondog bjó í New York eyddi hann nær öllum dögum sínum á götuhorni við sjötta breiðstræti. Þar seldi hann tónverk sín og las upp ljóð.

 

Moondog varð fljótlega að þekktu kennileiti í borginni, en það var ekki síst að þakka sérviskulegu útliti hans. Klæddist hann sem fornnorræna goðið Óðinn og bar ávallt á höfði sér heimatilbúin hjálm úr leðri.

 

Er þetta róni? Kannski geðsjúklingur? Svona hugsuðu margir af þeim fáu vegfarendum sem veittu honum athygli. En fæstum sem áttu leið hjá honum kom til hugar þessi hávaxni og sérkennilegi maður lifði ósköp venjulegu fjölskyldulífi og átti sína eigin íbúð skammt frá. Honum hafði jafnvel auðnast að kaupa sér jörð og byggja á henni bjálkakofa.

 

Moondog fékkst líka við að finna upp ný hljóðfæri, til dæmis þetta ásláttarhljóðfæri sem hann kallaði Trimba.

Moondog fékkst líka við að finna upp ný hljóðfæri, til dæmis þetta ásláttarhljóðfæri sem hann kallaði Trimba.

 

Og Moondog var ekki algjörlega óþekktur í tónlistarheiminum. Tónskáld á borð við Philip Glass og Stephen Reich þekktu vel til verka hans, jafnvel þó þau hafi ekki notið almennrar hylli hjá listaelítunni. Þessir meistarar, heimsþekktir í dag, kölluðu Moondog föður mínimalískrar tónlistar.

 

Útvarpsmaðurinn Allan Freed fékk nafn Moondogs að láni og notað jafnframt eitt tónverka hans sem inngangsstef útvarpsþáttar síns, The Moondog House (Moondog lögsótti Freed síðar og neyddist Freed til þess að greiða honum bætur).

 

Hipparnir tóku Moondog einnig opnum örmum og litu á hann sem einskonar spámann. Bob Dylan skrifaði grein um hann sem birtist í tímaritinu Hootenany Magazine og Janis Joplin og félagar hennar í hljómsveitinni Big Brother and the Holding Company gerðu sína eigin útgáfu af lagi hans „All is Loneliness” á fyrstu plötu sinni.

 

Moondog Symphony, verkið sem Alan Freed notaði sem inngangsstef þátta sinna.

 

Árið 1974 dró enn til tíðinda í lífi Moondogs. Að áeggjan vina sinna fór hann í ferðalag til Þýskalands. Þar greip hann til sinnar fyrri iðju og seldi verk sín á götuhornum íklæddur víkingafatnaði sínum.

 

Flestir Þjóðverjanna furðuðu sig á þessum skrýtna manni en þó ekki allir. Ungur jarðfræðingur, Ilona Sommer að nafni, heillaðist af tónskáldinu og bauð honum að búa hjá sér. Moondog, þá tvífráskilinn og einmana, þáði boðið, enda var það sérstaklega höfðinglegt.

 

En Sommer gerði gott betur. Hún lagði akademíuna að baki sér og tileinkaði lífi sínu listsköpun Moondogs. Var hún allt í senn umboðsmaður hans, nótnaritari og útgefandi.

 

Moondog og Ilona Sommer.

Moondog og Ilona Sommer.

 

Ekki var öllum kunnugt um að Moondog hafði flutt til Þýskalands. Héldu margir hann látinn og minntist Paul Simon dauða hans í sjónvarpsþætti sínum Paul Simon Special árið 1977!

 

Eflaust hló Moondog að þessu öllu saman þar sem hann lifði góðu lífi í Þýskalandi og gaf reglulega út plötur sem nutu sæmilegra vinsælda. Moondog lést í september árið 1999.