Það er ekki aðeins á Íslandi sem margir eru skeptískir á ágæti þess að mynda hverskonar sambönd með öðrum þjóðríkjum. Hinn fyrrverandi Leiðtogi byltingarinnar í Líbýu, Gaddafí ofursti, er annar. Og hann var sérstaklega á móti því að stofna til ríkjabandalags með Íslandi.

 

Árið 2008 var stofnað svokallað Miðjarðarhafsbandalag til þess að hafa umsjón með samvinnu milli Evrópusambandsins og annara landa við Miðjarðarhaf.

 

Bandalagið var aðallega hugarfóstur Sarkozy Frakklandsforseta og var umdeilt frá byrjun. Samningar tókust þó að lokum og í dag skipa bandalagið allar þjóðir Evrópusambandsins og svo önnur ríki í nágrenni Miðjarðarhafs — Króatía, Bosnía, Svartfjallaland, Albanía, Tyrkland, Sýrland, Líbanon, Ísrael, Palestína, Egyptaland, Túnis, Alsír, Marokkó og Máritanía.

 

Eina landið með strönd að Miðjarðarhafi sem ekki vildi vera með í samstarfinu var Líbýa. Á blaðamannafundi í Trípólí útskýrði Byltingarleiðtoginn afstöðu sína til bandalagsins í löngu máli, og minntist af einhverjum ástæðum oftar en einu sinni á Ísland í því samhengi — ekki stóð til að Ísland eða önnur ríki í EES gengu í Miðjarðarhafsbandalagið.

 

Vídjó

 

„Er það hugsandi að einhver eins og ég, frá arabísku landi, geti sagt við þjóð sína: ég bjó til bandalag fyrir ykkur með Skotlandi, Finnlandi, Grænlandi og Íslandi?

 

og síðar:

 

„Arabar hafa ekki myndað Arababandalag. Ríki Norður-Afríku bjuggu til bandalag og settu það í frystinn. Við höfum ekki komið saman í tíu ár. Hvernig getum við, svona auðveldlega, gengið í bandalag með Eystrasaltslöndunum, Ísrael, og Grænlandi, Íslandi og Finnlandi? Þetta er furðulegt. Hvernig bandalag? Ég mun ekki mæla með því að þjóð mín gangi í slíkt „salat“.“

 

Gaddafi útskýrði svo mál sitt frekar, og virtist andstaða hans við frekari samstarf við okkur hér á norðurhjara aðallega hafa með klæðaburð að gera:

 

„Deilum við menningu með Evrópu? Alls ekki. Menningar okkar er gjörsamlega ólíkar. Í Skandinavíu gengur fólk um nakið. Getur maður gengið um nakinn í Túnis, Alsír, Egyptalandi eða Líbýu? Maður yrði grýttur og sendur á hæli. En í Skandinavíu er það alvanalegt að sjá fólk á gangi allsnakið. Það er þeirra menning.“

 

Gaddafí dúðaður, enda ekki Skandinavi.