Það var orðið ansi áliðið í fundarherberginu í Haag í Hollandi, klukkan sýndi tvö eftir miðnætti. Louis Loucheur, franski atvinnumálaráðherrann, lagði hendurnar á augnlokin og Andre Tardieu, forsætisráðherra Frakklands, lá steinsofandi í sófanum. Henri Cheron, fjármálaráðherra Frakklands, sat uppréttur með augun lokuð. Á milli Cheron og Tardiue sat Dr. Julius Curtius, utanríkisráðherra Þýskalands, sem virtist líka vera með Óla Lokbrá í heimsókn. Myndina tók Erich Salomon. Örlög milljóna manna voru í höndum þessara manna sem steinsváfu og hrutu.

 

Árið var 1930 og helstu leiðtogar Evrópu funduðu um stríðsskaðabætur Þýskalands vegna fyrri heimsstyrjaldarinnar, en málið var rætt fram og til baka á þessum árum.

 

Eftir að fyrri heimsstyrjöldinni lauk með ósigri Þýskalands var ákveðið á hinum sögulega Versalafundi árið 1919 að Þjóðverjar skyldu greiða gríðarlegar fjárhæðir í stríðsskaðabætur. Það kom snemma í ljós að skaðabæturnar yrðu aldrei greiddar að fullu enda var gert ráð fyrir að Þjóðverjar borguðu hundrað þúsund tonn af skíragulli, en það var á þeim tíma um helmingur alls gulls sem menn höfðu grafið úr námum í sögunni. Þessir hörðu skilmálar sem neyddir voru upp á Þjóðverja áttu eftir að valda gífurlegum óstöðugleika í Evrópu sem náði svo hátindi sínum í síðari heimsstyrjöldinni.