Fáir blaðamenn á 20. öld hafa verið jafn umdeildir og Ástralinn John Pilger. Gagnrýni hans á utanríkisstefnu Vesturlanda, sem hann segir vera heimsvaldastefnu, ræður líklega þar mestu um.

 

Pilger hefur gert fjölda heimildarmynda þar sem hann setur viðfangsefni sitt í stærra samhengi og dregur svo af því víðtækar ályktanir. Má segja að Pilger sé meistari í því að vekja sterkar tilfinningar hjá áhorfendum enda hafa myndir hans verið gagnrýndar fyrir að vera mjög gildishlaðnar og áróðurskenndar. Hverju sem því líður er því ekki að neita að þær hafa vakið fólk til umhugsunar um óþægileg málefni sem aðrir fjölmiðlamenn hafa helst ekki viljað snerta á.

 

Skömmu eftir að Víetnamar frelsuðu Kambódíu undan Rauðu Khmerunum árið 1979 hélt Pilger þangað til að gera heimildarmynd um afleiðingar ógnarstjórnar Rauðu Khmeranna. Titill myndarinnar, Year Zero: The Silent Death of Cambodia, var lýsandi, bæði fyrir það sem hafði gerst í Kambódíu og þöggunina um þátt Vesturlanda í viðhalda því skelfingarástandi sem ríkti á meðan Pol Pot var enn við völd.

 

 

Myndirnar sem Pilger og samstarfsmenn hans tóku af ástandinu í Kambódíu voru þær fyrstu sem birtust í sjónvarpi á Vesturlöndum. Þátturinn var aftur á móti ekki sýndur í Bandaríkjunum.

 

 

Welcome to Australia var annar sjónvarpsþáttur sem vakti mikla athygli og þá ekki síst í heimalandi Pilger, Ástralíu. Þátturinn var fyrst sýndur árið 1999, einu ári áður en Ólympíuleikarnir voru haldnir í Sydney. Í honum er sögð saga nokkurra afreksmanna af frumbyggjaættum sem vegna uppruna síns fengu ekki sömu tækifæri og aðrir landar þeirra og þurftu jafnvel að þola aukið harðræði vegna hæfileika sinna. Þátturinn var ekki aðeins áminning um skelfilega fortíð heldur varpar hann einnig ljósi á að aðstæður frumbyggja Ástralíu hafa lítið sem ekkert batnað með árunum. Minnir Pilger okkur á að hversu stolt sem við kunnum að vera af fortíð okkar, þá megum við ekki heldur gleyma þeim þáttum hennar sem við höfum skömm fyrir.

 

Fyrsta krikketliðið sem eingöngu var skipað áströlskum frumbyggjum (myndin var tekin árið 1866 þegar liðið heimsótti Bretlandseyjar).

Fyrsta krikketliðið sem eingöngu var skipað áströlskum frumbyggjum (myndin var tekin árið 1866 þegar liðið heimsótti Bretlandseyjar).