Árið 1935 réðu bandarísku hjálparsamtökin American Jewish Joint Distribution Committee ljósmyndarann Roman Vishniac, rússneskan Gyðing búsettan í Berlín, til þess að taka myndir í Gyðingasamfélögum í Mið- og Austur-Evrópu. Myndirnar áttu að nota í fjáröflunarskyni, til þess a hvetja fjársterka bandaríska Gyðinga til þess að hjálpa fátækum trúbræðrum sínum í gamla heiminum.

 

Roman Vishniac (1897-1990).

Næstu fjögur ár ferðaðist Vishniac fram og til baka frá Berlín og til Gyðingaþorpa í Rússlandi, Póllandi, Rúmeníu, Litháen og víðar. Mörg þorpanna sem Vishniac heimsótti voru svo lítil og afskekkt að þangað komst hann aðeins eftir torfærum vegum, fótgangandi eða á asna. Til þess að komast ferða sinna óáreittur af bæði yfirvöldum og þorpsbúum sem litu ljósmyndatæknina hornauga greip hann til þess ráðs að þykjast vera farandteppasali.

 

Á ferðum sínum tók Vishniac þúsundir mynda. Margar þeirra sýndu fátæka, trúaða, alvarlega Gyðinga eins og hjálparsamtökin ætluðust til, en Vishniac sjálfur hafði áhuga á öllu litrófi Gyðinga í Evrópu, og tók einnig myndir af Gyðingum í millistétt, fólki sem ekki leit út fyrir að barma sér af fátækt.

 

Það varð hvort eð er minna úr því að myndirnar yrðu notaðar í fjáröflunarskyni en ætlaði, enda stafaði brátt að evrópskum Gyðingum válegri hætta en fátækt. Myndir Vishniacs urðu hinsvegar ómetanleg heimild um menningu sem nokkrum árum síðar var næstum algjörlega horfin.

 

Hér að neðan er brotabrot af myndum Vishniacs, einungis af þeim börnum sem urðu á vegi hans.

 

Vishniac sjálfur flúði Berlín árið 1939 til Bandaríkjanna, þar sem hann varð líffræðingur og ljósmyndatæknifrömuður. Bókin A Vanished World, sem kom út árið 1983, er frægasta safn mynda Vishniacs.

 

Tengdar greinar:

Svipmyndir úr horfnum heimi: Gyðingar Póllands á millistríðsárunum

Saumakonur, lásasmiðir og fátæklingar: Fleiri myndir úr horfnum heimi Gyðinga í Evrópu