Fordlândia heitir draugabær í frumskógum Amasón í Brasilíu. Iðnjöfurinn Henry Ford reisti borgina á millistríðsárunum. Hann reyndi beisla frumskóginn og rækta gúmmítré. Ford þurfti gúmmí til að framleiða hjólbarða. Vinnumenn strituðu árum saman í myrkviðum frumskógarins án nokkurs árangurs. Og áætlanir Ford enduðu með ósköpum.

 

Í Amasón eru stærstu og mestu regnskógar heimsins. Hvergi eru fleiri plöntu- og dýrategundir samankomnar á einn stað. Hér má finna tvær og hálfa milljón skordýrategunda, tugþúsundir plantna og tvö þúsund tegundir af fuglum og spendýrum.

 

Árið 1982 kom kvikmyndin Fitzcarraldo út. Hún var tekin upp í perúska hluta Amasónsvæðisins. Það reyndist leikstjóra myndarinnar, Þjóðverjanum Werner Herzog, erfitt verk. Hann lenti, ásamt teymi sínu, í ótrúlegustu vandræðum í þykkum skóginum. Bandaríski kvikmyndagerðarmaðurinn Les Blank fylgdist með þeim svaðilförum og gerði heimildarmyndina The Burden Of Dreams um gerð Fitzcarraldo. Hér heyrum við Werner Herzog lýsa tilfinningum sínum til frumskógarins.

 

Hann dregur ekkert undan:

Vídjó

 

En Fitzcarraldo, kvikmyndin stórskemmtilega sem Herzog gerði í frumskóginum segir frá ævintýramanni með stórmennskubrjálæði.

 

Fitzcarraldo, sem Klaus Kinski leikur, dreymir um að reisa óperuhús í Iquitos, en það er borg í perúska hluta Amasón.

 

Það er tryllingslegt glott á Fitzcarraldo þegar hann leggur af stað upp með fljótinu ásamt skósveinum sínum.

 

„Þetta er ófullgert land. Það er enn forsögulegt. Það eina sem vantar hér eru risaeðlur. Það er eins og bölvun hvíli á öllu landslaginu hér. Og allir sem fara djúpt inn í frumskóginn þurfa að fá sinn skerf af bölvuninni. Það hvílir því bölvun á því sem við gerum hér. Þetta er land sem guð - ef hann er þá til - skapaði í reiðikasti. Þetta er eini staðurinn þar sem sköpunin er enn ófullgerð. Við nánari skoðun sést að það er ákveðinn samhljómur hér. Samhljómur yfirþyrmandi og sameiginlegs morðs. En þegar ég segi þetta, meina ég það með fullri virðingu fyrir frumskóginum. Málið er ekki að ég hati hann. Því ég elska hann. Mjög mikið. En ég elska hann gegn betri vitund.

„Þetta er ófullgert land. Það er enn forsögulegt. Það eina sem vantar hér eru risaeðlur. Það er eins og bölvun hvíli á öllu landslaginu hér. Og allir sem fara djúpt inn í frumskóginn þurfa að fá sinn skerf af bölvuninni. Það hvílir því bölvun á því sem við gerum hér. Þetta er land sem guð – ef hann er þá til – skapaði í reiðikasti. Þetta er eini staðurinn þar sem sköpunin er enn ófullgerð. Við nánari skoðun sést að það er ákveðinn samhljómur hér. Samhljómur yfirþyrmandi og sameiginlegs morðs. En þegar ég segi þetta, meina ég það með fullri virðingu fyrir frumskóginum. Málið er ekki að ég hati hann. Því ég elska hann. Mjög mikið. En ég elska hann gegn betri vitund.“

 

Hann ætlar að sölsa undir sig ókannaða og ónumda gúmmískóga til að afla fjármuna fyrir byggingu óperuhússins. Hann ákveður að flytja 320 tonna gufuskipið sitt yfir bratta hæð á eiði í fljótinu til að fá aðgang að miklum gúmmísvæðum. Hundruð indíána eru látin hjálpa til við það óyfirstíganlega verk.

 

Vídjó

 

Kvikmynd Herzogs er súrrealísk frásögn af brjáluðum manni sem ætlar að takast á við nær óleysanlegt verkefni í umhverfi þar sem náttúran býr stöðugt til nýjar hindranir. En þrátt fyrir ævintýralegan blæ kvikmyndarinnar þykir hún samt lýsa ágætlega tímunum er gúmmíbarónar ríktu yfir frumskóginum, enda er hún byggð á sannsögulegum atburðum.

 

En nú verður hins vegar fjallað um enn ótrúlegri sögu. Sem er þó dagsönn. Um borg sem var yfirgefin í frumskóginum.

 

Trjátegundin Hevea brasiliensis er kannski ekki sérstaklega þekkt í dag, en hugsanlegt er að einhverjir þekki hana undir nafninu gúmmítré. Á árum áður var kvoða úr þessari trjátegund nauðsynlegt efni í framleiðslu bíldekkja og því var plantan gífurlega verðmæt bílaframleiðendum. Gúmmíbarónar í Amasón og Suðaustur-Asíu auðguðust gífurlega á trjáræktinni.

 

Bandaríski bílaframleiðandinn Henry Ford, sem þurfti að framleiða milljónir hjólbarða undir bíla sína, leið fyrir einokunarstöðu gúmmíframleiðendanna. Hann ákvað því að byggja ótrúlega gúmmíborg árið 1929, Fordlândiu, í miðjum Amasónfrumskóginum, sem átti að verða stærsta gúmmíekra heims.  Risavaxin áform Fords enduðu feiknalega illa fáeinum misserum síðar.

 

Henry Ford (1863-1947) var einn áhrifamesti maður tuttugustu aldar.

Henry Ford (1863-1947) var einn áhrifamesti maður tuttugustu aldar.

 

Í brasilískri sagnfræði er talað um tímabilið 1879 til 1912 sem öld „gúmmíbyltingarinnar“. Á þessum árum varð til hin sérstaka borg Manaus sem stendur í miðjum Amasónfrumskóginum og er ein einangraðasta stórborg heims. Fyrir ríkidæmið sem hlaust af gúmmíræktinni byggðu enskir og hollenskir kaupsýslumenn miklar hallir í Manaus. Sagt var að þegar mest var um viðskipti í borginni hafi íbúar hennar sent skítugan þvottinn alla leið til Lissabon í hreinsun.

 

Í upphafi nutu Brasilíumenn einokunarstöðu í gúmmítrjárækt því Hevea brasiliensis-tréð óx aðeins í Brasilíu, eins og nafnið gefur til kynna. Árið 1876 hafði Bretinn Henry Wickham hins vegar stolið fræjum trésins og tekið með sér til Lundúna þar sem þeim var plantað í grasagarðinum heimsfræga, Kew Gardens. Þaðan voru fræin seld á næstu áratugum til Malasíu og fleiri Asíulanda. Var Wickham harðlega fordæmdur af Brasilíustjórn sem áleit hann „líffræðilegan sjóræningja“.

 

Hevea brasiliensis, gúmmítré. Mynd frá Wikipediu.

Hevea brasiliensis, gúmmítré. Mynd frá Wikipediu.

 

Eftir aldamótin 1900 efldist gúmmíuppskeran í Asíu gríðarlega og náðu nýju barónarnir þar eystra yfirráðum yfir gúmmísölu í heiminum. Komust ræktarlöndin í hendur stórfyrirtækja sem stjórnuðu sölunni á skipulagðan hátt og hækkuðu gúmmíverð í heiminum. Það kom illa við kaunin á framleiðendum á borð við Henry Ford sem þurfti á gríðarmiklu gúmmíi að halda fyrir bílana sem hann framleiddi í milljónatali.

 

Eftir áratugalangt stapp við nýju gúmmíbarónana í austri ákvað Henry Ford að grípa í taumana. Brasilíustjórn hafði reynt í áratugi að styrkja gúmmíiðnaðinn í landinu að nýju og leitaði fjárfesta. Árið 1928 réð Ford menn til að leita að hentugu landi undir nýjar gúmmíekrur.

 

Henry Ford keypti í framhaldinu tíu þúsund ferkílómetra land í Amasón, gríðarlega umfangsmikið land sem samsvarar stærð allrar Karíbahafseyjarinnar Jamaíku eða meira en alls Fljótsdalshéraðs, víðlendasta sveitarfélags Íslands. Fékk Ford landið með því skilyrði að Brasilíustjórn fengi 9% gróðans af starfseminni. Nefndi Henry Ford svæðið Fordlândiu eftir sjálfum sér og fyrirtækinu.

 

Fljótsdalshérað er stórt að flatarmáli. Svæði Henry Ford í Brasilíu var stærra.

Fljótsdalshérað er stórt að flatarmáli. Svæði Henry Ford í Brasilíu var stærra.

 

Í kjölfarið sendi Ford fjölmennt lið á staðinn sem hóf um leið að umbreyta landinu með stórvirkum vinnuvélum, á borð við stærðarinnar fallhamar, gröfur, traktora, ísframleiðslutæki og fleira, sem söguðu niður skóginn, sléttuðu landið og breyttu í ræktarsvæði. Bandarísku landnemarnir frá Ford komu með einingahús með sér og upp spratt myndarlegt þorp á einni nóttu í miðjum frumskóginum.

 

Myndir af dæmigerðum húsum í Fordlândiu minna á húsaþyrpingu Dharma-samtakanna á hitabeltiseyjunni dularfullu í Lost-þáttaröðinni. Eftir nýlögðum götum mjökuðust Ford T-bílar fram hjá húsunum þar sem bandarískir klæðskerar, skósmiðir, bakarar og slátrarar höfðu tekið til starfa. Auk þess voru orkuver, sjúkrahús, bókasafn, golfvöllur og hótel reist þarna.

 

Henry Ford hafði fjölmarga snjalla verkfræðinga á sínum snærum sem gegndu lykilhlutverki í iðnveldi hans. Hann sendi teymi verkfræðinga til Fordlândiu sem átti að skipuleggja gúmmíekrurnar á sem hagkvæmastan hátt. Verkfræðingar höfðu aldrei unnið við landbúnað eða akuryrkju en kynntu sér risavaxnar gúmmíekrurnar í Asíu áður en þeir hófust handa. Þeir ákváðu svo að planta að meðaltali 500 gúmmítrjám á hvern hektara þrátt fyrir þá staðreynd að aðeins vaxi 17 villt gúmmítré á hverjum hektara í Amasónfrumskóginum.

 

Vídjó

Fréttastöðin Al Jazeera heimsótti staðinn fyrir nokkrum árum.

 

Þrátt fyrir að Ford sendi marga bandaríska starfsmenn sína til Fordlândiu þurfti að ráða fjölmarga innfædda verkamenn. Fengu þeir 37 sent á dag fyrir vinnu sína, sem þótti gott kaup á þeim árum í frumskóginum. Fullsköpuð var Fordlândia einkennilegur sambræðingur þar sem bandarískir yfirmenn og brasilískir undirmenn þeirra deildu bandarísku þorpi í miðjum Amasónfrumskóginum.

 

Henry Ford var ekki aðeins hugsjónamaður á sviði iðnaðar og verkfræði heldur einnig gífurlegur áhugamaður um heilsurækt. Neysla áfengis og tóbaks var bönnuð með öllu í Fordlândiu og þar með talið inni á herbergjum og í íbúðum starfsmanna. Innfæddu verkamennirnir komust fram hjá þessum ströngu boðum með því að stofna „skemmtibæ“ nokkrum kílómetrum ofar við ána, á eyju sem uppnefnd var Sakleysiseyja. Þar risu hjallar sem notaðir voru sem barir, næturklúbbar og vændishús.

 

marsupilami-t-6-fordlandia

Í einni af bókunum um Gorm heimsótti hann Fordlândiu.

 

Verst þótti þó Brasilíumönnunum, sem langflestir voru af ættum Amasónindíána,  að þeir væru neyddir til að gerast „bandarískir neytendur“. Ekki var boðið upp á annað fæði í Fordlândiu en hamborgara og pönnukökur á „dæner“-kaffihúsum með hlaðborði eða sjálfsölum.

 

Annað umkvörtunarefni verkamannanna var einkennismerkið sem þeir þurftu að bera  öllum stundum. Auk þess þurftu þeir að búa í bandarískum híbýlum og voru skyldaðir til að taka þátt í bandarískum hátíðahöldum um helgar – til dæmis ljóðaupplestri á ensku og dansleikjum þar sem söngvar voru kyrjaðir á ensku. Það leið ekki á löngu þar til sjóða fór upp úr á milli Brasilíumannanna og bandarískra yfirmanna þeirra. Verkamennirnir lögðu tímabundið niður störf   og kröfðust umbóta og að létt yrði á ströngum reglunum.

 

Fordlandia_p.281

 

Fleiri vandræði þjökuðu Henry Ford en þau sem hinn lélegi félagsandi Fordlândiu skapaði því fljótlega kom í ljós að gúmmíræktin gekk sérlega illa. Það hafði sem sagt komið í ljós að kraftur frumskógarins var ekki eins auðbeislanlegur og Henry Ford hafði talið.

 

Landið var erfitt viðureignar, grýtt og hálent. Ungu trén uxu hægt og illa. Þau tré er náðu almennilegri fótfestu og vexti sýktust fljótt af sveppum og sjúkdómum og visnuðu. Verkfræðingar Fords voru einfaldlega ekki nógu vel að sér í grasafræði til að snúa þessari þróun við. Og það þýddi að ekki var von á neinni gúmmíuppskeru handa Henry gamla Ford í bráð.

 

Pestir lögðust einnig á mennina. Hæðirnar í kringum beljandi fljótið og frumskóginn voru sannkallað gósenland fyrir móskítófluguna sem réðst á verkamennina sem neyddust til að vinna frá níu til fimm að bandarískum sið, skikkaðir til þess með hagkvæmni færibandsins að leiðarljósi. Verkamennirnir voru vanir annars konar vaktafyrirkomulagi, en í nær öllum hitabeltislöndum er venjan að menn taki sér frí frá vinnu um hádegisbil þegar brennheit sólin trónir hæst á lofti. Malaríufaraldur kom nú upp í Fordlândiu sem hamlaði enn framgangi þessa risavaxna verkefnis.

 

Vídjó

Jóhann Jóhannsson tónskáld gerði árið 2007 plötu um Fordlândiu.

 

Í desember árið 1930 ríkti ófremdarástand í herbúðum Fordlândiu. Verkamennirnir voru gríðarlega ósáttir við lífsgæðin og vinnuaðstæðurnar. Einn daginn stóðu brasilískir verkamenn upp í kaffiteríunni og börðu á potta og pönnur og kröfðust umbóta. Nokkrum klukkustundum síðar höfðu mótmælin magnast enn frekar og þjörmuðu indíánarnir að bandarískum yfirmönnum sínum sem flýðu ýmist inn í myrkviði frumskógarins eða á bátum niður eftir fljótinu. Brasilíski herinn mætti til Fordlândiu þremur dögum síðar og stillti til friðar.

 

Þrátt fyrir áföllin og uppreisnina reyndu menn Fords enn að rækta gúmmí og keyptu tveimur árum síðar annað land í nágrenninu, Belterra. Reynt var að herma eftir austurlenskum gúmmíræktendum en allt kom fyrir ekki. Árið 1942, eftir rúmlega tíu ára strit í frumskóginum var árleg uppskera Fordlândiu og Belterra ekki nema 750 tonn, en upphaflega hafði Henry Ford stefnt að því að framleiða 38.000 tonn ári.

 

Árið 1945 fundu vísindamenn upp gerviefni til að framleiða gúmmí. Má segja að ræktun gúmmítrjáa hafi orðið úrelt í heiminum við þau tímamót.  Eigendur Ford-verksmiðjanna horfðu, eins og aðrir bílaframleiðendur, til gerviefnanna, enda voru þau miklu hagkvæmari kostur. Henry Ford, sem aldrei steig fæti á land í Brasilíu, dró saman seglin og hætti allri starfsemi í Fordlândiu. Hann hafði tapað gríðarlegum fjármunum – um 200 milljónum Bandaríkjadala á núvirði – og seldi Brasilíustjórn löndin aftur á gjafverði .

 

Mannvirkin voru skilin eftir í frumskóginum og hafa ekki verið notuð í atvinnustarfsemi síðan. Margir hafa þó fundið not fyrir þau og stundum hefur verið búið í þorpinu. Það er hins vegar afskekkt og einangrað. Mannvirkin standa sem minnismerki um hinar stórkostlega misheppnuðu áætlanir hvíta mannsins um að beisla kraft frumskógarins.

 

Þessi grein var flutt í þætti Lemúrsins á Rás 1, lesið meira og hlustið á fleiri áhuga­verðar frá­sagnir hér.

 

Monty Python grínistinn Michael Palin stýrir vinsælum ferðaþáttum á BBC. Hann ferðaðist til Brasilíu í nýlegum þáttum sem sýndir voru á RÚV og kom við í Fordlândiu. Líklega sáu einhverjir lesendur þáttinn.

 

En hér er mynd frá 1944 um Fordlândiu:

Vídjó