Mannskepnan hefur óbilandi og óseðjandi áhuga á hryllingi, dauða og öðrum óhugnaði, eins og lesendur Svörtu síðnanna kunna að kannast við. Þessi áhugi virðist hafa fylgt okkur frá örófi alda. Fyrir daga lögguþátta í sjónvarpinu og flugvallaglæpasagna voru  morðbæklingar ein leið okkar til þess að fá nauðsynlegan skammt spennu og hryllings.

 

Morðbæklingar (e. murder pamphlets) voru settir saman af athafnasömum prenturum og samanstóðu yfirleitt af frásögn af morði, réttarhöldum yfir morðingjanum og aftöku hans. Bæklingarnar voru svo seldir óþreyjafullum almúganum ódýrt á götuhornum. Frásagnirnar voru sagðar sannar, en hvort það var alltaf rétt er annað mál.

 

Bæklingarnir voru ýmisskonar, allt frá þurri lýsingu á glæpnum og réttarhöldum í mjög litríkar frásagnir fullar af djúsí og ógeðslegum smáatriðum, og með teikningum af morðingjanum, morðsstaðnum og sönnunargögnum. Bandaríska læknisfræðibókasafnið National Library of Medicine á umfangsmikið safn breskra morðbæklinga frá 19. öld, og er hægt að skoða hluta úr safninu á heimasíðu þeirra.