Sigríður Hagalín Björnsdóttir er fréttamaður og rithöfundur frá Reykjavík. Hún er fædd árið 1974, gekk í Menntaskólann í Reykjavík og nam sagnfræði og spænsku við Háskóla Íslands. Sigríður hefur einnig búið í Salamanca á Spáni þar sem hún var í skiptinámi, í New York-borg þar sem hún stundaði framhaldsnám í blaðamennsku við Columbia-háskóla, og í Kaupmannahöfn, þar sem hún var fréttaritari um tíma. 


Sigríður skrifaði ljóð og sögur á menntaskólaárunum og voru ljóð hennar meðal annars gefin út í skólablöðum í MR. Árið 2016, rúmum tveimur áratugum síðar, kom síðan út skáldsagan Eyland, sem sló rækilega í gegn og var tilnefnd til Fjöruverðlaunanna sem og Menningarverðlauna DV. Árið 2018 kom út önnur skáldsaga Sigríðar, Hið heilaga orð, sem hlaut einnig prýðilegar viðtökur lesenda og gagnrýnenda. 

Sigríður á unglingsárunum ásamt nöfnu sinni og ömmu, Sigríði Hagalín leikkonu. Mynd úr Vikunni, febrúar 1991. Ljósmyndari: Binni.


Sigríður ætlar að taka Proust-próf Lemúrsins (eða Egils Helgasonar, réttara sagt), en saga prófsins var einmitt rakin hér


Sæl, Sigríður. Nú er fimmtudagur, í fyrstu viku aprílmánaðar árið 2020. Hvernig hefurðu það í dag? 


Stórfínt, takk. Ég er að vísu heimilislaus þessa dagana, alveg óvænt, en það venst furðuvel. 


Þú ert í öllu falli tilbúin til að taka Proust-prófið? 


Ójá, og kannski er bara betra að vera í svolítið óstöðugu og óvenjulegu ástandi þegar maður tekur prófið. Maður hefur sjaldan brýnni þörf fyrir að taka stöðu sína í heiminum og lífsafstöðu til athugunar.


Amen. Hefjum þá prófið. 


Hver er þín hugmynd um hamingju? 


Hamingjan er að elska og vera elskaður. Það getur reyndar líka verið óhamingja. Þetta er flókið.


Hvað óttast þú mest? 


Mér hefur alltaf verið illa við leðurblökur. Eða frá því að ég var námsmaður í gamalli borg á Spáni og þær steyptu sér niður úr kirkjuturnunum í leit að æti á kvöldin, maður þurfti að halda bók yfir höfðinu á sér til að fá þær ekki í hárið. Það þarf að klippa leðurblöku úr hárinu á manni ef maður fær hana í hausinn, og svo eru þær fullar af skrítnum sjúkdómum, eins og við höfum aldeilis fengið að reyna að undanförnu.


Stærsti ótti minn er samt heimsendir, að siðmenningin og mannkynið líði undir lok. Það væri svo endanlegt, og skilja alla mannlega tilvist í aldanna rás eftir í algeru tilgangsleysi. 


Hvað er þér verst við í eigin fari? 


Ég reyni gagngert að láta mér þykja vænt um eigin galla, segi sjálfri mér að án þeirra hafi maður engan persónuleika. En ég á erfitt með að sætta mig við sjálfhverfni mína og tilhneigingu til að særa fólk með hugsunarleysi mínu og hvatvísi. Og svo gleymi ég alltaf einhverju þegar ég fer út úr húsi, lyklum, síma eða veskinu mínu, það getur alveg farið með mig.


Hvað er þér verst við í fari annarra? 


Sjálfsvorkunn og óheilindi. Og svo er ég með ofnæmi fyrir leiðinlegu fólki.


Hvaða lifandi manneskju dáir þú mest? 


Sko, ég held að ég dái engan, ekki hamslaust, úr fjarlægð, ekki þannig, þótt maður geti verið stórhrifinn af verkum fólks, og ákveðnum eiginleikum. Ég held að við séum öll jafngölluð og krumpuð, okkur gengur bara misvel að fela það. Og eftir því sem fólk er aðdáunarverðara á yfirborðinu, því myrkari leyndardóma geymir það undir niðri … meira að segja Gandhi var óttalegur pervert, skilst mér. Ég dái mest fólkið sem mér þykir vænt um, fjölskyldu mína og vini, vegna þess að ég þekki galla þeirra og veit að það eru aðdáunarverðar manneskjur þrátt fyrir þá.


Hvað, ef eitthvað, áttu til að gera í óhófi? 


Ég á það til að fá hlutina á heilann og sökkva mér gersamlega niður í þá, hvort sem það er garðyrkja eða indversk matargerð eða fiðluleikur… og svo er ég óhóflega áhugasöm um mat.


Hvert er hugarástand þitt núna? 


Ég er óróleg, áhyggjufull og bjartsýn.


Hver er ofmetnasta dyggðin? 


Ég veit það ekki. Hófsemd? Kannski mætti frekar spyrja: hver er vanmetnasti lösturinn?


Við hvaða tækifæri lýgurðu? 


Ég myndi ljúga, stela og myrða fyrir börnin mín. Ég er ekki góður lygari, en ég ýki mjög vel.

„Ég myndi ljúga, stela og myrða fyrir börnin mín. Ég er ekki góður lygari, en ég ýki mjög vel.“ Sigga og dæturnar, Hildur og Auður, í eyðimörkinni árið 2012. Mynd úr einkasafni.


Hvað þolir þú minnst við útlit þitt? 


Maður lærir smám saman að sætta sig við útlitslýti sín, eins og brestina í persónuleikanum. En ég er með ofboðslega stórt höfuð, hef aldrei fundið höfuðfat sem passar á mig. Og svo er ég alveg axlalaus, eins og flaska í laginu. En sátt, samt.


Hvaða eiginleika kanntu mest að meta í fari kvenna?


Húmor, hjartahlýju og hugrekki. 


 Hvaða eiginleika kanntu mest að meta í fari karla? 


Húmor, hjartahlýju og hugrekki, og af því að þessar spurningar eru frá 19. öld, þá finnst mér alltaf sjálfsögð krafa að karlar séu góðir knapar. 


Hvaða orð, eða frasa, notar þú of mikið? 


Innihaldslausa frasa, til að binda endi á samræður og láta mig í leiðinni líta út fyrir að vera vitrari en ég er, eins og „Þetta fer allt einhvern veginn“ og „Þetta er ekki einfalt“ og „Það er ekkert víst að þetta klikki.“


Hver er stærsta ástin í lífi þínu? 


Ástin er að minnsta kosti mikilvægasta aflið í lífi mínu. Að elska er að lifa í hamingju og stöðugum ótta.


Hvar og hvenær varst þú hamingjusömust? 


Hér og nú. Ástin mín er að rista handa mér brauð.


Hvað hæfileika myndirðu helst vilja búa yfir? 


Að sjá fyrir óorðna hluti og geta breytt þeim.


Ef þú gætir breytt einhverju einu við sjálfa þig, hvað væri það? 


Ég vildi að ég kæmist út úr húsi án þess að gleyma símanum mínum, lyklunum eða veskinu.


Ef þú myndir endurholdgast sem önnur manneskja, dýr eða hlutur, hvað væri það?


Ég væri til í að endurholdgast sem bananatré. Þau eru í raun ekki tré, heldur risastór og flókin rótakerfi sem skjóta í sífellu upp nýjum trjám, sem bera ríkulegan ávöxt og visna síðan, en ræturnar lifa áfram og geta verið næstum eilífar – það er falleg og gefandi tilhugsun. Og bananar eru góðir.


Í hvaða borg/landi myndirðu helst vilja búa?


Öll mín æskuár dreymdi mig um að búa í fjarlægum löndum, ég fór út og sneri aftur heim, mörgum árum seinna. Ég er harðánægð hér í Vesturbænum.


„Öll mín æskuár dreymdi mig um að búa í fjarlægum löndum, ég fór út og sneri aftur heim, mörgum árum seinna. Ég er harðánægð hér í Vesturbænum.“ Melabúðin, mynd: Facebook.

Hver er mikilvægasti hlutur sem þú hefur átt? 


Þetta er alveg hræðilega erfið spurning. Ég er ekkert mikið fyrir hluti. Nema svona kollektíft, bækurnar mínar og svoleiðis. Jú, fiðlan mín var mikilvægast hluturinn sem ég átti fram eftir aldri, svo hætti ég að spila, snerti hana ekki í þrjá áratugi. Nú er ég byrjuð aftur, illa, mjög illa, og hún er meira eins og minnisvarði um eitthvað sem skipti mig einu sinni máli.


Hver er mesti harmur sem þú getur hugsað þér? 


Að lifa börnin mín.


Hvað finnst þér skemmtilegast að gera? 


Mér finnst mjög margt skemmtilegt. Að elda, borða, fara á skíði, vinna, fara í bíó. Liggja uppi í sófa og lesa.


Hver er sterkasti þátturinn í þínu fari? 


Sjálfsagt er betra að aðrir dæmi um það, ég vona að það sé gleði.


Hvaða rithöfundar eru þér mest að skapi? 


Ég hefði ekki átt í neinum vandræðum með að svara þessari spurningu fyrir fáeinum árum, en eftir að ég byrjaði sjálf að bauka við að skrifa hef ég þurft að taka það til algerrar endurskoðunar. Maður les allt öðruvísi þegar maður fer sjálfur að skrifa, það er eins og að opna fallegan hlut og sjá allt í einu gangverkið inni í honum. Eins og að maður fari að sjá í gegnum brögðin hjá töframanninum. Þannig að ég segi pass við þessari spurningu.

   

Hvaða skáldskaparpersóna er í mestu uppáhaldi? 


Æ, ó, þetta er erfitt. Úr bókum síðustu vikna og mánaða: Woland?


Hvaða einstaklingur í mannkynssögunni er þér mest að skapi?


Danton. Eða Fleming, sem fann upp pensillínið. Það hafa fáir gert meira gagn.

Eða Fleming, sem fann upp pensillínið. Það hafa fáir gert meira gagn.“ Sir Alexander Fleming (1881-1955) á rannsóknarstofu sinni á St. Mary’s háskólasjúkrahúsinu í Lundúnum árið 1943. Mynd: Imperial War Museum.


Hvaða einstaklingur í mannkynssögunni er þér síst að skapi? 


Harðstjórar og handbendi þeirra. Ég geri þeim ekki til geðs að gera upp á milli þeirra.


Hvaða tónlistarfólk er þér mest að skapi? 


Ég á mjög erfitt með að gera upp á milli þeirra, af mjög ólíkri ástæðu. Hlusta næstum því á hvað sem að kjafti kemur, nema kannski þungarokk … Akkúrat í dag væri það Víkingur Heiðar, því ég eignaðist nýju plötuna hans í fyrradag og er enn með stjörnur í eyrum yfir henni.


Hvernig viltu deyja? 


Í draumi, um djarft og voldugt ævintýr… 


Hvert er uppáhaldsblómið þitt? 


Þau eru dálítið mörg. Fjalldalafífill, blágresi, lísíantus. Ég er blómakona.


„Ég er blómakona.“ Blómasölukona við Rue Cambon í París, 1918. Úr myndasafni Alberts Kahn.

Hvert er uppáhaldsfjallið þitt? 


Því er auðsvarað: Esjan. Hún er bæði falleg og praktísk, ver borgina fyrir norðanáttinni.


Áttu þér eftirlætis einkunnarorð/mottó? 


Í dag væru þau úr söngtexta eftir Jón Múla: Fegurð og gleði og fögnuð, framtíð í skauti sér ber.


Þá þetta komið. Kærar þakkir, Sigríður, vonandi náðir þú að njóta ristaða brauðsins á meðan prófinu stóð. 


Hvort ég gerði, nú dusta ég mylsnuna af lyklaborðinu. Takk fyrir mig, þetta var bráðskemmtilegt!