Beitiskipið Pótemkín er ein frægasta kvikmynd sögunnar. Hún var gerð í hinum nýstofnuðu Sovétríkjum árið 1925. Leikstjóri var Sergei Eisenstein.

 

Beitiskipið Pótemkín er áróðursmynd og fjallar um sannsögulega atburði sem urðu byltingarárið 1905 um borð í beitiskipi rússneska flotans. Dátar voru ósáttir við yfirboðara sína á skipinu og gerðu uppreisn gegn þeim.

 

Sergei Eisenstein.

Tuttugu ár voru liðin frá þessum atburði árið 1925, en hann þótti mikilvægt skref fyrir hina endanlegu byltingu og valdaskipti í Rússlandi árið 1917, þegar Nikulás II fór frá og Lenín varð leiðtogi.

 

„Þetta er ekki saga einstakra persóna, heldur rammpólitísk áróðursmynd um baráttu gegn kúgun og óréttlæti, gerð til að sýna styrk kommúnismans. Fólkið er fyrst og fremst táknmyndir – íkonar, myndmálið flytur skýr og markviss skilaboð, samsetningin er hugsuð til að sannfæra þig um tiltekin viðhorf,“ skrifar Ásgrímur Sverrisson.

 

En áhrif myndarinnar voru langt því frá einungis pólitísk því hún hafði gríðarleg áhrif á kvikmyndagerð um allan heim, á myndmál, klippingu, myndatöku. Beitiskipið Pótemkín er einn af bautasteinum kvikmyndasögunnar, gríðarlega mikilvægt verk sem allir verða að sjá.

 

 

Vídjó

 

 

„Eisenstein lagði grunn að myndmálinu“

Sigríður Pétursdóttir er kvikmyndafræðingur og umsjónarmaður Kviku á Rás 1 og Kviksjár á RÚV. Lemúrinn spjallaði við hana um Beitiskipið Pótemkín.

Sigríður Pétursdóttir. (Mynd: RÚV)

 

Hvenær sástu þessa mynd fyrst?

„Árið 1996, í einum af fyrstu tímunum sem ég sótti í námi í kvikmyndafræði í Svíþjóð. Hafði oft heyrt um hana áður en aldrei séð þessa merku mynd. Hún hafði verið sýnd annað slagið en ég verið fjarri góðu gamni. Á þeim tíma var erfiðara að nálgast slíkar myndir, ekki hægt að fara á YouTube eða Lemúrinn og drekka í sig fróðleik. Heimur bestnandi fer.“

 

Hvers vegna er hún talin með mikilvægustu myndum þögla tímans í kvikmyndum?

„Það er svolítið erfitt að útskýra það í stuttu máli. Fyrst og fremst vegna þess að Eisenstein leggur grunn að því myndmáli sem við þekkjum í dag. Það gerir hann ekki síst með samsetningu atriða í víðustu merkingu þess orðs, klippingu sem er beitt á þann hátt að hún hafi sterk áhrif á tilfinningar áhorfenda.

 

Hann notast til dæmis við andstæður og frægasta dæmið í myndinni um áhrifamikla klippingu er atriðið í marmaratröppunum í Odessa.

 

Vopnaðir kósakkar skjóta á skelfingu lostið fólk sem reynir að flýja undan þeim niður tröppurnar. Við sjáum til skiptis hópinn hlaupa niður tröppurnar, árásarmennina og svo nærmyndir sem fylla okkur viðbjóði og hræðslu, barn sem treðst undir fyrir augunum á móður sinni sem freistar þess að stöðva kósakkana og síðast en ekki síst eitt frægasta atriði kvikmyndasögunnar, lokaatriði myndarinnar þegar barnavagn með smábarni rennur niður tröppurnar.

Í myndum Eisensteins er ekki ein söguhetja heldur er sjónum beint að fólkinu, heildinni.“

 

Er hægt að sjá áhrif Beitiskipsins víða í kvikmyndum? Til dæmis þessum frægustu myndum sem við höfum öll séð?

„Já, ætli atriðið á lestarstöðinni í The Untouchables sé ekki einna þekktasta vísunin enda virkilega vel unnin. En svo hafa vísanir í myndina verið í mun fleiri myndum, stundum alvarlegar en líka grín eins og til dæmis í Naked Gun.“

 

Er enn hægt að læra eitthvað af henni?

„Maður sér ennþá sterk áhrif, til dæmis í auglýsingum og tónlistarmyndböndum enda er þar verið að koma sterkum skilaboðum til áhorfenda og sannfæra, rétt eins og í Beitiskipinu Pótemkín. Kynslóðir kvikmyndagerðarmanna hafa lært af myndinni og nýtt sér hana. Það er svo gaman að hver ný kynslóð sér eitthvað sem fyrirrennarar hennar hafa ekki komið auga á.“