„Austrið er viðkvæmt mál.“ Svo hljóðar frægasta setningin úr einni frægustu kvikmynd Sovétríkjanna, ‘austranum’ Hvít sól eyðimerkurinnar (Beloe solntse pustyni).

 

Amerískir vestrar nutu vinsælda handan járntjaldsins eins og víðar í heiminum. Í Tékkóslóvakíu, Austur-Þýskalandi og víðar gerðu menn sína eigin „Rauða vestra“ sem áttu að gerast í villta vestri Bandaríkjanna, líkt og hinir ítölsku spagettívestrar. En kvikmyndagerðarmenn í sjálfum Sovétríkjunum sáu minni ástæðu til þess að þykjast vera kúrekar í Ameríku, enda áttu þeir nóg af villtu landsvæði. Í stað ameríska vestursins komu endalausar sléttur Miðasíu. Hinir svokölluðu „austrar“ (Ostern) gerast flestir á tímum rússnesku byltingarinnar og borgarastyrjaldarinnar sem fylgdi. Hinir innfæddu íbúar Miðasíu voru fæstir óðir og uppvægir í að styðja Byltinguna og renna inn í hin nýfæddu Sovétríki og mynduðu uppreisnarflokka sem börðust allt fram á fjórða áratuginn. Í hinum sovésku austrum fara hugrakkir Rauðahermenn um hinar hrjóstrugu sléttur og kljást við uppreisnarmenn.

 

Hvít sól eyðimerkurinnar kom út árið 1969 og var ein af fyrstu eiginlegu austrunum. Handrit myndarinnar hafði gengið manna á milli en enginn viljað taka að sér leikstjórnina. Meðal annars sjálfir Andrei Tarkovsky og Andrei Konchalovsky höfðu neitað og hinn síðarnefndi lýst yfir efasemdum um að Rússar gætu á annað borð leikið í vestra. Loks tók Vladimir nokkur Motyl handritið að sér og úr varð blanda af byssuglöðum vestra, gamanmynd og rússnesku ævintýri.

 

 

Hetja myndarinnar er Fjodor Ivanovich Sukhov, hermaður í Alþjóðlegu byltingarherdeild öreiganna við Kaspíahaf. Eftir að hafa barist með djörfung í borgarastyrjöldinni er hann loksins á leið yfir auða sanda Túrkmenistans heim til sinnar heittelskuðu Katarínu Matveyevnu. En á leiðinni gengur hann fram á kollega sína sem grátbiðja hann að hjálpa þeim að ráða niðurlögum hins grimma uppreisnarmanns Svarta Abdúllah. Sukhov er hikandi en fæst að lokum til þess að fylgja hópi innfæddra kvenna — kvennabúrs Abdúllah, sem hann yfirgaf á flótta undan Rauða hernum — í öruggt skjól. Á leiðinni yfir sandana reynir Sukhov að uppfræða búrkuklæddar konurnar um undur Byltingarinnar og sósíalismans. Það ber lítinn árangur. Og Abdúllah og menn hans fylgja fast á hæla hans — á endanum neyðist Sukhov til þess að fresta enn heimkomunni til sinnar heittelskuðu og gera útaf við hin illa Abdúllah.

 

Hálfkæringslegar tilraunir Sukhovs til þess að koma kvennabúrskonunum í skilning um undur sósíalismans fóru aðeins fyrir brjóstið á yfirvöldum þegar myndin kom út. En hjá almenninga vakti hún stormandi lukku og naut mikilla og langvarandi vinsælda. Hvít sól eyðimerkurinnar er í dag ein helsta költmynd rússneskrar kvikmyndasögu. Fjölmargir frasar úr myndinni hafa fest í rússnesku máli. Hefð er meðal rússneskra geimfara að horfa á myndina áður en þeir láta skjóta sér út í geim.

 

Myndina er hægt að horfa á Vídjóhérna’));“>

á Youtube-síðu framleiðslufyrirtækisins Mosfilm. Ýtið á „CC“ í hægra horninu til þess að kveikja á enskum texta.