Flestir sem hafa heimsótt Berlín, höfuðborg Þýskalands, kannast eflaust við réttinn Currywurst. Fyrir Berlínarbúa er rétturinn orðinn að órjúfanlegum hluta staðbundnar menningar borgarinnar, og gildir þá einu á hvaða aldursbili eða þjóðerni íbúarnir tilheyra. Það elska allir Currywurst, tja, nema þá kannski þeir sem geta ekki snætt réttinn af trúar-eða siðferðisástæðum (gyðingar, múslimar eða grænmetisætur sem dæmi).

 

Currywurst er fullkomið dæmi um rétt sem einkennist af sviptingum og átökum í mannkynssögunni og úr réttinum má einmitt lesa söguna.

 

Höfundur réttarins var mikil hetja, Herta Heuwer nokkur. Heuwer var ekki aðeins hetja í hugmyndafræðilegum skilningi, fyrir að hafa fundið upp þennan dýrindis rétt. Hún hafði nefnilega einnig unnið sem svokölluð rústakona, eða Trümmerfrau, en Lemúrinn hefur einmitt fjallað um þær og afrek þeirra.

 

Herta Heuwer á sínum yngri árum. Fyrir stríð starfaði hún við afgreiðslu í KaDaWe, þekktasta verslunarhúsi Berlínar.

Herta Heuwer á sínum yngri árum. Fyrir stríð starfaði hún við afgreiðslu í KaDeWe, þekktasta verslunarhúsi Berlínar.

 

Heuwer opnaði svokallað Imbiss við horn Kantstraße og Kaiser-Friedrichstraße í Charlottenbourg-hverfi Berlínar. Imbiss er nokkurs konar vagn með afgreiðslulúgu, ekki ósvipað Bæjarins bestu – en yfirleitt með ögn meira úrval af steiktum kjötvörum og meðlæti. Verkamenn hafa sérstaklega verið hrifnir af Imbiss-um í Þýskalandi, sem hafa verið einkennandi fyrir þýska menningu síðan á miðöldum.

 

Gallinn var hins vegar sá að kjötmarkaðurinn hafði hrunið í Þýskalandi. Það litla kjöt sem var framleitt var dýrt, og var því reynt að drígja það eins og kostur gafst. Var það einkum notað í pylsur, svokallaðar Brühwurst, en þeim flokki tilheyra til að mynda vínarpylsur, Bockwurst og Weisswurst. Einkenni þessara tegunda pylsa er að þær innihalda um 50 prósent kjöt, 25 prósent fitu og 25 prósent vatn. Sumsé, hollt og gott!

 

Meðlætið var einnig af skornum skammti. Erfitt var að nálgast vinsælar neysluvörur sem Þjóðverjar voru vanir. Brauðframleiðsla var takmörkið, súrkál var illfáanlegt. Meira að segja sinnep, sem er Þjóðverjum svo gott sem í blóð borið, var hvergi sjáanlegt á fyrstu árunum eftir stríð.

 

Það sem Heuwer hafði, þurfti hún að nota. Voru það mikið til enskar vörur, sem voru fluttar til Þýskalands bæði vegna þess að þýsk matvælaframleiðsla var í rúst og ekki síður til að styrkja enskan útflutning.

 

Heuwer sat því uppi með pylsur, ásamt týpískum enskum vörum. Þær voru nánar tiltekið tómatkraftur, worchestershire-sósa og karrýduft (sem er auðvitað ættað frá Indlandi, hluta Breska heimsveldisins – en uppruni þess er önnur saga, ekki síður merkileg). Heuwer brá á það ráð að blanda þessum hráefnum saman, steikja pylsurnar og skera þær í bita og hella síðan sósunni yfir. Rétturinn var svo fullkomnaður með smá karrýdufti í viðbót sem var dreift yfir sósuna.

 

Þennan skjöld má finna við Kantstraße í Charlottenbourg í dag. Með honum vildu Berlínarbúar sýna Heuwer þakklæti sitt.

Þennan skjöld má finna við Kantstraße í Charlottenbourg í dag. Með honum vildu Berlínarbúar sýna Heuwer þakklæti sitt.

 

Óhætt er að segja að rétturinn hafi slegið í gegn. Þrátt fyrir að Heuwer hafi gengið svo langt að fá einkaleyfi fyrir þessari uppfinningu, byrjuðu aðrir Imbiss-eigendur að dæla út Currywurst, hver með sínu lagi – agnarögn öðruvísi en upprunaleg uppskrift Heuwer.

 

Í dag er Currywurst enn meðal vinsælustu skyndibita Berlínarborgar. Eini rétturinn sem kemst nálægt er ef til vill Döner Kebap, annar réttur sem varð til vegna sviptinga í mannkynssögunni – bein eða óbein afleiðing síðari heimstyrjaldar. Um hann verður fjallað síðar.

 

Svona er Currywurst oftast borið fram. Nema ef franskar eru með. Þá er gott að fá smá mæjónes með.

Svona er Currywurst oftast borið fram. Nema ef franskar eru með. Þá er gott að fá smá mæjónes með.

 

Það er síðan saga að segja frá því, að þýski rithöfundurinn Uwe Timm hefur löngum talið sig vita betur en aðrir Currywurst-sagnfræðingar. Hann er fæddur í Hamborg árið 1940 og segist muna glögglega eftir því, þegar hann borðaði Currywurst í fyrsta sinn – sjö ára að aldri árið 1947, eða tveimur árum áður en Heuwer hóf að selja Currywurst í Berlín.

 

Um þetta ævintýri skrifaði Timm stutta skáldsögu, Die Entdeckung der Currywurst (Uppgvötun karrípylsunnar), og eftir henni var gerð eftirminnileg kvikmynd. Í bókinni verður sósan til eftir að kona nokkur í Hamborg, Lena Brücker, er að flytja inn vörur í verslun sína. Hún missir einn kassann, sem var fullur af vörum frá Englandi, með tilheyrandi broti og bramli. Eftir situr tómatsósa, blönduð karridufti á gólfinu… og þá kviknaði á perunni.

 

Hér má sjá stiklu úr kvikmyndinni:

 

Vídjó