Fróði: Paul McCartney. Sómi: Ringo Starr. Gandalfur: George Harrison og síðast en ekki síst Gollrir: John Lennon.

 

Bítlarnir brölluðu ýmislegt þegar líða tók á feril hljómsveitarinnar. Fyrir utan að senda frá sér hvert meistarastykkið á fætur öðru stofnuðu þeir útgáfufyrirtækið Apple Records árið 1968. Samfara því starfræktu þeir lítið kvikmyndaver, Apple Films. Myndirnar Magical Mystery Tour og Yellow Submarine urðu þar til, ásamt ýmsum tónleikamyndum og öðru efni.

 

Lygileg saga Paul
Árið 2002 hitti Bítillinn Paul McCartney nýsjálenska leikstjórann Peter Jackson á Óskarsverðlaunahátíðinni. Þetta var á þeim árum sem Jackson kvikmyndaði Hringadróttinssögu, meistaraverk enska rithöfundarins og fræðimannsins J.R.R. Tolkien, en þríleikurinn fór sigurför í kvikmyndahúsum heimsins, eins og flestir muna. McCartney notaði tækifærið og sagði Jackson lygilega sögu.

 

Bítlarnir, og þá helst John Lennon, föluðust eftir því um 1968 að kvikmynda Hringadróttinssögu. Lennon vildi leika Gollri, hina aumkunarverðu og spilltu veru sem hefur látið hringinn eina umbreyta sér í skrímsli. McCartney átti að fara með hlutverk hins vaska hobbita Fróða Bagga og hugmyndin var að Ringo Starr tæki að sér hlutverk hjálparhellu hans, Sóma Gamban. Og hvern átti George Harrison að leika? Jú, auðvitað galdrakarlinn Gandalf.

 

inSXUyT

Tónlistin í myndinni. Þessi hljómplata lítur ekki illa út. Tónlist Bítlanna í Hringadróttinssögu. En þetta er því miður bara plat. Myndina gerði Joe D. fyrir vefinn Super Punch.

 

Sýrutímar
Munum að þetta var á miklu blómatímabili í listsköpun Bítlana. Hátt sýrustig einkenndi tónlist og myndrænt efni hjá þeim eins og mörgum öðrum tónlistarmönnum á þessum tíma. Fantasíur og furðusögur voru í miklu uppáhaldi hjá hippunum og margir flettu Hringadróttinssögu spjaldanna á milli.

 

Tolkien var auðvitað ekki af þessari litríku kynslóð, var fæddur 1892 og lést örfáum árum eftir þetta. Hann hélt sjálfur utan um kvikmyndarétt að verkum sínum og hafnaði þessum hugmyndum Bítlanna.

 

„Hann drap þetta í fæðingu,“ sagði Peter Jackson í viðtali stuttu eftir að hafa heyrt þessa sögu frá McCartney.

 

Bítlarnir í Mordor. Paul sem Fróði, Ringo er Sómi, George Gandalfur og John er Gollrir, nema hvað? Myndina gerði Cormac McEvoy (http://cormacmcevoy.blogspot.com/) fyrir vefinn Super Punch.

Bítlarnir í Mordor. Paul sem Fróði, Ringo er Sómi, George Gandalfur og John er Gollrir, nema hvað? Myndina gerði Cormac McEvoy (http://cormacmcevoy.blogspot.com/) fyrir vefinn Super Punch.

 

Kubrick leikstjóri
Bítlarnir höfðu hugsað sér að fá meistara Stanley Kubrick til að leikstýra myndinni. Kubrick var á hátindi ferilsins og sendi á þessum árum frá sér meistaraverk á borð við 2001: A Space Odyssey og A Clockwork Orange.

 

Bítlarnir sjálfir ætluðu svo auðvitað að semja tónlistina fyrir kvikmyndina. „Það hefðu örugglega verið flott lög,“ sagði Peter Jackson.

 

Tolkien ekki vinur Bítlanna

Ef marka má bréfasafn Tolkiens var hann ekki ýkja hrifinn af Bítlunum. Tolkien bjó í lítilli götu í Oxford og varð stundum fyrir ónæði þar vegna ærsla og umgangs nágranna sinna. Árið 1964 skrifaði hann Christopher Bretherton um þessar raunir sínar og kvartaði yfir hávaða í „útvörpum, sjónvörpum, hundum, skellinöðrum og stórum bílum“ langt fram á nótt.

 

Tolkien.

Tolkien.

 

Tolkien sá horn í síðu ákveðinna nágranna sinna sem voru dæmigerðir fyrir þær breytingar sem urðu í samfélaginu með tilkomu rokksins á sjöunda áratugnum. „Hópur ungra manna býr í húsi skammt frá mér en þeir virðast ákveðnir í að breytast í Bítlaband. Á þeim dögum sem bandið æfir sig er hávaðinn óútskýranlegur.“ Tolkien gamli var greinilega alls ekkert hrifinn af hinum síðhærðu og hávaðasömu rokkurum og því kemur ekki á óvart að hann hafi bannað Bítlunum að kvikmynda sitt frægasta sköpunarverk.

 

Tolkien var sérstaklega pirraður á hávaðanum í götunni sinni því hann hafði keypt húsið í þeirri von að fá frið fyrir sig og konu sína í ellinni. Eiginkonan Edith þjáðist af veikindum og læknir hafði í raun skipað hjónunum að finna sér heimili á rólegum stað.

 

Skemmtileg tilhugsun

Tolkien-aðdáendur hugsa eflaust margir að kvikmynd þessi hafi sem betur fer ekki orðið til. En Bítlunum var treystandi til margra góðra verka. Samstarf við Kubrick hefði nær örugglega leitt til flottrar bíómyndar og ekki neins skrípaleiks, þó tilhugsunin um Lennon í gervi Gollris og Harrison með Gandalfsskeggið sé óneitanlega einkennileg.

 

Hér á síðunni eru ýmis ímynduð veggspjöld og myndverk um Hringadróttinssögu Bítlanna. Verkin birtust á vefnum Super Punch sem hélt samkeppni um þetta efni.

 

Einn Hringur ræður þeim öllum. Bítlarnir og Kubrick í furðuheimum Tolkiens. Myndina gerði Shane Parker (zero-lives.blogspot.com/) fyrir vefinn Super Punch.

Einn Hringur ræður þeim öllum. Bítlarnir og Kubrick í furðuheimum Tolkiens. Myndina gerði Shane Parker (zero-lives.blogspot.com/) fyrir vefinn Super Punch.