Geislar sólarinnar náðu sjaldan að skína á milli steypuveggjanna. Fólkið bjó samþjappað, líkt og  í sardínutunnu, í völundarhúsi krákustíga og rangala. Engin lög voru við lýði. Skottulæknar buðu upp á ódýra þjónustu. Á hverju horni voru illalyktandi og gluggalausir matsölustaðir. Fólkið forðaðist að búa í íbúðum á jarðhæð vegna ruslsins sem safnaðist upp.

 

Kowloon-borg var hverfi í Hong Kong sem vegna pólitískrar gloppu varð eins konar fríríki innan Hong Kong-borgar á tímum breskrar nýlendustjórnarinnar. Í raun var Kowloon það sem kallað er hólmlenda, eða innskotssvæði, Kínverja innan landamæra Bresku-Hong Kong en stjórnað af hvorugu ríkinu þangað til það var jafnað við jörðu árið 1993.

 

Myndirnar með þessari grein eru eftir kanadíska ljósmyndarann Greg Girard, af íbúum og umhverfi Kowloon, teknar árin 1988-1993. Um það leyti bjuggu 50.000 manns á einungis 26.000 fermetrum.

 

girard_kowloon_00

 

Í Kowloon stóð virki á öldum áður sem notað var til varnar sjóræningjum. Qing-keisaraveldið hafði lið hermanna í Kowloon á 19. öld. Þegar Bretar náðu völdum yfir Hong Kong með svokölluðum Nanjing-samningi árið 1842 ákváðu Kínverjar að halda virkinu til að fylgjast með umsvifum Breta á svæðinu.

 

 

 

Nýr samningur var svo gerður árið 1898 þar sem Bretar fengu aukið landsvæði í nærsveitum Hong Kong til umráða í 99 ár. Lenti þá Kowloon á miðju umráðasvæði Breta en Kínverjum var leyft að halda virkinu um sinn með því skilyrði að hermenn skiptu sér ekki af Bretum.

 

Ári síðar skiptu Bretar hins vegar um skoðun og réðust á Kowloon-virki. Þeir komu að tómum kofanum því Kínverjar voru á bak og burt. Ákváðu Bretar þá að skilja blettinn, sem taldi tæpa þrjá hektara, eftir í reiðileysi.

 

 

 

Þegar Japanar hertóku Hong Kong í seinni heimsstyrjöldinni rifu þeir niður virkisveggina í Kowloon og ætluðu að byggja þar flugvöll. Ekkert varð úr því og eftir stríð var svæðið autt og yfirgefið en enn kínversk hólmlenda.

 

 

Á eftirstríðsárunum flykktust innflytjendur til Kowloon, sérstaklega landflótta Kínverjar, en Maó stofnaði Alþýðulýðveldið Kína árið 1949 sem hafði gífurlegt umrót í för með sér. En hverfið var enn fast í gloppu: Yfirvöld í Hong Kong höfðu ekki nein völd þar og mátti ekki skipta sér af því sem innan þess gerðist, Kowloon var kínverskt yfirráðasvæði, en samt virtust Kínverjar ekki hafa neinn áhuga á því. Fyrir þessar sakir var Kowloon fríríki.

 

 

Árin liðu og byggingar spruttu upp eins og gorkúlur á hekturunum þremur og fyllti steypumassinn brátt upp í hverja glufu. Á nokkrum áratugum var íbúafjöldinn orðinn 10.000. Alþjóðlega kínverska glæpagengið Triad tók völdin á sjötta áratugnum. Meðlimir þess stjórnuðu hverfinu eins og konungar og stunduðu vændi, eiturlyfjaviðskipti, fjárhættuspil og vopnasölu.

 

Í baráttunni við gengið neyddist lögreglan í Hong Kong til að brjótast inn í Kowloon þótt það stangaðist á við milliríkjasamninga. Lögregluyfirvöld náðu að reka Triad-gengið á brott árið 1974 eftir um 3.000 áhlaup inn í hverfið.

 

 

Íbúar Kowloon fögnuðu flestir þegar glæpagengið var á bak og burt og nú blómstraði fríríkið sem aldrei fyrr. Árið 1980 voru íbúarnir orðnir 35.000 og steypudranginn óx og dafnaði og tók ótal breytingum sem stöðugt áttu sér stað þangað til svæðið leit út eins og samfelldur steypuklumpur.

 

 

Kowloon var enn miðstöð vændis og eiturlyfjasölu, spilavíta og leyniverksmiðja. Þar mátti finna allt milli himins og jarðar – t.d.veitingastaði með hundakjöt, ópíumstofur, ódýrar tannlæknastofur og markaði með þýfi. Skoðanir voru skiptar – sumum fannst Kowloon vera dæmi um fullkomið fríríki á meðan aðrir litu á það sem mesta lastabæli og viðbjóðsstað. Gekk bandaríska fréttastofan US News & World Report svo langt að kalla fríríkið „daunillan drullupoll“.

 

Hér er myndband sem sýnir hverfið:

Vídjó

 

 

 

En með tímanum gáfust yfirvöld í Kína og Hong Kong upp og gerðu með sér samning um endalok Kowloon sem innskotssvæði Kínverja og þar með var stoppað upp í pólítísku gloppuna, enda nálgaðist afhending Breta á stjórn Hong Kong til Kínverja árið 1997.

 

 

Steypudranginn í Kowloon var jafnaður við jörðu árið 1993 og svæðinu breytt í almenningsgarð. Rétt fyrir endalokin bjuggu 50.000 manns í Kowloon-hverfi á 2,8 hektururum eða 26.000 fermetrum. Svæðið var því líklega þéttbýlasti staður í heimi með þéttbýlisviðmið upp á tæpar tvær milljónir manna á hvern ferkílómetra.

 

Teikning af borginni úr japönsku tímariti.