Vídjó

León Trotskíj blandaðist inn í sögu Rómönsku Ameríku þegar hann steig á land í Mexíkó árið 1937 og fékk þar pólitískt hæli.

 

Hér fyrir ofan sjáum við hann halda ræðu fyrir framan mexíkóska kvikmyndavél um sýndarréttarhöldin sem haldin voru yfir honum í Moskvu. Upptakan hefur heimilislegan blæ. Byltingarforinginn útlægi var einn áhrifamesti stjórnmálamaður tuttugustu aldarinnar en hafði verið á flækingi í mörg ár og var nú kominn alla leið til Mið-Ameríku.

 

Hann biðst afsökunar á lélegri ensku sinni og þakkar mexíkósku þjóðinni fyrir gestrisnina og leiðtoga hennar, Cárdenas forseta. Og í bakgrunni heyrum við hana gala. En þrátt fyrir þessar nokkuð furðulegu kringumstæður talar Trotskíj með yfirvegun um hin ægilegu réttarhöld sem haldin voru yfir honum í Sovétríkjum Stalíns.

 

León Trotskíj

León Trotskíj

Hann hafði verið hægri hönd Vladimírs Leníns á fyrstu árum bolsévikastjórnarinnar sem lagði grunninn að hinu mikla veldi Sovétríkjanna.

 

Hann hafði verið stofnandi og æðsti yfirmaður Rauða hersins, eins mesta hers veraldar.

 

Allir bjuggust við að hann tæki við stjórnartaumunum að Lenín látnum.

 

En nú, rúmum áratug eftir andlát Leníns, stóð hann innan um hana og hænur í úthverfi Mexíkóborgar og lýsti yfir sakleysi sínu.

 

Í sýndarréttarhöldunum í Moskvu árið 1936 voru Trotskíj og ýmsir bandamenn hans sakaðir um að hafa lagt á ráðin um að myrða Stalín og aðra valdamikla menn í Sovétríkjunum. Þeir voru allir dæmdir til dauða.

 

Trotskíj hafði verið á flakki frá 1929 þegar hann var gerður brottrækur frá Sovétríkjunum. Fyrst bjó hann í Tyrklandi, svo í Frakklandi og loks í Noregi. Þar lenti hann fljótlega í stofufangelsi, líklega vegna þrýstings frá sovéskum stjórnvöldum. Árið 1937 flutti hann svo til Mexíkó, ásamt Nataliu Sedovu, eiginkonu sinni.

 

Einn þeirra er hafði hvatt Lázaro Cárdenas forseta til að veita Trotskíj hæli var hinn frægi myndlistarmaður Diego Rivera. Kona hans var ekki síður fræg, því hún var engin önnur en myndlistarkonan Frida Kahlo. Þessi tvö tóku á móti Trotskíjs og konu hans og bjuggu sovésku aðkomumennirnir fyrst um sinn á heimili þeirra.

 

Vídjó

 

Orðrómur um ástarsamband

Stefán Svavarsson skrifaði skemmtilega grein um slóðir Trotskíjs í Mexíkó sem birtist í Lesbók Morgunblaðsins árið 2005. Hér eru nokkrar línur úr henni:

 

„Cárdenas forseti hafði sent einkalestarvagn sinn eftir honum til að flytja til Mexíkóborgar, en eftir að hafa fengið kaldar kveðjur í Noregi treysti Trotskí sér ekki til að ganga frá borði af ótta við að brögð væru í tafli og að setið væri um líf hans.

 

Á endanum gekk Frida Kahlo sjálf um borð og fullvissaði Trotskí-hjónin um að öllu væri óhætt. Til er fræg mynd þegar þau ganga öll frá borði, Leo, Natalia og Frida, og birtist hún meðal annars í dagblöðum hér á landi sem fylgdust nokkuð vel með gangi mála.

 

Frida Kahlo á milli Trotskíj-hjónanna Nataliu og Leo.

 

Settust Trotskí-hjónin að í Coyoacan og bjuggu um tíma í Bláa húsinu ásamt Kahlo og Rivera. Trotskí-hjónunum leið fyrst um sinn vel í sambúðinni með Kahlo og Rivera, enda höfðu þau um alllangt skeið verið á flækingi milli landa og höfðu hvergi verið velkomin.

 

Áður en langt um leið fór þó á kreik orðrómur um að Frida Kahlo og Leo Trotskí ættu í ástarsambandi og Trotskí-hjónin fluttu fljótlega úr Bláa húsinu. Ekki er þó talið að það hafi endilega verið vegna hins meinta ástarsambands sem Trotskí flutti í burtu því líklega hefur kastast í kekki á milli Rivera og Trotskís af öðrum ástæðum.

 

Rivera og Kahlo fóru í auknum mæli að snúast að stalínisma á þessum tíma, þótt Frida ætti eftir að afneita Stalín síðar, og var Rivera að einangrast í kommúnistaflokki Mexíkó vegna þess að hann hafði erkióvin Stalíns, sjálfan Trotskí, á heimili sínu. Í ofanálag var beinlínis hættulegt að hafa Trotskí sem gest á heimili sínu vegna þess hversu mikið var sótt að lífi hans.

 

Sífelld ógn stóð af því að sovéskur útsendari gæti reynt að ráða Trotskí af dögum enda krumla Stalíns bæði löng og ófyrirleitin.“

 

Gerðist kanínubóndi

Lemúrinn fjallaði um daginn um magnaðar ljósmyndir í lit sem Alexander Buchman, lífvörður Trotskíjs, tók í Mexíkó veturinn 1939-1940. Byltingarmaðurinn var þá á sínu síð­asta æviári, sex­tugur og þreyttur á höml­unum og örygg­is­ráð­stöf­unum sem fylgdu útlaga­líf­inu. Myndir Buchman sýna Trotskíj sinna áhuga­málum sínum — hann hafði áhuga á hvers­konar veiðum og í Mexíkó fékk hann líf­verði sína með sér út í nátt­úr­una að „veiða“ risa­stóra kaktusa sem þeir grófu upp, fóru með heim og komu fyrir í garð­inum. Í garð­inum hélt hann líka kan­ínur sem hann gaf sam­visku­sam­lega að borða tvisvar á dag.

 

En Léon Trotskíj lést í ágúst 1940 eftir að flugumaður Stalíns, spænski kommúnistinn Ramón Mercader, braust inn til hans og barði með ísöxi.

 

Kanínubóndinn í lit.

 

Lázaro Cárdenas, forseti Mexíkó 1934-1940. Hann veitti Trotskíj hæli.

 

 

 

Heimili Trotskíjs í Coyoacan í útjaðri Mexíkóborgar.

 

Natalia Sedova, kona Trotskíjs, hélt áfram að búa í Mexíkó eftir dauða eiginmannsins. Hér sjáum við mexíkóskt vegabréf hennar.

 

Gröf Trotskíjs í Coyoacan.