Þann 3. júní árið 1989 lést í Teheran Ruhollah Khomeini, ajatolla og æðsti ráðamaður í Íran, byltingarhetja og andlegur leiðtogi milljóna Sjíamúslima. Útför hans fór fram þremur dögum síðar. Sorgin svipti þegna hans ráð og rænu og jarðarförin varð að svo grótesku öngþveiti að hætta varð við í miðjum klíðum.

 

Herþyrla flutti líkið að grafreit í suðurhluta Teheran. Í kæfandi sumarhitanum höfðu að minnsta kosti tvær milljónir syrgjenda safnast saman við grafreitinn. Margir voru frá sér numdir af sorg — fólk grét, hrópaði og húðstrauk sig.

 

Khomeini.

 

Flokkur hermanna bar lík ajatollanns á börum, hulið hvítu líkklæði. Syrgjendur þrýstu sér nær og nær og jafnvel harðskeyttustu írönskum hermönnum tókst ekki að halda aftur að trylltum mannfjöldanum. Líkklæðinu svar svipt af og rifið í tætlur. Fólkið tróð sér enn nær, æst í að fá að snerta og kyssa lífvana, hálfnakinn kropp ajatollanns. Í hamaganginum valt líkið af börunum.

 

Hermenn urðu að skjóta varnarskotum upp í loftið til þess að fá tóm til þess að koma líkinu aftur á börurnar og upp í þyrluna sem flaug á braut að nýju.

 

 

Önnur tilraun var gerð síðar sama dag. Líkinu hafði þá verið komið fyrir í járnkistu, og þegar loks tókst að koma ajatollanum ofan í jörðina var vörugámur settur ofan á gröfina svo lýðurinn tæki ekki upp á að grafa líkið upp.

 

Talið er að að minnsta kosti átta hafi troðist undir og dáið í hamaganginum og tíu þúsund manns slasast.

 

Þessi mynd franska ljósmyndarans Eric Bouvet af syrgjendum í Teheran vann til verðlauna á World Press Photo árið 1989.

 

Syrgjendur umkringja vörugáminn sem settur var ofan á gröf Khomeinis.

 

Að minnsta kosti tvær milljónir Írana fylgdu Khomeini til grafar.

 

Í dag hvílir ajatollann í þessu risavaxna grafhýsi, sem einnig hýsir íslamskan háskóla, verslunarmiðstöð og 20.000 stæða bílastæðahús.