Í 110 ára sögu Nóbelsverðlaunanna hafa bókmenntaverðlaunin aðeins einu sinni verið eitt arabískumælandi höfundi, þrátt fyrir stærð Arabaheimsins og ríka bókmenntahefð. Egyptinn Naguib Mahfouz fékk bókmenntaverðlaunin árið 1988. Mahfouz lést árið 2006 en hefði orðið hundrað ára þann 11. desember í ár.

 

Það kom mörgum á óvart þegar Mahfouz fékk Nóbelsverðlaunin enda var hann þá lítið þekktur á Vesturlöndum. Í íslenskum fjölmiðlum var til dæmis talað um að „huldumaður“ hefði hlotið bókmenntaverðlaunin.

 

Heima í Egyptalandi, og raun í gervöllum Arabaheiminum, var Mahfouz þó alls enginn huldumaður. Hann er oft nefndur faðir arabísku skáldsögunnar — hann var ekki fyrstur til að skrifa skáldsögur á arabíska tungu, en vinsældir bóka hans áttu stóran þátt í þróun og vöxt skáldsagnaformsins í Arabaheiminum, þar sem ljóðlistin hefur ætíð borið höfuð og herðar yfir annan skáldskap.

 

Sænska akademían sagði í rökstuðningi sínum að Mahfouz hefði „í gegnum blæbrigðarík verk skapað arabíska skáldsagnarlist sem viðkemur öllu mannkyni“.

 

Naguib Mahfouz á vinnustofu sinni.

 

Naguib Mahfouz skrifaði einar 50 skáldsögur á löngum ferli, ásamt fjölda smásagna, leikrita og kvikmyndahandrita. Fyrstu bækur hans gerðust í Egyptalandi til forna, en fljótlega snéri hann sér að því að lýsa egypskum samtíma, sérstaklega heimaborg sinni Kairó. Þekktastur er hann fyrir hinn svokallaða Kairó-þríleik sem kom út á árunum 1956-57.

 

Skáldsögurnar þrjár eru skýrðar eftir hverfum í Kairó (titlar þeirra á ensku eru Palace WalkPalace of Desire og Sugar Street) og segja frá þremur kynslóðum egypskrar miðstéttarfjölskyldu í höfuðborginni á fyrri hluta 20. aldar. Í gegnum fjölskylduna lýsir Mahfouz hinum miklu breytingum sem urðu á egypsku samfélagi, menningu og þjóðlífi á þessum umbrotaárum, frá byltingunni gegn Bretum árið 1919 og fram til loka seinni heimsstyrjaldar.

 

Kairó-þríleikurinn.

 

Þríleikurinn naut mikilla vinsælda um allan hinn arabískumælandi heim, en bækurnar urðu einnig umdeildar sökum þess hve opinskátt Mahfouz fjallaði um spillingu og önnur samfélagsmein Egyptalands. Margt af því sem Mahfouz tók sér fyrir hendur varð umdeilt — í síðari verkum fjallaði hann meðal annars um kvenréttindi, valdboðsstefna stjórnvalda og lögregluofbeldi. Hann viðurkenndi sjálfur að alls ekki allar af skáldsögunum hans 50 væru ódauðleg snilldarverk, margar hefði hann einungis skrifað til þess að geta sagt skoðun sína á einhverjum málefnum.

 

Bækur hans voru bannaðar í mörgum Arabalöndum um tíma þegar hann studdi opinberlega friðarsamninga Egyptalands og Ísrael árið 1979, og banninu ekki aflétt fyrr en hann fékk Nóbelsverðlaunin. Bókin Awlad haratna (e. Children of Gebelawi), sem kom út árið 1959, var einnig umdeild. Hún er einskonar endursögn á sögu stóru abrahamísku trúarbragða þriggja í gegnum íbúa hverfis í Kairó, og slíkt féll ekki í kramið hjá bókstafstrúuðum löndum hans.

 

Þegar Mahfouz svo kom kollega sínum Salman Rushdie til varnar eftir að Miðnæturbörn hans olli fjaðrafoki meðal múslima var það kornið sem fyllti mælinn — ungur bókstafstrúarmaður reyndi að ráða hinn 83 ára gamla Mahfouz af dögum árið 1994. Mahfouz lifði árásina af en slaðist alvarlega og gat lítið skrifað síðustu 12 ár ævinnar.

 

Úti á götu í Kairó.

Viðtal við Naguib Mahfouz eftir Oddnýju Sv. Björgvins birtist í Lesbók Morgunblaðsins þann 22. október 1989: „Mannlíf á Íslandi er mér ekki óviðkomandi, alvegs eins og líf hér í Egyptalandi er þér ekki óviðkomandi. Við erum öll eitt á þessari jörð.“

 

Aldarafmælisins hefur verið minnst með ýmsum hætti víða um hinn arabísku mælandi heim undanfarið ár. Bókaforlagið AUC Press í Kairó setti saman þessa stuttu heimildamynd um rithöfundinn:

Vídjó