Risaskjaldbakan Jónatan, til vinstri, sést hér á ljósmynd frá 1886. Þá var hann 54 ára gamall og var tiltölulega nýfluttur til núverandi heimkynna sinna á eyjunni St. Helenu, sem er eldfjallaeyja undir breskum yfirráðum í miðju Suður-Atlantshafinu.

Jónatan er fæddur árið 1832 á Seychelles, eyjaklasa sem liggur á Indlandshafi, hinum megin við Afríku. Hann var gjöf til ríkisstjórans á St. Helenu og hefur búið á landareign hans síðan við hið svokallaða Plantation House. Hann er af tegund Seychelles-risaskjaldbaka (Aldabrachelys gigantea hololissa).

Jónatan er elsta lifandi landdýr jarðar.

St. Helena er líklega frægust fyrir að hafa verið prísund Napóleons Bónaparte þegar hann var sendur þangað í hinstu útlegð sína árið 1815. Hann lést á eyjunni 1821, ellefu árum áður en Jónatan kom í heiminn.

Napóleon á St. Helenu. Vatnslitaverk eftir Franz Josef Sandmann.

Fjölmiðlar víða um heim birtu ljósmyndina fyrir ofan fyrir nokkrum árum en þá var talið að hún væri frá 1902, en nú hefur komið í ljós að hún var tekin mun fyrr, eins og áður segir.

Reglulega berast fréttir af Jónatan. Til dæmis sagði Morgunblaðið frá fyrsta baði hans fyrir nokkrum árum. Hann er orðinn 187 ára og nokkuð hrumur. Elsta skjaldbaka sem sögur fara af er Tu’i Malila, frá Tonga, sem drapst 188 ára árið 1965.

Jónatan, til vinstri og vinur hans, Davíð.
Jónatan.

Vídjó