Elijah Petzold lærði íslensku í Háskóla Íslands fyrir nokkrum árum. Þegar hann kom heim til Los Angeles skoðaði hann gamla ljósmynd sem móðir hans keypti á bílskúrssölu fyrir 30 árum síðan.

Mömmu hans fannst myndin áhugaverð en skildi ekki áletrunina sem fylgdi.

En eftir dvölina á Íslandi átti Elijah ekki í vandræðum með textann:

Íslendinga dagur — Sycamore Grove Aug 4, 1929

Elijah skoðaði gömul blöð á timarit.is og las um Íslendingadaginn 1929 í borginni. Í ljós kom að sjálfur Halldór Kiljan Laxness var viðstaddur daginn og hélt ræðu. Og við nánari skoðun sá hann líka að Halldór situr fremst á myndinni.

„Móðir mín keypti myndina á bílskúrssölu í Los Angeles áður en ég fæddist, en hún geymdi hana í kassa í mörg ár. Hún vissi ekki hvað textinn þýddi,“ skrifar Elijah Petzold í tölvupósti til Lemúrsins.

„Henni fannst myndin bara áhugaverð og einstök. Við erum ekki Íslendingar, en lengi hafði ég áhuga á íslenskum bókmenntum: ég lærði smá íslensku í HÍ sem Fulbright-styrkþegi. Þess vegna skildi ég textann strax þá er ég sá myndina. Það eru svo margar tilviljanir hér og uppgötvanir: Að móðir mín keypti myndina að gamni fyrir 30 árum síðan. Að ég hafi endað með því að læra íslensku og gat fundið út hver atburðurinn var. Að forvitni mín um atburðinn leiddi til að ég uppgötvaði að Halldór Laxness var viðstaddur og er þarna á myndinni!“

„Sem borinn og barnfæddur Angeleno og Íslandsáhugamaður um langt skeið, fannst mér áhugavert að vita að Halldór var hér í langan tíma. Ég vissi heldur ekki að svona margir Íslendingar hefðu verið í Kaliforníu á þriðja áratugnum (ég held reyndar að fólk hafi komið frá allri vesturströnd Bandaríkjanna til að vera viðstatt),“ skrifar Elijah.

Mynd: Elijah Petzold.

Halldór Laxness dvaldi í Los Angeles á þessum árum, lengst 1927 til 1928 og freistaði þess að starfa í kvikmyndaiðnaðinum í Hollywood. Hann skrifaði meðal annars frumdrög Sölku Völku í formi kvikmyndahandrits.

„Allir dagar hafa sína sögu, og 4. ágúst hefir þá sögu, að Íslendingar hér í Californíu komu saman í einu skógarrjóðri, að Sycamore Grove, Pasadena Ave., Los Angeles, Calif., til að hafa Íslendingadag,“ skrifaði Lögberg. Og hitt vesturíslenska blaðið Heimskringla skrifaði eftirfarandi: