Fáir þekkja Momofuku Ando, þrátt fyrir að hann hafi líklega haft meiri áhrif en nokkur annar maður á matarvenjur ungs fólks um allan heim. Momofuku Ando er nefnilega maðurinn sem fann upp „instant-núðlur“ sem við á Íslandi þekkjum sennilega best sem „núðlusúpu“.

 

Momofuku Ando var fæddur árið 1910 í Tævan, sem var þá undir yfirráðum Japana. Hann fluttist ungur að árum til Japan og freistaði þess að margfalda mikinn fjölskylduauð sem viðskiptamaður. Það fór ekki vel. Hann fór á hausinn og var dæmdur í tveggja ára fangelsi fyrir skattsvik árið 1948.

 

Ando var hins vegar ekki tilbúinn til að gefast upp. Á eftirstríðsárunum var mikill matarskortur í Japan og þurftu íbúar landsins að reiða sig á matargjafir frá Bandaríkjunum. Matargjafirnar byggðust mikið á brauðmeti og Ando gat alls ekki skilið hvers vegna Japanir ættu að gjörbreyta matarvenjum sínum – og það fyrir þjóðina sem varpaði á þá sprengjunum miklu.

 

Honum fannst einnig ljóst, að matvælaframleiðsla í Japan myndi aldrei ná jafnvægi á meðan allur matur kæmi að utan. Ando vann því mikið hugsjónastarf og lagði nótt við nýtan dag í rannsóknir og tilraunastarfsemi með núðlur.

 

Það var ekki fyrr en árið 1971, þegar Ando var 61 árs, að hann varð loksins ánægður með útkomuna. Stofnað var fyrirtæki fyrir þessa nýju tegund af núðlum, Nissin Food Products, og eru vörur fyrirtækisins vinsælar í Japan enn þann dag í dag.

„Nei, ég hef aldrei borðað instant-núðlur.“ Sagði enginn. Aldrei.

 

En núðlurnar slógu vitanlega ekki aðeins í gegn í Japan, heldur um heim allan. Þeir eru vafalaust ófáir sem hafa náð að draga fram lífið á núðlusúpum svo vikum skipti, og eiga þeir Ando mikið að þakka.

 

Markmið Ando með núðlutilraunum sínum var enda ætíð að búa til mat sem allir gætu borðað – hvar sem er í heiminum. Hans markmið var að enginn í heiminum þyrfti að fara svangur að sofa. Sannarlega göfugt markmið.

 

Arfleifð Momofuku Ando er svo mikil að stofnað var safn honum til heiðurs, Momofuku Ando Instant Ramen Museum, en það má finna í borginni Osaka í Japan.

 

Momofuku Ando lést árið 2007, en þá var hann orðinn 96 ára gamall. Sagði hann ætíð að það væru núðlurnar sem hefðu tryggt honum þennan háa aldur en að sögn kunnugra borðaði Ando núðlusúpur á hverjum einasta degi allt til hinstu stundar.

 

Hér má síðan sjá stutta heimildamynd um hvernig instant-núðlur verða til. Tónlistin er mögnuð, og sögumaðurinn ekki síðri!

 

Vídjó