Fyrrverandi forseti Úrúgvæ drap í ellinni ungan stjórnmálaandstæðing í einvígi á fótboltavelli árið 1920. Löngu síðar hittust barnabörn þeirra í grillveislu.

 

Á fyrstu áratugum nýliðinnar aldar gekk litla suður-ameríska ríkið Úrúgvæ í gegnum miklar breytingar. Um aldamótin blasti þjóðargjaldþrot við landinu þegar borga þurfti af gríðarlega hárri erlendri skuld. Árið 1903 var ritstjórinn, José Batlle y Ordoñez, kjörinn forseti og náði hann að greiða úr mörgum vandamálum landsins. Hann er á myndinni fyrir ofan.

 

Í bók Sigurðar Hjartarsonar, Þættir úr sögu Rómönsku Ameríku, segir: „Batlle y Ordoñez hefur haft meiri áhrif á hugsanagang og pólítíska stefnumótun þjóðar sinnar en nokkur annar maður.“ Hann var forseti á árunum 1903 til 1907 og aftur 1911 til 1915 og þótti hafa tekist vel að nútímavæða landið sitt. Batlle y Ordoñez, sem var sjálfur forsetasonur og af frægri ætt stjórnmálamanna, var meðlimur í Rauðaflokknum sem var mjög valdamikill alla tuttugustu öldina og barðist við hina valdablokk landsins, Hvítaflokkinn.

 

José Batlle y Ordoñez var gífurlega áhrifamikill maður í úrúgvæsku samfélagi árin eftir valdatíð sína sem forseti og hélt áfram að skrifa um þjóðfélagsmál í dagblað sitt, El Día. Hann var orðhvass maður en lipur penni og hafði skoðun á öllum hliðum samfélagsins. Batlle y Ordoñez heillaðist af knattspyrnuíþróttinni en á þessum árum bjó Úrúgvæ yfir einu sterkasta fótboltaliði heims. Eitt sinn leiddist honum þó á leiðinlegum leik á vellinum í Montevídeó og sagði: „Væri ekki undursamlegt ef áhorfendurnir væru 22 og leikmennirnir 10.000?“

 

Árið 1920 skrifaði Washington Beltrán Barbat, 35 ára gamall blaðamaður og þingmaður Hvítaflokksins, harðorða grein í dagblaðið El País um arfleifð forsetans fyrrverandi. José Batlle y Ordoñez, sem var orðinn 64 ára og nokkuð uppstökkur, jafnvel farinn að kalka, brást ókvæða við og sakaði unga manninn um meiðyrði og skoraði hann á hólm.

 

Einvígi voru algeng á átjándu og nítjándu öld í Suður-Ameríku, líkt og víðast hvar í heiminum. En þau þekktust varla á þeirri tuttugustu og voru bönnuð í mörgum löndum. En af einhverjum ástæðum voru einvígi enn leyfileg í Úrúgvæ árið 1920 og í raun ekkert sem gat komið í veg fyrir að þau færu fram þótt margir fylltust líklega óhug.

 

Washington Beltrán.

Hinn efnilegi Washington Beltrán.

 

Washington Beltrán Barbat virtist hvergi banginn og samþykkti að mæta José Batlle y Ordoñez, fyrrverandi forseta lýðveldisins, í byssueinvígi fyrir framan áhorfendaskara daginn eftir. Ákveðið var að einvígið færi fram á stærsta knattspyrnuvelli Úrúgvæ, Estadio Gran Parque Central, en á þeim velli var spilaður fyrsti leikurinn í fyrstu heimsmeistarakeppni sögunnar í fótbolta, tíu árum síðar, árið 1930.

 

Estadio Parque Central.

Fótboltavöllurinn þar sem einvígið fór fram og einnig HM í fótbolta tíu árum síðar.

 

Rétt fyrir hádegi daginn eftir, á föstudaginn langa 1920, mættu Washington Beltrán Barbat og José Batlle y Ordoñez til leiks, hvor umkringdur sínum bandamönnum og aðdáendum. Áhorfendur voru líklega um 20.000 talsins. Hvítaflokksmenn og rauðaflokksmenn sátu í sitthvorri stúkunni og biðu einvígisins í ofvæni.

 

Það rigndi eins og hellt væri úr fötu þennan dag og voru hólmgöngumennirnir holdvotir þegar þeir stóðu andspænis hvor öðrum. Læknar stóðu á hliðarlínunni. Einvígið hófst og skutu báðir fram hjá í fyrstu umferð og hlóðu byssurnar að nýju. Í það skiptið skaut Batlle y Ordoñez í brjóstið á Washington Beltrán sem hrópaði: „Ég er særður!“ og lést örskömmu síðar.

 

Bandamenn fyrrverandi forsetans gamla ærðust af fögnuði og hrópuðu hvatningsorð til hans á meðan flokksbræður, vinir og vandamenn hins látna báru hann á líkbörum út af leikvanginum, flestir vitstola af sorg. Víst þótti að hinn 35 ára gamli Washington Beltrán Barbat var ein helsta vonarstjarna úrúgvæskra stjórnmála og þótti missirinn mikill.

 

Jarðarförin.

Þúsundir manna fylgdu Washington Beltrán til grafar.

 

 

Árið 2008, á níutíu ára afmæli El País, dagblaðs Washingtons Beltrán, skrifaði Antonio Mercader grein um einvígið fræga en hann er fyrrverandi menntamálaráðherra í Úrúgvæ. Þar ritar hann um persónulega minningu sem tengist einvíginu.

 

José Batlle Cherviere, barnabarn José Batlle y Ordoñez, bauð Mercader í veislu á sveitabýli fyrir um fjörutíu árum síðan. Veislugestir voru ýmsir ungir menn sem þá fetuðu fyrstu skrefin í valdastiga úrúgvæskra stjórnmála og voru pólítískir andstæðingar þar á meðal. Og svo ótrúlega vildi til að einn veislugesta var enginn annar en Washington Beltrán Storace, blaðamaður og barnabarn Washington Beltrán!

 

Þegar leið á kvöldið og gestirnir voru orðnir örlítið hífaðir stóðst José Batlle Cherviere ekki lengur mátið og spurði Washington Beltrán Storace: „Viltu sjá byssuna sem afi minn drap afa þinn með?“