Í dag eru 40 ár síðan herforingjastjórn Augustos Pinochets rændu völdum í Chile, þann 11. september árið 1973. Á dramatískan hátt var lýðræðislegri ríkisstjórn Salvador Allende steypt af stóli og lauk þar með 48 ára lýðræðistímabili í sögu Chile.

 

Á sama tíma og sprengjum rigndi yfir forsetahöllina La Moneda í Santiago, flutti Allende síðasta ávarp sitt til chílesku þjóðarinnar.

 

Alþýða lands míns, hafið trú á Chile og örlögum þess. Aðrir menn munu yfirstíga hina dimmu og sáru stund þar sem landráð urðu allsráðandi. Hafið í huga, að mun fyrr en seinna, verða breiðgöturnar opnar á ný og um þær mun frjálst fólk fara til að byggja upp betra samfélag. Lengi lifi Chile! Lengi lifi þjóðin! Lengi lifi alþýðan!

 

Skömmu síðar hafði her Pinochets náð höllinni á sitt vald og Allende ákvað að binda endi á líf sitt (þó margir vilja meina að hann hafi verið myrtur).

 

Salvador Allende. Forseti Síle, 1970-1973.

Salvador Allende. Forseti Chile, 1970-1973.

 

Annar merkur maður í Chile hlaut jafnvel enn grimmilegri örlög. Þjóðlagasöngvarinn og baráttumaðurinn Victor Jara hafði samið lög um félagslegt réttlæti, um baráttu verkafólksins, um ástir og örlög fólksins í landinu. Hann var þjóðhetja sem hvikaði aldrei í baráttunni fyrir réttlæti og betri heim.

 

Þann 12. september var hann handtekinn og fluttur ásamt fjölda pólitískra fanga á Estadio Chile, íþróttaleikvang í Santiago. Þar var hann pyntaður, laminn og niðurlægður. Hermönnum Pinochets hafði verið skipað að gera hann að fordæmi. Svona færi fyrir þeim sem væru á móti herstjórninni.

 

Hvert einasta bein í báðum höndum Jara var brotið í miðjum leikvanginum, á meðan aðrir fangar horfðu á í stúkunni. Hermennirnir sem framkvæmdu þessar hörmungar ætluðu þar með að gera niðurlægingu söngvarans algjöra: „Reyndu að spila á gítarinn þinn núna,“ sögðu þeir og glottu við tönn.

 

Jara svaraði þeim með því að syngja ómfagri röddu, sönginn Venceremos (Við munum sigra), einkennislag vinstri flokkana í Chile. Eftir þjáningar dagsins var Jara fluttur niður í búningsklefa á leikvangnum, sem var orðinn að risavöxnum pólitískum fangabúðum. Þar söng Jara ljóð sitt Manifesto, til að blása föngunum kjark í brjóst.

 

Vídjó

 

Hér má sjá ljóðið í íslenskri þýðingu Ingólfs Margeirssonar:

MANIFIESTO
(Stefnuyfirlýsing)

Ég syng ekki vegna söngsins eins
né til að stæra mig af rödd minni
Ég syng vegna sannleikans
sem hljómar úr gítar mínum
Því hjarta hans er jörðin
og hann hefur sig til flugs líkt og dúfa,
mjúkt eins og heilagt vígsluvatn,
og leggur blessun sína yfir
hugrakka og deyjandi
Þannig hefur söngur minn öðlast þýðingu,
eins og Violetta Parra mundi segja.
Já, gítarinn minn er vinnandi afl
sem ljómar og ilmar af vori
Hann er ekki gerður fyrir morðingja,
fégráðuga og valdasjúka,
heldur fyrir hið vinnandi fólk
sem leggur hornstein að blómstrandi framtíð.
Því aðeins öðlast söngur þýðingu
þegar þung hjartaslög hans
eru sungin ósvikul af deyjandi manni.
Ég syng ekki til að hljóta gullhamra né
smjaður
eða til að fólk brynni músum
Ég syng fyrir fjarlæga landræmu,
mjóa, en óendanlega djúpa.

 

Eftir stöðugar pyntingar, þar sem rifbein Jara voru brotin, neglurnar rifnar af fingrum hans og öll bein brotin í höndum skáldsins var honum hent á miðjan leikvanginn þar sem hann var skotinn niður með hríðskotabyssu. Líki hans var hent á miðja götu í fátækrahverfi í úthverfi Santiago. Kona hans, Joan Jara, fékk að sækja líkið og jarða eiginmann sinn. Hann var með 42 skotsár á líkama sínum.

 

Ef þessi dauðdagi er ekki nægilega hetjulegur, þá má bæta því við að þessa síðustu fjóra daga sína í þessum heimi – náði Victor Jara að semja og syngja sitt síðasta ljóð. Ljóðið varðveittist á pappírssnifsum sem söngvaskáldið skrifaði á eftir pyntingar hvers dags. Vini hans tókst að fela þessi pappírssnifsi í skónum sínum, og færði Joan Jara þau eftir að hann slapp úr prísundinni í Estadio Chile. Aðrir fangar sem dúsuðu á leikvangnum kunnu ljóðið þá þegar að utan að eftir að hafa heyrt Jara syngja það. Mikið segir það afskaplega mikið.

 

Ljóðið fékk ekki nafn frá Jara svo vitað sé, og gengur í dag undir nafninu Estadio Chile – síðasta áfangastaðar Victors Jara í þessu jarðlífi. Ingólfur Margeirsson þýddi einnig þennan svanasöng.

 

Við  erum fimmþúsund talsins

í þessum borgarhluta

Fimmþúsund

Hve mörg skyldum við vera

í öllum borgum og öllu landinu?

Bara hér eru tíuþúsund hendur

sem sá fræjum

og halda verksmiðjum gangandi

Hversu margar manneskjur

standa óvarðar

gegn hungri, kulda, hræðslu, sársauka,

andlegri þvingun, hermdarverkum og brjálæði!

Sex okkar hurfu

líkt og inní

stirndan nátthiminn

Einn látinn

annar barinn og misþyrmt

á þann hátt

sem ég aldrei hefði getað trúað

að hægt væri að misþyrma einni manneskju

Hinir fjórir

reyndu að binda endi á skelfingu sína

einn kastaði sér út í Eilífðina

annar barði höfði sínu í vegginn

En allir báru þeir frosna grímu dauðans

Þvílíka ógn og þvílíka skelfingu

vekur ekki andlit fasismans!

Þeir framkvæma áætlanir sínar með hárbeittri nákvæmni

Ekkert skiptir þá máli

Fyrir þá er blóð heiðursmerki

slátrun hetjudáð

ó, Guð minn

er þetta heimurinn, sem þú skópst?

Afrek og kraftaverk sjö daga — — —

Innan þessara veggja

hrærast sálir

sviptar nafni, verðleika og þroska

sálir,

sem smám saman þrá dauðann meir og meir

En skyndilega vaknar meðvitund mín

og ég skynja þessa hjartlausu flóðöldu

heyri púls hervélanna

og sé hermennina sýna bros sín

líkt og blíðar yfirsetukonur

Lát Kúbu, Mexíkó og rödd gjörvallrar heimsbyggðar

hrópa gegn þessum grimmdarverkum!

Við erum tíuþúsund hendur

ómegnugar framleiðslu

Hve margir okkar í öllu landinu?

Blóð félaga okkar Allende

mun vega þyngra

en sprengjur og vélbyssur!

Þannig mun hnefi okkar endurgjalda höggin!

Hve erfitt það er að syngja

þegar ég verð að syngja um skelfinguna

skelfingu þess sem ég lifi

skelfingu þá sem ég mun deyja í

Að sjá sjálfan mig

meðal svo margs

að finna

svo mörg augnablik eilífðarinnar

þar sem hróp og þögn

eru endalok söngs míns

 

Það sem ég sé

hef ég aldrei áður séð

það sem ég hef upplifað

og það sem ég upplifi nú

mun ala af sér þá stund…

 

victor jara

Victor Jara, fæddur 28. september 1932 – dáinn 16. september 1973.