Árið 1916 gaf Íþróttasamband Íslands út yfirgripsmikla kennslubók um þjóðaríþróttina glímu. 36 ljósmyndir fylgdu af hinum ýmsu glímubrögðum. En ljósmyndari var Ólafur Magnússon. Hægt er að lesa bókina í heild sinni hér neðst í greininni.

 

Vertu prúður. Taktu þétt og hlýlega í hönd keppinaut þínum. Vertu rólegur. Vertu var um þig, en glímdu vel. Gættu þín fyrir hverju viðbragði. Vertu vakandi. Gerðu þér far um að láta ekki sigur þinn eða ósigur í glímu hafa áhrif á vináttu þína eða viðkynningu við keppinaut þinn.

 

 

 

 

Í bókinni var einnig rýnt í sögu íþróttarinnar, sem mun vera nokkurn veginn jafnlöng landnáminu. Hér er til dæmis leitað í Grettissögu sterka:

 

„Í frásögn Grettis sögu um glímurnar á Hegranessþingi (um 1030), er það merkilegt atriði, hvernig Grettir býst til glímunnar. Eftir að griðum er lýst „kastaði hann kuflinum, ok því næst öllum bolklæðum“. Og er héraðsmenn kenna hann og þóttust ósvinni orðnir, mælti Grettir: „Geirt greiðlegt hvat yðr býr í skapi; því at eigi sit ek lengi klæðlauss“.

 

Það er auðsætt, að Grettir gengur til glímunnar nakinn að beltisstað, og má af því marka, að hér sé alls ekki um hryggspennu að ræða, heldur eiginlega glímu, og að tökin hafi verið í brækurnar. Það er og beinlínist sagt, að Grettir tók í brækur Þórðar, þótt eigi séu það regluleg glímutök.

 

En þar er bæði að glíman snýst upp í áflog, er tveir fást við einn, og að frásögnin miðar að því, að sýna sem bezt afl Grettis og yfirburði.“