Þessi óhugnanlega ljósmynd var tekin árið 1937 af rússneska ljósmyndaranum Viktori Búlla og ber nafnið „Brautryðjendur í varnaræfingum í Leníngrad“. Myndin er í áróðursanda en virðist þó ekki vera þvinguð fram – í henni er sérstakt andrúmsloft, sorglegt og draumkennt, óþægilegt og hrollvekjandi.

 

Ljósmyndinni var þó ekki ætlað að vera nein hryllingsmynd né óður til sakleysis og stríðshörmunga.

 

Hún átti að sýna hversu Sovétríkin væru vel búin af þrautþjálfuðum, hugrökkum og vel útbúnum börnum. Að minnsta kosti var það opinbera skýringin. Viktor Búlla (1883-1938) var einn af helstu brautryðjendum rússneskrar ljósmyndunar og merkilegur listamaður.

 

Á ljósmyndinni sjást íbúar Leníngrad, börn og unglingar, á æfingu þar sem gasgrímur eru prófaðar. Ári eftir myndatökuna var Viktor Búlla handtekinn af stjórnvöldum og sendur í vinnubúðir til Síberíu fyrir óuppgefnar sakir og lést í þeim árið 1944. Börnin á myndinni upplifðu gríðarlegar hörmungar.

 

Hreinsanir Stalíns voru hafnar í Leníngrad á þessum tíma. En það var rétt upphafið að óhamingjunni því Leníngrad lenti í skelfilegu umsátri Þjóðverja í nær 900 daga árin 1941-44 þar sem rúm milljón almennra borgara lét lífið í hungursneyð og sprengjuregni. Því má velta fyrir sér hvort margir þeirra sem sjást á myndinni í varnaræfingu nokkrum árum áður hafi lifað umsátrið af.

 

Faðir Viktors var Karl Búlla sem oft er nefndur faðir fréttaljósmyndunar í Rússlandi. Viktor tók um ævina ljósmyndir af stríði Rússa við Japana í Mansjúríu árin 1904-05, lífinu í St. Pétursborg (Leníngrad) og af sjálfri októberuppreisninni og valdatöku bolsévika.

 

Um stríðið við Japana sagði Viktor: „Ég var vitni að öllum hryllingi þessa ömurlega stríðs, hinni algeru, epísku eyðileggingu rússneska hersins, hernaðarlegum ósigrum hans og undanhaldi sem var martröð líkast.“

 

Árið 1908 var Búlla-feðgum boðið í áttræðisafmæli rithöfundarins Leós Tolstoj. Þar tóku Viktor og Karl frægar myndir af gamla manninum. Á einni þeirra stendur Karl með Tolstoj á veröndinni fyrir framan húsið hans.

 

Búlla-feðgar tóku myndir af mörgum frægustu mönnum Rússlands og síðar Sovétríkjanna. Þeir mynduðu til dæmis Raspútín og eru þær ljósmyndir á meðal þeirra frægustu af þeim sérstæða manni.

 

Þeir tóku einnig upp kvikmyndir og voru með þeim fyrstu í Rússlandi sem það gerðu. Viktor Búlla fór árið 1909 til Parísar og kynnti sér kvikmyndatæknina.

 

Viktor gaf árið 1935 sovéskum yfirvöldum allar filmur Búlla-fjölskyldunnar en það munu hafa verið um 130.000 ljósmyndir sem teknir höfðu verið á fimmtíu ára tímabili. Það mikla safn mun enn þá vera til í skjalasöfnum.

 

Munu myndirnar vera ómetanlegar minjar um lífið í Rússlandi á tímabilinu. Ein óvæntasta myndaröðin úr safni Karls Búlla er ljósmynduð í veislu samkynhneigðra á keisaratímanum. Ljósmyndir Búlla-feðga eru lítið brot af þeim aragrúa sögulegra minja sem hvíla á hinum gríðarstóru skjalasöfnum Sovétríkjanna.

 

Lenin's_half_face

Lenín.

rasputin

Ein frægasta myndin af kuklaranum Raspútin.

Tolstoy

Tolstoj.

tumblr_lrsn1dr1kE1r3sn0vo1_500

Raspútin með háttsettum embættismönnum.

Karl Bulla með Tolstoj.

Karl Bulla með Tolstoj.