Í bókinni „Núlifandi kynþættir mannkyns: Myndskreyttar lýsingar á siðum, venjum, iðjum, veislum og athöfnum kynþátta mannkyns um heiminn allan“, eftir Henry Neville Hutchinson, John Walter Gregory og Richard Lydekker (England, 1902), má finna eftirfarandi lýsingu á íslenska kynstofninum:

 

Íbúar Íslands eru Skandinavar, afkomendur Norðmanna sem lögðu eyjuna undir sig á fyrri hluta 10. aldar. Þeir tilheyra því germönsku ætt kákasusstofnsins, og eru hreinræktaðasta dæmið um hana. Tunga þeirra er forneskjulegri heldur en önnur germönsk samtímamál, og hefur lítið breyst frá tíma norrænu landnámsmannana.

 

„Núlifandi kynþættir mannkyns: Myndskreyttar lýsingar á siðum, venjum, iðjum, veislum og athöfnum kynþátta mannkyns um heiminn allan“, eftir Henry Neville Hutchinson, John Walter Gregory og Richard Lydekker (1902)

Það er nokkuð erfitt að lýsa Íslendingnum réttilega. Í líkamsgerð stenst hann illa samanburð við skandinavíska bræður sína. Andlitið er kringlótt eða ferkantað fremur en ílangt; ennið gjarnan hátt; kinnbeinin standa út en kinnarnar eru innfallnar. Helstu einkenni Íslendingsins eru ef til vill augun, en þau eru nær alltaf hörð, köld og sviplaus. Hvasst augnaráðið hefur valdið því að konurnar eru yfirleitt sagðar ófríðar.

 

Augnliturinn er ljósgrár eða ljósblár, sjaldan brúnn, og aldrei svartur. Hörundslitur unga fólksins er ferskur og hvítbleikur. Hárið er sjaldan dökkt, en sýnir hin ýmsu blæbrigði og fer frá því að vera rautt yfir í að vera fölljóst. Íslendingar eru með þéttbyggða, klunnalega líkama sem virðast of langir og þungir fyrir leggina, en þeir eru stuttir og sterkbyggðir, og fæturnir stórir og flatir. Sporin eru þunglamaleg og göngulagið klaufalegt, þótt ungu konurnar séu vissulega nógu léttar á fæti og þokkafullar.

 

Fólkið er hlédrægt og virðulegt í framkomu sinni hvort við annað, sem og við ókunna, en ólíkt sumum fljótfærnum ferðamönnum getum vér ekki fallist á að Íslendingar séu þungir í lund. Hversu fjarlægir sem þeir kunna að virðast í útliti, eru þeir að skapgerð bæði hressir og lifandi, framkoma þeirra hreinskilin og ólærð, þótt þeir sýni hins vegar oft óhóflega mikið sjálfsálit. Beinskeytni þeirra við að gagnrýna og gera grín að veikleikum annara hefur skapað þeim það orðspor að þeir séu ruddalegir og illa innrættir.

 

Þeir búa yfir mikilli greind, og eru auk þess skarpskyggnir og klókir. Þeir eru unnendur frelsis, gestrisnir og heiðarlegir, og lausir við flesta lesti, að drykkju undanskilinni, en það er hin mikla bölvun landsmanna. Á afskekktri heimaeyju sinni hafa þeir haldið fast í hefðir og forna siði, og sýna á þennan hátt íhaldssemi sambærilega við Hindúa. Íslendingar hafa margir hverjir flutt af landi brott á seinni árum, og krafturinn, dugnaðurinn og hugvitssemin sem þeir sýna í amerískum borgum og á öðrum stöðum er þeim til framdráttar.

 

Karlmennirnir klæðast knébuxum, jökkum, og vestum úr sterku efni sem skreytt er fjórum til sex röðum af skínandi málmknöppum. Sjómennirnir klæðast vaðmáli, grófgerðum frökkum og yfirhöfnum úr sauðskinni eða leðri, sem gerðar eru vatnsheldar með fitu eða lýsi. Það er ekkert sérstaklega athugavert við klæðnað kvennanna.

 

Mataræði Íslendingsins, nú sem áður, samanstendur mestmegnis af fiski. Á sumrin borðar hann soðin þorskhöfuð; á veturna sauðshöfuð í edik, súrmjólk, eða berjasafa. Hveitibrauð er einungis borið fram á hátíðardögum; hið daglega brauð er rúgbrauð, unnið úr dökku rúghveiti sem er að mestu flutt inn frá Kaupmannahöfn og verkað í breiðar, þunnar kökur.

 

„Íslensk kona“