Freiburg im Breisgau er 230 þúsund manna borg í Baden-Würthemberg í suðvesturhluta Þýskalands. Borgin er umkringd hlíðum Svartaskógar sem gerir hana einstaklega skjólríka og veðursæla.

 

Borgin er líklega þekktust fyrir háskólann sinn, Albert-Ludwigs-Universität, en við skólann hafa 19 Nóbelsverðlaunahafar numið eða starfað. Það var einmitt í Freiburg sem Hannah Arendt átti í ástarsambandi við nasistann Martin Heidegger, Konrad Adenauer lærði lögfræði og Max Weber horfði á neglur sínar vaxa.

 

Á undanförnum áratugum hefur Freiburg einnig komist á kortið fyrir grænar áherslur í borgarskipulagi sínu. Það vakti auðvitað mikla athygli árið 2002 þegar Dr. Dieter Salomon var kosinn borgarstjóri Freiburgar, og það með yfirburðum, en hann er fyrsti meðlimur Græningja sem varð borgarstjóri í borg sem telur fleiri en 100 þúsund íbúa í Þýskalandi.

 

Freiburg er ekki bara „græn.“ Hún er líka mjög græn.

Freiburg er ekki bara „græn.“ Hún er líka mjög græn.

 

Salomon tók auðvitað við góðu búi. Almenningssamgöngur í Freiburg eru með besta móti, þar ganga bæði sporvagnar og strætisvagnar, auk þess sem auðvelt er að hjóla með vel merktum hjólastígum um alla borg. Og það var fyrir tíð Salomons sem framkvæmdir á sjálfbæra hverfinu Vauban hófust.

 

Vauban er nefnt eftir Sebastien Le Prestre de Vauban, frönskum marskálki sem byggði virki á 17. öld á sama stað og hverfið stendur núna. Í raun er svæðið sjálft nátengt hernaði. Árið 1936 var hafist handa við að byggja herskála sem voru notaðir af þýskum hermönnum á meðan þeir gengust undir grunnþjálfun. Eftir síðari heimstyrjöld tóku franskir hermenn við skálunum og höfðust þar við allt til ársins 1992.

 

Eftir að síðustu hermennirnir höfðu hypjað sig á brott fóru að flytja þangað hinar og þessar furðurverur. Aðallega hippar.

 

Þessir hippar fluttu gagngert til Freiburgar vegna veðursældarinnar (eins og fjölmargir hippar höfðu gert á undan þeim) því með henni væri líklegra að hægt væri að lifa algerlega sjálfbærum lífstíl. Hipparnir voru sniðugir og ekki leið á löngu uns íbúðarhverfi tók að rísa í Vauban, með þátttöku borgaryfirvalda og að frumkvæði hippana, með svo gott sem algerlega sjálfbærum byggingum.

 

Byggingarnar sem mynda Vauban hverfið eru meðal annarra  svokölluð Passivhaus, sem eru hönnuð til að fanga orku og hita sólarljóssins – sem hitar þannig húsin þegar kólnar í veðri. Húsin eru einstaklega vel einangruð og vernda því íbúana fyrir kulda á veturna, eða of miklum hita á sumrin. Passivhaus voru fyrst hönnuð á 9. áratug síðustu aldar af Bo Adamsson frá háskólanum í Lundi í Svíþjóð og Wolfang Feist hjá Institut Wohnen und Umwelt í Darmstadt í Þýskalandi.

 

Orkuhringrás Passivaus-húsanna útskýrð.

Orkuhringrás Passivhaus-húsanna útskýrð.

 

Þá má einnig finna hin frábæru PlusEnergy hús, en þök þeirra eru að öllu gerð úr sólarsellum. Öll orkuþörf PlusEnergy-húsanna kemur því frá sólarljósinu! Þvílík snilld. PlusEnergy hverfið var úthlutað Þýsku sjálfbærniverðlaununum árið 2008 og var árið 2006 kosið fallegasta borgarhverfi í öllu Þýskalandi.

 

Hluti PlusEnergy-hverfisins séður úr lofti.

Hluti PlusEnergy-hverfisins séður úr lofti.

 

Þá má auðvitað bæta við, að vanti einhvern lið til að halda með í þýska fótboltanum – þá er kjörið að halda með liði SC Freiburg. Þó ekki nema bara fyrir það að heimavöllur liðins Mage Solar Stadion (áður nefndur eftir ánni sem rennur í gegnum borgina, Dreisamstadion) er algerlega knúinn sólarorku. Og það var meira að segja þáverandi þjálfari liðsins, Volker Finke, sem átti frumkvæðið að því skrefi. Sólarsellum var einfaldlega komið fyrir á þökum stúkanna. Einfalt, ekki satt?

 

Mage Solar Stadion, áður Dreisamstadion.

Mage Solar Stadion, áður Dreisamstadion.

 

Það er ef til vill ekki furða að Freiburg sé kölluð Sólarborgin.