Árið 1910 tók þýskur fræðimaður merkilegar ljósmyndir á Melrakkasléttu. Rithöfundurinn Jón Trausti var í kjölfarið beðinn um að skrifa nokkur orð um myndirnar og æskustöðvar sínar við Rauðanúp, nyrst á sléttunni, þar sem ísköld úthafsaldan skellur á forna rauðleita eldstöð.


Jón Trausti var einn 500 Íslendinga sem létust úr spænsku veikinni 1918. Hann var aðeins 45 ára en hafði þó skrifað fjölmargar bækur, til dæmis sögulegar skáldsögur um Önnu á Stóruborg og Skaftáreldanna.

Þó að Jón Trausti sé nokkuð gleymdur í dag, var hann einn ástsælasti og vinsælasti rithöfundur þjóðarinnar á fyrstu áratugum tuttugustu aldarinnar. Nú á dögum er hann kannski fyrst og fremst þekktur fyrir sögurnar af Höllu á Heiðarbýlinu.


Guðmundur Magnússon, eins og hann hét réttu nafni, var fæddur 1873 í fátæka fjölskyldu á Melrakkasléttu. Fjölskyldan bjó sjálf um tíma í heiðarbýli, sem nú er í eyði, eins og flestir bæir á sléttunni.

En eftir að faðir Jóns Trausta lést, flutti móðir hans á bæinn Núpskötlu við Rauðanúp nyrst á vesturströnd sléttunnar þar sem stutt er til heimskautsbaugsins.

Árið 1910 ferðaðist þýski bókavörðurinn og fræðimaðurinn Heinrich Erkes til Íslands og tók merkilegar ljósmyndir sem varðveittar eru í Þjóðminjasafninu. Erkes ferðaðist átta sinnum til landsins, rannsakaði Öskju og fleiri eldfjöll. Hann fór líka á Melrakkasléttu, eins og sést á myndum hér í greininni.

Árið 1911 bað tímaritið Óðinn Jón Trausta að skrifa nokkur orð um myndir Erkes og minningar sínar um Melrakkasléttu sem hann hafði þá ekki séð í 12 ár.

Þá hafði Heinrich Erkes stungið upp á annar drangurinn við Rauðanúp, sem venjulega var kallaður „Karlinn“ yrði nú nefndur „Jón Trausti“. Það nafn er stundum notað enn um klettinn, sem er heimili fjölmargra fugla, þar meðal súla.

Guðmundur Magnússon, eða Jón Trausti, um hinar dularfullu æskustöðvar sínar við Rauðanúp, þar sem brimið skall á köldum klettum Melrakkasléttu (Óðinn, 1. tbl. 1911):

Myndirnar frá Rauðanúp vekja upp fyrir mjer kærar æskuminningar. Við ofurlitla vík austan undir núpnum stendur bærinn Núpskatla. Þar átti jeg heima frá því jeg var 10 ára og þar til jeg var 15 ára.

Núpskatla stendur á malargranda milli stöðuvatns og sjávar. Mölin er mjó og stórgrýtt, svo að ekki er fært yfir hana með hesta. Austast breikkar hún ofurlítið og þar er græddur upp túnskiki í kringum bæinn.

Vatnið er stórt og djúpt. Austurhluti þess liggur í djúpu jarðfalli og er austurbakki vatnsins gamall gjábarmur. Þar bjó huldufólkið, sem Göngu-Mangi (ömmubróðir minn) átti sífelt í höggi við, þegar hann bjó í Kötlu (líkl. um 1830).   

Jeg kunni þær sögur allar saman og marglifði þær upp í huganum. Jeg var tíður gestur í hömrum huldufólksins. Þar voru brattar brekkur, þaktar kafgrasi, undir hömrunum, en blágrænt hyldýpið fyrir neðan.

Oft lá jeg þarna í skjóli og bað huldufólkið um að birtast mjer, — marg-særði það um, að koma til mín út úr klettunum, ef það væri til, eða ljúka þeim upp fyrir mjer.  Og oft sofnaði jeg þar. En aldrei varð jeg huldufólksins var, hvorki í vöku nje svefni. Heyrði það ekki einu sinni skafa pottana sína inni í klettunum.

Á veturna lagði ágætan skíðaskafl af klettabrúnunum langt fram á ísinn á vatninu. Á vorin, þegar vatnið losnaði, brotnaði smám saman framan af skaflinum og stórir jakar sigldu um vatnið — sigldu stundum í silunganetin okkar og rifu þau öll í sundur.

Loks eyddist skaflinn með öllu og jakarnir líka.

En lang-vænst þótti mjer um núpinn. Jeg þóttist ekki lítill maður í fyrsta skifti sem jeg komst upp á hann. Síðan átti jeg þangað margar ferðirnar.

Núpurinn er ekki hár, um 450 fet. En vegna legu hans er þaðan afarmikil og fögur útsýn. Allur fjallaklasi Norðurlands, frá Siglunesi inn á Mývatnsöræfi, blasir við, og í mestu hyllingum sjást hnúkar vestur á Hornströndum. Grímsey er að sjá eins og gríðarstórt gufuskip vestur í hafinu. Austur um Sljettuna er útsýnin mikil að vísu, en ekki nærri því eins fögur.

Og mikils þótti mjer um vert að vera á núpnum þegar gufuskip fóru framhjá — að sjá nærri því beint ofan yfir þilfar þeirra fáa faðma frá fótunum á mjer. Jeg hef sjálfsagt tafist stundum frá smalamenskunni meira en góðu hófi gegndi þegar gufuskip voru að koma.

Ofan í miðjan núpinn er eldgamall gýgur, nefndur Ketill, aldeilis ódæma gímald. Hann hefur auðsjáanlega gosið eftir ísöld og hraunið runnið norðvestur úr honum ofan í sjóinn. Efri hluti núpsins er eintóm gjallhrúga úr »katlinum«.

Núpurinn er fagurlega þverhníptur að framan og mjög sundurjetinn af briminu. Þar stendur, laus frá höfuðbjarginu, drangur sá, er Heinrich Erkes frá Köln hefur nú hefið höfundarnafn mitt og nefnt Jón Trausta.


Á Melrakkasléttu. Erkes, 1910.

Áður var hann ekkert nefndur annað en »karlinn«. Það er líklega mesti drangur hjer við land, um 400 fet á hæð og eftir því á annan vöxt. Bjargið er alt kvikt af fugli og »nafni minn« alhvítur af fugladriti. Langt upp eftir bjarginu liggja grænar torfur af skarfakáli, og þekja urðina undir bjarginu, þar sem lundinn á heima.

Fremst í núpnum er bjargið alt úr blágrýti, en innan til koma fram í því bekkir af fagurrauðu móbergi, og inst er það í stórum skriðum. Það er þetta rauða móberg, sem gefið hefur fjallinu nafn. Minnistæðust af öllu, sem jeg sá í Kötlu, eru mjer haustbrimin þar. Aldrei hefur neitt þvílíkt borið fyrir mig.

Þar er að djúpt og í norðaustan-átt á haustin ganga hafsjóarnir óbrotnir alla leið upp í mölina og núpinn. Mölin veitir nokkurt viðnám, en þó gekk sjórinn yfir hana inn í vatnið, og heim á bæinn. Stórtrje rak stundum heim að bæjarveggnum hjá okkur, og með þessa einu byttukænu, sem stjúpi minn átti, var rjett að kalla hvergi friður.

Rekaviður við sjóinn á Melrakkasléttu. Erkes, 1910.

Að lýsa berserksgangi brimsins er mjer um megn. Mjer finst orðin falla máttlaus til jarðar eins og vængbrotnir smáfuglar; en myndirnar standa ógleymanlega skýrar fyrir mjer enn þá, eftir 25 ár, og brimgnýrinn ómar mjer enn í hlustum.

Ferlegast var að sjá brimið við núpinn. Þá veitti »nafna mínum« ekki af traustleika sínum, að sjóirnir skildu ekki velta honum um koll.

Hann stóð þar eins og stefni á brindreka, alveg hlífðarlaus, og klauf sjóana. Inn með honum að norðanverðu er vogur, sem nefndur er »gjáin« og fyrir handan hana annar blágrýtisdrangurinn, sem enn er þó fastur við höfuðbjargið og heitir Sölvanöf.

Þegar sjóarnir skullu inn í þessi þrengsli, gaus upp hvítur brimstrókur, sem náði langt upp fyrir bjargabrúnirnar, eða 450 fet yfir sjóarflöt.

Það er 4-5 sinnum hærra en Geysir kemur vatnsstólpa sínum, sem þó er margfalt grennri og úr ljettara vatni. Slíkt heljar-afl hefur ekkert, sem jeg þekki, annað en brimið.

Sjórinn er búinn að sverfa dálítið slöður inn í dranginn neðantil og eru þar helliskútar, sem óskapadrunur heyrast í, þegar brim er. Undir ölduborðinu eyðist bergið minna og fótur drangsins er alvaxinn þangi.

Um þetta slöður tekur brimið dranginn einhvern tíma í sundur; en langt verður þangað til.

Á Melrakkasléttu. Erkes, 1910.
Á Melrakkasléttu. Erkes, 1910.
Á Melrakkasléttu. Erkes, 1910.
Á Melrakkasléttu. Erkes, 1910.
Æðafuglavarp á Grjótnesi. Erkes, 1910.

Á Melrakkasléttu. Erkes, 1910.
Á Melrakkasléttu. Erkes, 1910.
Á Melrakkasléttu. Erkes, 1910.
Á Melrakkasléttu. Erkes, 1910.
Frá heiðarbýlinu þar sem Jón Trausti bjó sem barn um 1875, og var löngu komið í eyði þegar Þjóðverjinn Erkes myndaði það 1910.


Kvæði Jóns Trausta um leikvöll æskunnar.

Mynd Geirs Zoëga af dröngunum um 1930.