Í júlí 1992 varð Tómas A. Tómasson, betur þekktur sem Tommi á Búllunni, fyrstur manna á Íslandi til að fara í teygjustökk. Það gerði hann fyrir utan Kringluna á fimm ára afmæli verslunarmiðstöðvarinnar og Hard Rock Café á Íslandi, sem hann rak. SSSól lék Rolling Stones lagið Start Me Up á meðan Tommi stökk.

 

En sá sem fór næstur í teygjuna, að sögn Tomma, var heimsfrægur. Það var enginn annar en Steve Wozniak sem stofnaði Apple með Steve Jobs. Sá var á nokkurs konar heimsreisu um Hard Rock-staði og varð við þetta tækifæri því annar maður Íslandssögunnar til að fara í teygjustökk.

Wozniak og Steve Jobs á árum áður.

 

Tommi sagði þessa lygilegu sögu í hlaðvarpsþætti Snorra Björns á dögunum. Steve Wozniak kom til Íslands í nóvember 1991 og kíkti þá á Hard Rock í Kringlunni. Milljarðamæringnum leist greinilega vel á staðinn því í júlí 1992 var hann aftur kominn.

 

„Daginn sem Hard Rock verður fimm ára er hringt í okkur frá Hótel Holt. Og sagt að þar væri staddur maður sem vildi endilega koma á Hard Rock Café,“ segir Tommi. „Þá var það Steve Wozniak, sem var þá í ferð með vinum sínum, voru átta saman. Og ég var með skrifstofu í turninum í Kringlunni og þar voru svalir. Steve Wozniak var þar og horfði á hljómleikana og horfði á mig stökkva í teygjunni.”

 

Eftir að sjá stökkið fann Wozniak son Tomma og sagði: „Mig hefur alltaf langað til að stökkva í teygju. Má ég stökkva?“

 

„Og Steve Wozniak var annar maðurinn til stökkva í teygjustökki á Íslandi,“ segir Tommi á Hamborgarabúllunni.

 

DV fylgdist með Tomma á afmæli Hard Rock.