Adidas, merkið með rendurnar þrjár. „Die Weltmarke mit den 3 Streifen,“ eins og stendur undir íkónísku einkennismerki hins þýska íþróttarisa. En hvaðan komu þessar þrjár rendur? Flest höldum við að þær hafi einfaldlega komið frá Adi Dassler sjálfum, stofnanda fyrirtækisins. En svo er ekki. Á fyrstu árum Adidas einbeitti fyrirtækið sér að því að framleiða hlaupaskó og fótboltaskó. Um var að ræða keppnisskó, skór sem höfðu gadda eða takka. Þessir skór voru jafnan með tveimur röndum, ekki þremur. Það var ekki fyrr en eftir einn besta viðskiptasamning mannkynssögunnar árið 1951 sem Adidas tryggði sér réttinn á röndunum þremur. Þann rétt fékk fyrirtækið eftir að hafa samið við þáverandi risa í framleiðslu á keppnisskóm í íþróttum, finnska fyrirtækið Karhu. Andvirði samningsins nam um 200 þúsund íslenskum krónum að núvirði… en auk þess bætti Adi Dassler tveimur viskíflöskum við kaupverðið. Ágætis díll.

 

Adidas-hlaupaskór frá 3. áratug 20. aldar. Þarna voru aðeins tvær rendur á skóm fyrirtækisins.

 

 

Karhu, sem er finnska orðið fyrir björn, var stofnað árið 1916 í Finnlandi. Fljótlega varð fyrirtækið leiðandi frumherji í hönnun á íþróttaskóm svo eftir var tekið. Á sumarólympíuleikunum árið 1920 í Antwerpen náðu Finnar sér í heil fimm ólympíugull í hlaupagreinum og voru allir hlaupararnir auðvitað í Karhu-skóm, með þremur röndum. Þessi hlaupasveit Finna gekk jafnan undir viðurnefninu „hinir fljúgandi Finnar“ og vöktu þeir heimsathygli – og um leið gödduðu skórnir þeirra. Einn þessara fljúgandi Finna, Paavo Nurmi, gerði síðan gott betur árið 1924, á ólympíuleikunum í París, og fór heim með fimm ólympíugull. Hann hafði þá náð sér í átta gullverðlaun á tveimur leikum og vann til þeirra allra í Karhu-skóm.

 

Karhu-hlaupaskór frá 1940 með íkónískum þremur röndum.

 

Frægastur til að klæðast Karhu-skóm var þó ef til vill tékkneski hlauparinn Emil Zatopek, sem Lemúrinn hefur fjallað um áður. Hann hljóp í skónum með rendurnar þrjár á ólympíuleikunum í Lundúnum árið 1948 og vitaskuld einnig á ólympíuleikunum í Helsinki árið 1952, á heimavelli Karhu-merkisins. Þess má geta að á ólympíuleikunum í Helsinki safnaði Karhu alls 15 gullverðlaunum. Sem verður að teljast magnað.

 

Emil Zatopek í forystu. Hann hljóp jafnan eins og hann átti lífið að leysa.

 

En það var árið áður, árið 1951, sem Adi Dassler samdi við Karhu um að fá að nota þrjár rendur á þýsku skóna. Þá var Adidas tiltölulega óþekkt fyrirtæki en það átti eftir að breytast á komandi árum. Ekki síst eftir úrslitaleikinn á HM í fótbolta árið 1954, þegar þýska landsliðið fór með sigur af hólmi. Vitanlega klæddust þýsku leikmennirnir Adidas skóm, með þremur röndum, og gerðu merkið ódauðlegt í heimalandi sínu. Þessar tvær viskíflöskur sem Dassler greiddi fyrir rendurnar þrjár voru því fljótar að borga sig.

 

Adidas-fótboltaskór sem notaðir voru í úrslitaleik HM 1954.

 

Karhu framleiðir enn íþróttafatnað og sérhæfir sig í sérstaklega fallegum strigaskóm. Síðan á 7. áratug síðustu aldar hefur fyrirtækið notað stórt „M“ á sína skó. Sem verður að teljast nokkuð vel heppnað svona miðað við allt.

 

Karhu Champion Air. Frekar nettir!

 

Adidas er hins vegar á allt öðrum stað. Stærsti íþróttavöruframleiðandi í heimi og er það ekki síst að þakka hinum klassísku þremur röndum og þeim hetjum sem hafa klæðst þeim. Eins og til dæmis Bob Marley!

 

Bob Marley var einn þeirra sem gerðu Adidas-skó að vinsælum götuskóm.