Íslenskar riddarasögur eru, eins og allir vita, óþrjótandi uppspretta lestraránægju og lífsgleði. Ein af skemmtilegri sögum úr þeim hópi er Mírmanns saga, sem áður hefur verið fjallað lítillega um í þessu hlaðvarpi Lemúrsins og Kjarnans. Sagan heitir eftir aðalpersónunni Mírmanni, sem er sonur jarlsins Hermanns í Saxlandi og eiginkonu hans Brígíðu frá Ungverjalandi. Eitt af meginviðfangsefnum sögunnar er munurinn á kristni og „heiðni“ (en hugmyndir Íslendinga á miðöldum um það hvað heiðni eiginlega væri voru mjög óljósar). Mírmann er ungur maður þegar hann tekur þá mikilvægu ákvörðun að vanrækja blót og þegar fóstri hans Frakkakonungur tekur síðar kristni þá fylgir Mírmann honum, þvert á vilja foreldra sinna. Hin „rétta“ trú á síðan góðan þátt í því að gera Mírmann að einum fræknasta riddara sinnar samtíðar og hann vinnur ófáa röska heiðingja í einvígjum með hjálp Guðs. En þó Mírmann hafi tekið trú þá á hann engu að síður stundum erfitt með að sýna af sér kristna hegðun og söguþráðurinn hverfist í kringum það þegar hann brýtur alvarlega af sér. Snemma í sögunni verður Mírmann nefnilega föður sínum að bana í deilu um trúarmál og líður fyrir það miklar samviskukvalir. Í útgáfu sinni árið 1949 sagði Bjarni Vilhjálmsson að yfir allri sögunni væri „mikill trúarblær“ og fræðimenn hafa fundið margar hliðstæður við dýrlingasögur í atburðarásinni.

 

Það er vissulega rétt að miðaldakristni er alltumliggjandi í Í Mírmanns sögu en það hefur ekki stöðvað höfund hennar í því að láta aðalsöguhetjurnar, Mírmann og konungsdótturina Cecilíu, ganga í gegnum vægast sagt undarlega hluti í tilhugalífi sínu. Eftir að Mírmann drepur föður sinn byrlar móðir hans honum eitraðan drykk sem veldur því að Mírmann verður holdsveikur. Vinur hans konungurinn í Frakklandi útilokar hann samt ekki frá hirðinni, ekki einu sinni eftir að drottningin kvartar undan návist Mírmanns, en áður hafði hún gengið á eftir honum með grasið i skónum. Mírmann fær engu að síður ekki afborið þessa skömm, hann lætur það berast út að hann sé dáinn og heldur til Sikileyjar í dulargervi og kallar sig Jústínus. Á Sikiley býr nefnilega Cecilía sem er ekki bara gáfuð og falleg heldur besti læknir sem völ er á. Mírmann, sem þá er ekki bara afmyndaður af holdsveiki heldur orðinn of máttfarinn til að ganga og að dauða kominn, grátbiður hana um hjálp í kirkjudyrum og hún samþykkir að reyna að bjarga honum. Hún sér fljótt að honum hefur verið byrlað eitur og lýsir því yfir að í kviði hans hafi kviknað „sá illskukraftur, að hann má líkari þykja ormi en maðki, og blæs hann og angrar allan þinn líkama.“ Þessi hræðilegi ormur muni aldrei yfirgefa líkama hans fyrr en honum bjóðist annar hýsill.

 

Mírmann er skiljanlega mjög efinst um að nokkur finnist sem bjóði sig fram til þeirra örlaga, en vanmetur bæði góðmennsku og visku Cecilíu. Hún útbýr lyf og leiðir svo Mírmann inn í lítið herbergi þar sem þau eru einsömul fyrir utan þjónustusvein hennar. Síðan fylgir eftirfarandi atburðarás:

 

„Nú tók hann við drukknum og drakk, og vonum bráðara fann hann, að illskukvikindi renndi í háls honum og lá þar um stund, en hún mælti til hans nokkur orð og særði hann í nafni drottins Jesú Krists hins krossfesta að fara þá lengra. En þau lögðu þá saman sína munna. En þetta illkvikindi varð að hlýða orðum hennar og guðs vilja, og renndi þá í munn henni. En hann beit þá í sporðinn en hún geymdi höfuðhlutinn, en hún hélt á knífi og hleypti í sundur orminum í millum þeirra og tók nú þegar báða hlutina og kastaði í eld.

Þá mælti hún: „Hvað ætlar þú, Jústínus, hversu margar unnustur þú átt þær í Frakklandi, er slíkt mundi við þig gera?“

En hann var þá svo máttlítill, að hann mátti öngu svara.“

 

Ég meina, hversu sexí er það?