Þann 16. maí 1845 steig austurríska hörkutólið Ida Pfeiffer á land í Hafnarfirði. Pfeiffer var einn af mörgum evrópskum ferðalöngum sem heimsóttu Ísland á 19. öld í vísindalegum tilgangi, og birti í kjölfarið bók með ferðasögu sinni sem seldist í hestvagnaförmum. Ritun evrópskra ferðabóka af þessu tagi á sér langa sögu, eða allt frá lokum miðalda, en Pfeiffer var ein af fáum konum sem hösluðu sér völl sem landkönnuður. Lýsingar erlendra ferðalanga á Íslandi njóta töluverða vinsælda um þessar mundir auk þess sem ég taldi mig hafa fengið ágæta yfirsýn yfir þetta menningarfyrirbæri í sagnfræðinámi mínu. Engu að síður hafði ég ekki hugmynd um að neinn af þessum ferðalöngum hefði verið kvenkyns og varð töluvert hissa þegar ég uppgötvaði Idu Pfeiffer.

 

Ida Pfeiffer

Ida Pfeiffer

Ida Laura Reyer fæddist inn í efnaða millistéttarfjölskyldu í Vín árið 1797, og það virðist vera hálfgerð klisja í umfjöllun um hana að taka fram að pabbi hennar hvatti hana til að hegða sér eins og strákur, ganga í strákafötum, etja kappi við bræður sína og fara með þeim í kennslustundir. Hann dó þegar hún var níu ára, og í kjölfarið fylgdi nokkurra ára kalt stríð milli Idu og móður hennar, sem vildi fyrir alla muni gera hana hjónabandsvæna.

 

Það heppnaðist á endanum einum of vel, því þegar Ida var 17 ára hugnaðist henni að giftast heimiliskennaranum, sem hafði átt stærstan hlut í því að fá hana til að sættast við hlutskipti millistéttarkonunnar. Kennarinn þótti hinsvegar of fátækur og var rekinn burt með smán. Ida hélt þó sambandi við hann út ævina, því hann deildi ástríðu hennar fyrir ferðalögum og skrifaði sjálfur ferðabækur.

 

Sex árum síðar giftist Ida lögmanninum Mark Anton Pfeiffer og flutti með honum til austurrísku borgarinnar Lemberg/Liev í Úkraínu. Hr. Pfeiffer hafði allt til að bera sem heimilskennarinn hafði ekki haft, hann var um fimmtugt og vel stæður. Hið kaldhæðnislega er hins vegar að nokkrum árum síðar þá missti hr. Pfeiffer vinnuna. Ida Pfeiffer hélt því statt og stöðugt fram í bókum sínum að það hefði verið vegna þess að hann reyndi að fletta ofan af spillingu í austurríska embættismannakerfinu. Ég hef hins vegar ekki séð neinar aðrar heimildir fyrir því, og miðað við að Ida þagði þunnu hljóði um lögskilnað þeirra í metsölubókum sínum, þá get ég alveg séð fyrir mér að hún hafi eitthvað fegrað sannleikann í þessu máli.

 

Ida Pfeiffer

Portrett-mynd af Ídu Pfeiffer

Þrátt fyrir bestu óskir móðurinnar, þá endaði Ida á því að gera það sem þótti eflaust afar óæskilegt í hennar kreðsum, að vinna fyrir eiginmanni og börnum með því að bjóða upp á einkatíma í kvenlegum hannyrðum og píanóleik, fögunum sem hún hafði sjálf hatað ákaflega sem barn. Að lokum gafst hún upp og flutti með syni sína tvo aftur til Vínar, og gat fjármagnað menntun þeirra með móðurarfi sínum, eftir að hún var skilin við eiginmanninn.

 

Pfeiffer var þá orðin 45 ára, og hafði uppfyllt þær kröfur sem hún taldi að samfélagið ætti rétt á að gera til sín, hún hafði gifst og alið upp börnin sín með eins sómasamlegum hætti og henni var unnt. Því ákvað hún að láta drauma sína rætast, og ferðast. Fyrsta ferðalag hennar lá til Landsins helga, sem hún áleit að væri viðeigandi metnaður fyrir dömu á hennar aldri. Það tók hana tvö ár að safna fyrir ferðinni, en peningaskortur átti eftir að hafa mótandi áhrif á öll hennar ferðalög, á tímum þegar flestir frístundaferðalangar, karlkyns eða kvenkyns, voru bæði auðugir og vel menntaðir.

 

Eftir sína fyrstu ferð skrifaði Pfeiffer ferðabók upp úr dagbókum sínum, og notaði ágóðann til að fara í fleiri ferðalög. Það var einmitt í annarri ferð sinni sem hún fór til Skandinavíu og Íslands, en síðar meir fór hún einnig tvær mismunandi leiðir kringum hnöttinn. Hennar síðasta ferð, árið 1857, lá til Madagascar. Hún gekk inn í afar eldfimt ástand. Samfélagið logaði af nornaveiðum og drottningin Ranavalona I varpaði Pfeiffer í fangelsi fyrir að vera útsendari evrópskra nýlenduherrra. Pfeiffer tókst að sleppa, en á flóttanum veiktist hún af malaríu sem stöðvaði frekari ferðalög hennar, og dró hana til dauða í Vín árið eftir.

 

Pfeiffer í ferðafötum með skordýranet. Myndin birtist í evrópsku tískutímariti.

Pfeiffer í ferðafötum með skordýranet. Myndin birtist í evrópsku tískutímariti.

 

Bókina sem Pfeiffer skrifaði um ferð sína til Íslands er hægt að nálgast ókeypis í enskri þýðingu á vef Gutenberg verkefnisins. Hana hraðlas ég, auk nokkurra greina sem gera úttekt á óríentalisma í skrifum kvenkyns ferðalanga á 19. öld, en skrif Pfeiffer og annarra ferðalanga um Austurlönd nær, Asíu, Ameríku og Afríku hafa verið heilmikið rannsakaðar undanfarna áratugi í sambandi við evrópska nýlendustefnu. Bók Pfeiffer um Ísland er aldrei með í þeirri umfjöllun. Væntanlega finnst engum ferðaskrif um Ísland áhugaverð, nema þá auðvitað Íslendingum sjálfum. Flestir þeirra evrópsku og bandarísku höfunda sem ég las voru á þeirri skoðun að konur hefðu haft örlítið flóknari nálgun á framandi menningar en karlmenn, og í færslu í Women in World History. A Biographical Encyclopaedia um Pfeiffer er henni hælt sérstaklega fyrir skilning og samúð með aðstæðum fólks í löndunum sem hún heimsækir.

 

Í svona aðstæðum þá tel ég það dýrmætt að vera Íslendingur. Þegar Evrópubúar fóru að skrifa ferðabækur fyrir alvöru, eftir að þeir römbuðu á Nýja heiminn, þá urðu ýmis ágætlega þekkt lönd skyndilega áhugaverð, þar á meðal Ísland. Þá var um að gera að lýsa því landi á sem furðulegastan hátt, til að toppa þær furðusögur sem bárust frá hinu nýja meginlandi. Þekktasta dæmið á Íslandi um þetta hlýtur að vera Íslandsfrásögn Dithmars Blefken. Þó þeir vísindaleiðangrar sem legðu leið sína til Íslands á sautjándu, átjándu og nítjándu öld væru nú skömminni skárri en bullarinn Blefken, þá deildu þeir allir ákveðinni afstöðu. Ísland var á mörkum þess að tilheyra Evrópu, landslag og náttúra þóttu allskostar framandi, og fólkið, tjah, var það Evrópubúar eða ekki? Íslendingar gátu bæði átt kost á inngöngu í Kaupmannarhafnarháskóla og erindi á Skrælingjasýningu, og kannski var það einmitt þessi tvíræðni sem virkilega truflaði erlenda ferðalanga, þegar þeir litu á íslenska bændur þurftu þeir að horfa framan í Skrælingjann í sjálfum sér.

 

Oft hef ég tekið eftir því að Íslendingar fyllast ákveðinni kátínu þegar þeir lesa lýsingar erlendra manna á því hve skítugir, fáfróðir og ógeðfelldir Íslendingarnir sem þeir hittu á 19. öld hafi verið. Þetta eru eflaust viðbrögð við þeirri ýktu þjóðerniskennd sem er nuddað framan í okkur öll á tyllidögum og í skólakerfinu, og því skiljanleg. En það er eitthvað rangt við að hlæja að þessu. Myndum við fyllast kátínu þegar þessir sömu ferðalangar lýsa barnaskap, dugleysi og heimsku fólks í Afríku, Austurlöndum eða Asíu? Ég held ekki. Eða ég vona ekki. Það er okkur dýrmætt að Ísland hafi verið flokkað á þennan hátt, því með þeirri innsýn og samúð sem við höfum gagnvart lifnaðarháttum forfeðra okkar, þá getum við séð í gegnum þá fordóma og þau forréttindi sem stjórnuðu þessum höfundum þegar þeir skrifuðu um aðrar þjóðir.

 

Því það er virkilega truflandi að lesa „samúðarfulla og skilningsríka“ frásögn Pfeiffer af tveggja og hálfs mánaðar dvöl hennar hér á Íslandi. Í upphafi frásagnarinnar birtir hún útdrátt úr bók Skotans Mackenzie, Travels in Iceland, þar sem öll helstu mannföll síðustu hundrað ára á Íslandi eru m.a. talin upp. Hún hafði því ágæta þekkingu á þeim efnahagslegu erfiðleikum sem Íslendingar bjuggu við, en sú þekking hafði lítil áhrif á framkomu hennar við Íslendinga. Lýsing hennar á fólkinu sem hún hittir eru dreifðar um bókina, en á einum stað gerir hún beinlínis upp við væntingar sínar og þau vonbrigði sem Íslendingar ollu henni. Hún viðurkennir að hún hafi fyrirfram gert sér vonir um að Íslendingar stæðu öðrum Evrópuþjóðum framar að mannkostum, vegna fátæktar og einangrunar. Þegar hún kemst að hinu gagnstæða, þá hvarflar ekki að henni að endurskoða viðhorf sín til mannbætandi áhrifa fátæktar og einangrunar, það er bara eitthvað að Íslendingum.

 

Kápumyndin. Hver kannast ekki við þetta landslag?

Kápumyndin. Hver kannast ekki við þetta landslag?

 

Í Reykjavík gistir hún hjá Bernhöft bakara og fjölskyldu hans, og kann þeim vel söguna. Heldri borgarar í Reykjavík þykja henni hins vegar almennt ómerkilegur pappír, enda sýndu þeir henni litla sem enga vinsemd meðan á dvöl hennar stóð. Pfeiffer trúði því að það væri vegna þess að öfugt við flesta erlenda ferðalanga, þá var hún hvorki rík né fræg. Athygli íslensks almúga kann hún hins vegar lítt að meta, og virðist nokkuð blind á það að með því er hún að sýna nákvæmlega sömu framkomu og reykvískir góðborgarar sýndu henni.

 

Lýsingar Idu Pfeiffer á íslenskum almenningi eru margvíslegar og oft býsna áhugaverðar, því húsmóðir úr millistétt kemur óneitanlega með öðruvísi sjónarhorn til framandi lands en háskólamenntaður aristókrati. Tvö atriði renna þó eins og rauður þráður í gegnum lýsingar hennar á Íslendingum, hún hættir ekki að undrast það hversu fátækir þeir séu, og jafnframt skelfilega ágjarnir. Aftur og aftur lýsir hún fátækt landsmanna, sem ekki einu sinni prestarnir eru undanskyldir, og á næstu blaðsíðu botnar hún síðan ekkert í því af hverju allir vilja að hún greiði fyrir gistingu, fyrir leiðsögn, fyrir leigu á hesti. Þetta finnst henni fyrir neðan allar hellur, og græðgi Íslendinga leggst ofan á þá lesti þeirra að vera of hugmyndasnauðir og latir til að bæta efnahagslegar aðstæður sínar.

 

Einn af fyrstu leiðöngrum Idu á Íslandi var ferð til Krýsuvíkur. Þar var henni í fyrsta skipti boðið að gista í kirkju. Fátt virðist hafa hneykslað borgaralegt siðferði hennar meira á Íslandi: „I do not suppose that a parallel instance of desecration could be met with even among the most uncivilised nations.“ Hún undrast að þetta skuli hreinlega ekki vera bannað með lögum. En, eftir þetta, þá neitar Pfeiffer að sofa nokkurs staðar annars staðar en í kirkjum. Hún getur ekki hugsað sér að sofa í vistarverum innfæddra, því það er bara alltof ógeðslegt. Í eitt skipti neyðist hún til að gista á bæ þar sem ekki er völ á neinni kirkju, en getur sem betur fer fundið geymslu sem lyktar betur en Íslendingar.

 

Þrátt fyrir fullyrðingar Idu um að Íslendingar séu alvanir því að vanhelga kirkjur með því að gista í þeim, þá virðist hún samt yfirleitt vekja undrun þegar hún gengur út úr kirkju að morgni til: „Nothing amused me more, when I had lodgings of this description, than the curiosity of the people, who would rush in every morning, as soon as I opened the door.  The first thing they said to each other was always, “Krar hefur hun sovid.”“

 

Bókin er skreytt 8 myndum en ekki er getið höfundar.

Bókin er skreytt 8 myndum en ekki er getið höfundar.

 

Af ýmsu að dæma í bókinni, þá virðist Ida hafa haft einstaka tungumálahæfileika. Hún virðist aðallega hafa tjáð sig á dönsku meðan hún var á Íslandi, þó ekki viti ég hvar hún lærði hana, en náði auðsýnilega ágætis grundvallartökum á íslensku. Enda er eitt frægasta atriðið úr ævi hennar þegar hún var stödd í Indónesíu og vingaðist við herskáar mannætur með því að gantast við þær á tungumálinu Batak. Miðað við hæfileka hennar, menntun og það sem Íslendingum  hafa virst auðæfi, þá er kannski ekki að undra að Íslendingar hafi ítrekað álitið hana menntaðri en hún var. Prestar gerðu almennt séð ráð fyrir því að hún kynni latínu, og þetta virðist hafa farið ósegjanlega í taugarnar á Pfeiffer. Að kona kynni latínu! Hversu fávíst gat þetta fólk eiginlega verið! Mögulega þótti henni þetta svona niðurlægjandi af því að sem barn og unglingur hafði hún viljað læra latínu? Eða gáfu Íslendingar óafvitandi í skyn með þessu að Pfeiffer væri of karlmannleg, sem var ásökun sem hún hafði þurft að verjast allt frá barnæsku?

 

Margir Íslendingar gerðu sér líka væntingar um að þessi framandi, evrópska kona kynni lækningar og gæti hjálpað þeim:

 

„ … once, in the course of one of my solitary wanderings about Reikjavik, on my entering a cottage, they brought before me a being whom I should scarcely have recognised as belonging to the same species as myself, so fearfully was he disfigured by the eruption called “lepra.”  Not only the face, but the whole body also was covered with it; the patient was quite emaciated, and some parts of his body were covered with sores.  For a surgeon this might have been an interesting sight, but I turned away in disgust.“

 

Hún hafði hreinlega ekki til örðu af samúð með manneskju sem var að dauða komin og örvæntingunni sem fékk fjölskyldu hennar til að grípa hvert hálmstrá í von um hjálp. Ef eitthvað er, þá virðist henni hafa þótt atvikið hálfhlægilegt. Í þessu samhengi þá verður samúð hennar með íslenska hestinum, sem Íslendingar misnotuðu sárlega vegna heimsku sinnar, leti og grimmdar, ekkert nema furðuleg.

 

Ida Pfeiffer gekk að sjálfsögðu á Heklu.

Ida Pfeiffer gekk að sjálfsögðu á Heklu.

 

Kannski hafa evrópsku og bandarísku fræðimennirnir rétt fyrir sér, og skrif Idu Pfeiffer um íbúa Indónesíu, Kína og Austurlanda voru almennt séð umburðarlynd, skilningsrík og samúðarfull. Ég hef ekki lesið fleiri bækur eftir hana, og kynnti mér ekki einu sinni sérlega vel hvað hún hafði að segja um norska og sænska bændur. Mögulega var bara eitthvað við Íslendinga sem vakti upp í henni þessa óstjórnlegu fyrirlitningu. Kannski voru Íslendingar í alvörunni svona vonlausir, eða þá að það var bara ekkert heillandi við frumstæða bændur þegar þeir voru hvítir í framan og gátu lesið latínu. En ef til vill upplifa fræðimenn, sem skrifa ekki á evrópskum tungumálum, bækur hennar og annarra kvenkyns ferðalanga á annan  og verri hátt.