Norski tónlistarmaðurinn Tønes nýtur talsverðra vinsælda í heimalandi sínu um þessar mundir. Hann semur og flytur oft kómísk og sérviskuleg lög á mállýsku heimabæjarins Sóknardals í Rogalandi.

 

Fyrir nýjasta tónlistarmyndband sitt við lagið Dråba i sjøen gróf Tønes upp gamlar Hi8-upptökur frá því að hann ferðaðist um Ísland með kærustunni sinni árið 1998. Þarna eru lundar og mávar, túristar í skærlituðum vindjökkum, Gullfoss og Geysir og rok og vegasjoppur.

 

Vídjó

 

Með myndbandinu skrifar tónlistarmaðurinn svo minningar sínar frá Íslandi:

 

Ég velti fyrir mér hvort við höfum myndað Ameríkanann með sólhattinn sem talaði svo hátt í rútunni. Hann var með svona vatnshelt ferðaveski um hálsinn. Líklega var hann með ferðabók um Ísland í veskinu. Fann stutt myndskeið, það var allt saman.

 

Ég man vel eftir heita vatninu í Bláa lóninu, ísbreiðunni, öllum skrítnu ferköntuðu marglitu húsunum, fararstjóranum sem sagði að íslenskar kindur ferðuðust alltaf þrjár saman í hóp, Geysi þar sem allir Japanirnar voru, Gullfossi, Ítalanum með kringlóttu gleraugun og stóru kvikmyndavélinni sem fór í sömu ferðir og við. Mig langar aftur þegar ég sé myndskeið tekið út um glugga á hossandi rútu. 

 

Allt í einu erum við í Vík. Við förum upp að fjalli og ég zooma á lunda uppi í fjallinu, það var 120x digital zoom á vélinni svo að myndin hristist hryllilega og gæðin eru frekar lítil. Lundinn flaug af stað og hvarf sjónum. Að lokum myndaði ég eldri konu í bleikum íþróttagalla. Hún sat og borðaði ís í rokinu fyrir utan búðina sem seldi allskonar ullarvörur.

 

Í Vík getur maður verið maður sjálfur. 

 

Norski tónlistarmaðurinn Tønes saknar Víkur.

Norski tónlistarmaðurinn Tønes saknar Víkur.