Í hundrað ára stríðinu var barist í stuttum orrustum riddara með löngum hléum. Einn furðulegasti bardaginn fór fram í neðanjarðargöngum.

 

Hundrað ára stríðið átti sér stað á árunum 1337-1453 og ætti því réttilega að nefnast hundrað og sextán ára stríðið. Í því áttust hinir fornu fjendur Englendingar og Frakkar við og var aðallega barist í Frakklandi. Orsök stríðsins var sú að franski kóngurinn, Karl IV, lést án þess að eignast karlerfingja og enski kóngurinn, Játvarður III, átti tilkall til frönsku krúnunnar.

 

Stríðsrekstur var ekki stöðugur á tímabilinu og segja má að það hafi einkennst af mörgum stuttum orrustum með löngum hléum á milli. Englendingar stóðu sig betur framan af en Frakkar náðu yfirhöndinni undir lokin. Þar sem þetta gerist á þeim tímum er riddarar eru ráðandi í stríðsrekstri kemur ekki á óvart að riddaramennskan hafi verið í hávegum höfð í stríðinu og eru til mörg dæmi um slíkt hjá báðum stríðsaðilum.

 

100_yrs_war

Í hundrað ára stríðinu börðust riddarar í snörpum orrustum með löngum hléum.

 

Ein af furðulegri orrustum stríðsins var háð nálægt Poitouhéraði í Vestur-Frakklandi. Lúðvík II, hertoginn af Búrbón, var þar á ferð ásamt herdeild sinni og kom að kastala sem Englendingar réðu yfir. Hann var virtur mjög og talinn einn af fínustu aðalsmönnum Frakklands.

 

Fyrst reyndi Lúðvík að gera áhlaup á kastalann en hann var of vel varinn til þess að menn hans kæmust að. Okkar maður dó ekki ráðalaus og datt snjallræði í hug. Í stað þess að hefja umsátur, ákvað hann að spara tíma og skipaði mönnum sínum að grafa göng undir kastalann til þess að komast inn.

 

Englendingarnir í kastalanum sáu hvað þeir frönsku voru að gera og ætluðu aldeilis ekki að láta koma sér á óvart þannig að þeir svöruðu í sömu mynt og hófu að grafa á móti. Eins og gefur að skilja tók þessi gröftur nokkra daga.

 

Einn daginn fær Lúðvík þær fregnir að göngin hafi mæst. Lúðvík ákvað þá að skora á Englendingana að senda göfugan riddara til að mæta frönskum riddara í göngunum. Yfirmaður ensku herdeildarinnar var hálf skömmustulegur þegar hann þurfti að viðurkenna að það væri engin riddari í þeirra röðum.

 

Hann bauð hins vegar fram göfugan greifa sem var tilbúinn að berjast.

Lúðvík II, hertoginn af Búrbón (1337-1410).

Lúðvík II, hertoginn af Búrbón (1337-1410).

 

Lúðvík taldi að það væri nægjanlega háborinn andstæðingur þannig að hann ákvað sjálfur að berjast og klæddi sig í brynju og setti upp hjálm til að mæta greifanum. Gangnagerðarmenn höfðu ekki lagt það á sig að hafa göngin mjög breið né há þannig að það var ómögulegt að sveifla sverði í göngunum.

 

Það var bara pláss til að pota sverði lítillega í andstæðinginn. Hertoginn og greifinn hófu þá að pota í hvorn annan og sökum þess hversu brynvarðir þeir voru var ekki einn einasti möguleiki að neinn mundi særast í þessum bardaga.

 

Hertoganum fannst þetta svo afskaplega skemmtilegt og var svo spenntur að hann hrópaði stríðsöskur sitt. Þá uppgötvaði greifinn hvern hann var að berjast við og þótti svo mikið um þann heiður að hann bauðs til þess að gefast upp ef Lúðvík mundi slá hann til riddara. Lúðvík samþykkti það en bað greifann að fresta uppgjöfinni um einn dag.

 

Hann gæti ekki neitað mönnum sínum um það gaman að fá að berjast í göngunum. Endaði það svo að restin af deginum fór í það að liðin skiptust á að senda hermenn ofan í göngin til að berjast og Englendingarnir gáfust svo upp næsta morgunn. Lúðvík sló svo greifann til riddara og menn skiptust á gjöfum.

 

Óskandi væri að fleiri hermenn gætu tekið riddaramennsku þessara ágætu manna sér til fyrirmyndar.