Oss hryllir við þessum skelfilega glæp og í máli þessu dæmum vér, sakfellum og fyrirskipum að svínið, sem hefir nú verið handtekið og haldið er föngnu í klaustrinu, skuli hengt af böðlinum og kyrkt til dauða í gálganum á aftökustað, öðrum víti til varnaðar.“

 

Svo hljómaði úrskurður dómarans við réttarhöld nokkur árið 1494, í klaustrinu Saint Martin de Laon í Frakkland. Dómarinn í málinu var Jehan Levoisier, lærður lögspekingur og hæstráðandi í klaustrinu. Digurt svín stóð frammi fyrir honum, sakað um að hafa farið inn á heimili og afskræmt andlitið á kornabarni, með þeim afleiðingum að barnið lést. Levoisier sakfelldi skepnuna og dæmdi hana til dauða.

 

Í dag teljum við flest að dýr geti ekki borið siðferðislega ábyrgð á gjörðum sínum, að minnsta kosti ekki á sama hátt og manneskjur. Á miðöldum tíðkaðist það hins vegar að rétta yfir skepnum fyrir hin ýmsu lögbrot. Svín, hross, beljur, kettir, rottur og jafnvel bjöllur enduðu frammi fyrir dómara í réttarsal, sökuð um alls kyns glæpi og gjörninga sem þóttu til ama.

 

Myndskreyting úr bók Evans. Þar sjást dýrin ganga berserksgang.

Myndskreyting úr bók Evans. Þar sjást dýrin ganga berserksgang.

Um þetta er fjallað í stórmerkilegri bók, The Criminal Prosecution and Capital Punishment of Animals (ísl. Lögsókn og dauðarefsing dýra), eftir E. P. Evans. Bókin er frá árinu 1906 og greinir í smáatriðum frá þeim furðulega sið miðaldamanna að rétta yfir dýrum. Það mun hafa verið nokkuð algengt í Evrópu á öldum áður og átti sér stað allt fram á fyrri hluta 20. aldar.

 

Svín voru sérlega tíðir sakborningar í slíkum uppákomum. Margar frásagnir hafa varðveist af réttarhöldum yfir þessum greindu og bragðgóðu skepnum, en þær voru nær iðulega hengdar fyrir afbrot sín, væntanlega öðrum dýrum víti til varnaðar.

 

Það er kannski ekki svo skrýtið að hættulegum dýrum skuli hafa verið banað, en það hlýtur þó að teljast einkennilegt í hæsta máta að þau hafi yfirhöfuð þótt verðskulda réttarhöld. Ótrúlegt en satt virðast skepnurnar í mörgum tilfellum hafa búið við sömu réttindi og mannfólkið andspænis lögvaldinu. Þær áttu til dæmis rétt á nægu fæði í fangaklefanum og fengu jafnvel verjanda.

 

Bartholomew Chassenee, franskur lögfræðingur á 16. öld, gat sér orðspor sem sérlega fær rottuverjandi. Hann er sagður hafa eitt sinn sannfært dómara um að fresta réttarhöldum sökum erfiðleika við að tjá sakborningunum hvenær þeir skyldu að mæta fyrir réttinn. Þegar loksins kom að réttarhöldunum var rotturnar hvergi að sjá, en Chassenee stóð ekki ráðþrota. „Það er varla sanngjarnt að krefjast viðveru sakborninganna,“ sagði hann við dómarann. „Það er köttur á svæðinu.“

 

Svín mætir örlögum sínum í gálganum.

Svín mætir örlögum sínum á meðan pöpullinn gónir á.

 

Fágætt var að dýr slyppu undan harðri hendi réttvísinnar. Yfirleitt fór það bara á einn veg þegar þau voru á annað borð sökuð um glæpsamlegt athæfi. En undantekningar voru á því, eins og öllu. Í Frakklandi á miðöldum var maður nokkur í bænum Toulouse sakaður um að hafa átt samræði við asnann sinn. Hann var snarlega fundinn sekur og hengdur, en asnanum var þyrmt eftir að aðstandendur tjáðu dómaranum að dýrið hefði ekki verið viljugur þátttakandi í syndinni.

 

Þessi réttarhöld yfir dýrum hljóta að vekja upp undrun, enda virðist í fljótu bragði sem hugsunin að baki réttarhöldunum stingi í stúf við þá guðspeki og réttarheimspeki sem var við lýði í kristnu Evrópu. Guðfræði kristindómsins hefur ætíð gert skýran greinarmun á dýrum, sem enga sál hafa, og syndugu mannlegu drottnurum þeirra. Án sálar eru skepnurnar viljalaus hluti af sköpunarverki Guðs, og ættu því ekki að geta syndgað eða borið ábyrgð á gjörðum sínum á nokkurn hátt.

 

Hér sést köttur hljóta verðskuldaða refsingu sína frammi fyrir Guði.

Hér sést köttur hljóta verðskuldaða refsingu sína frammi fyrir Guði.

 

Sagnfræðingar hafa lagst í rannsóknir og sett fram ýmsar kenningar til skýringar á þessu sögulega fyrirbrigði. Sumir vísa í hjátrú miðaldamanna og segja þá hafa talið dýrin andsetin djöflum eða illum öndum. Aðrir telja skýringuna liggja í atvinnuleysi meðal lögfræðistéttarinnar og fjölgun lögfræðinga á miðöldum. Enn aðrir segja það hafa þótt lögspekilega áhugavert að verja svo óvenjulega skjólstæðinga. Svo kann þetta einnig að hafa verið eins konar mannhverfur helgisiður, til þess gerður að staðfesta biblískt vald mannfólksins yfir dýrum jarðar. En hver veit? Erfitt er að skyggnast inn í hugarheim miðaldamannsins, fjarri okkur í tíma og veruleika.

 

Þess má geta að árið 1993 kom út myndin The Hour of the Pig, sem segir frá réttarhöldum yfir svíni á 15. öld. Colin Firth fer með aðalhlutverkið, en persóna hans mun vera byggð á rottuverjandanum Bartholomew Chassenee, sem áður kom við sögu.