Þessi grein birtist í Heimilisritinu árið 1957:

 

„Reglur um kossa
Þessar reglur um kossa birtust nýlega í enskri bók:

 

1. Í samkvæmi, þar sem kossaleikir eru tíðkaðir, ber að gæta þess að skola munninn oft og vel.
2. Gætið þess að verða ekki fyrir snöggum hitabreytingum, er þið kyssið.
3. Kyssið ekki á fjölförnum stöðum.
4. Það er stórhættulegt að kyssa í loðkápu aðra mínútuna og léttklæddur þá næstu.
5. Kyssið ekki í járnbrautarlestum, strætisvögnum, blómabúðum, leikhúsum, matvörubúðum og lyftum.
6. Kyssið aldrei í illa loftræstu herbergi.
7. Það er óskynsamlegt að kyssa þann, sem hefur inflúensu.
8. Varast ber að kyssa þann, sem er eitthvað lasinn. (Skarplega ályktað frá næstu reglu á undan!)
9. Ef þið þurftið að iðka listina að kyssa, gerið það þá í einrúmi og freistið ekki annarra.
10. Ef þið eruð „miður ykkar“ eftir að hafa kysst, þá fáið ykkur heitt sinneps-fótabað – og forðizt dragsúg“