Hvað var það sem einkenndi tónleika hjá Bítlunum? Svarið er pissulykt.

 

Þegar fólk rifjar upp tónleika með Bítlunum, hvort sem það var svo heppið að sjá þá í eigin persónu, eða hefur horft á gamlar upptökur, þá er hávaði oftast það fyrsta sem kemur upp í hugann. Ekki hávær rokktónlist, heldur hávaði í áhorfendum, sem flestir voru ungar stúlkur sem réðu sér ekki af kæti þegar þær börðu goðin sín augum.

 

Ófáar fréttamyndir eru til af tónleikum Bítlanna þar sem unglingar, sérstaklega stelpur, virðast missa alla sjálfstjórn þegar fjórmenningarnar frá Liverpool mæta á svæðið.

 

Öskrandi og grátandi yfirgnæfa þær tónlistina og sagan segir að Bítlarnir hafi einfaldlega gefist upp á því að spila á tónleikum. Þeir heyrðu ekki í sjálfum sér. Bítlamanían svokallaða yfirtók aðdáendur þeirra og stundum naut enginn tónleikanna, hvorki gestir né flytjendur.

 

Vídjó

 

Tónlistarmaðurinn Bob Geldof hefur þó aðra sögu að segja af sinni upplifun. Hann segir að þrátt fyrir að hávaðinn sjálfur hafi verið mikill sé hann ekki sterkasta minningin. Lækjarsprænur af hlandi runnu um allt gólf. Fólk hélt greinilega ekki vatni yfir Bítlunum. „Stelpurnar migu bókstaflega í sig af hrifningu. Þannig að þegar ég hugsa um Bítlana hugsa ég um pissulyktina,“ sagði Geldof í viðtali við tímaritið Q árið 2010.

 

Fleiri skrýtnar sögur af Bítlunum.